12.11.1980
Neðri deild: 15. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (523)

38. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það lagafrv., sem hér er til umr., er flutt til staðfestingar á brbl. nr. 68 9. sept. 1980. Þessi brbl. voru gefin út í tengslum við gerð aðalkjarasamnings við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og í tengslum við þá samninga um félagsleg málefni opinberra starfsmanna sem gerðir voru milli fjmrn. fyrir hönd ríkisstj. annars vegar og BSRB og BHM hins vegar í kjölfar aðalkjarasamningsins við BSRB. Frv. fjallar um breytingu og viðauka við lög nr. 29 frá 1976, um kjarasamning Bandalags starfsmanna ríkis og bæja.

Í 1. gr. er gert ráð fyrir því, að lögin nái einnig til starfsmanna sjálfseignarstofnana sem starfa í almannaþágu samkv. lögum, til stofnana sem eru í fjárlögum eða njóta fjárframlaga til launagreiðslna úr ríkissjóði eða af daggjöldum, enda komi til samþykki viðkomandi stofnana. Með þessu heimildarákvæði er sem sagt opnuð leið til þess, að þeir félagsmenn BSRB, sem nú falla utan ramma kjarasamningalaga, geti orðið aðilar að samningum BSRB og ríkisins, en til þessa hefur skort lagaheimild til slíks. Til þess að svo megi verða er þó áskilið að samþykkt viðkomandi stofnana komi til, þ.e. að þær afhendi fjmrh. umboð til að semja fyrir sína hönd við samtök starfsmanna.

Þá er í 2. gr. frv. gert ráð fyrir því, að 8. gr. laganna orðist svo: „Kjarasamningar skulu vera skriflegir. Kveðið skal á um lengd samningstímabils í aðalkjarasamningi.“

Það hefur lengi verið baráttumál Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, að samningstíminn verði samningsatriði, en ekki bundinn í lögum við tvö ár eins og verið hefur fram að þessu. Í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að við lögin bætist nýr kafli, X. kafli, og fjallar hann um atvinnuleysisbætur til handa félagsmönnum BSRB, en seinasta mál á dagskrá hv. deildar fjallaði einmitt um þann þátt atvinnuleysisbótamálsins sem sneri að Bandalagi háskólamanna. Í þessu frv., sem snýr að félagsmönnum BSRB, er efni þessa nýja kafla á þessa leið:

Félagsmenn BSRB, sem ekki njóta ákvæða 14. gr. laga nr. 38/1954, þ.e. um atvinnuleysisbætur, skulu njóta atvinnuleysisbóta sambærilegra við annað launafólk, í samræmi við gildandi lög um atvinnuleysistryggingar, einkum IV. og V. kafla laganna, og framkvæmd þeirra á hverjum tíma. Bótaréttur verður m.a. háður því skilyrði, að atvinnulaus starfsmaður hafi sannanlega ekki neitað annarri vinnu sem boðist hefur, sbr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og túlkun hennar á liðnum árum. Ríkið skal annast útgjöld vegna atvinnuleysisbóta ríkisstarfsmanna, en sveitarfélög skulu annast útgjöld vegna atvinnuleysisbóta til starfsmanna sinna, hvert fyrir sig eða fleiri sameiginlega, eftir því sem þau sjálf ákveða. Gert er ráð fyrir að félmrh. geti sett reglur um atvinnuleysisbætur til starfsmanna sveitarfélaga, að fengnum tillögum Sambands ísl. sveitarfélaga og að höfðu samráði við stjórn BSRB. Sérstök nefnd skal ákveða atvinnuleysisbætur og úrskurða ágreining sem upp kann að koma. Nefndin skal skipuð tveimur fulltrúum frá BSRB, einum frá fjmrn. og einum frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, en einn skal skipaður af Hæstarétti.

Við umr. um seinasta mál á dagskrá kvaddi sér hljóðs hv. þm. Friðrik Sophusson og gerði nokkrar aths. við það frv. sem stendur í nánum tengslum við málið sem hér er nú á dagskrá, og skal ég nú fara nokkrum orðum um það sem fram kom hjá honum.

Hann kvartaði yfir því í fyrsta lagi, að greinargerðir þessara frv. til staðfestingar á brbl. væru fátæklegar í hæsta máta, og held ég að varla verði undan því komist að taka undir þessi orð, því að með þeirri venju, sem fylgt hefur verið og fylgt er við framlagningu þessa frv., að birta einungis efni brbl. sem sett eru án þess að gera neina frekari grein fyrir efni frv. eða einstökum greinum, þá er í raun og veru brotin sú meginregla sem gildir um önnur frv. hér í þinginu, að gerð sé grein fyrir málinu sér á parti í sérstakri grg. Má eiginlega segja að það eina sem segi um frv., þegar þessi aðferð er notuð, séu inngangsorð forseta Íslands sem venjulega eru þó mjög stuttaraleg eðli máls samkv. Ég tel þessa ábendingu hv. þm. fullkomlega réttmæta og að taka þurfi til athugunar að breyta þessari venju og ganga frá frv. með venjulegum hætti. En það verður ekki gert héðan af með þessi frv. og verður að skoðast á síðara stigi.

Í öðru lagi spurði hv. þm. hvort hægt væri að segja að uppfyllt væri það ákvæði stjórnarskrárinnar, sem kveður á um það, að brbl. megi gefa út ef brýna nauðsyn beri til. Ég held að þessi spurning hafi komið upp í huga manna næstum því jafnoft og brbl. hafa verið gefin út. Það er mjög umdeilt pólitískt atriði hverju sinni, hvort brýna nauðsyn beri til að brbl. séu gefin út. En staðreyndin er sú, að hér á landi hefur þetta stjórnarskrárákvæði ævinlega verið túlkað nokkuð frjálslega og það algerlega lagt í vald viðkomandi ríkisstj. að meta, hvort brýna nauðsyn beri til. Á þetta reyndi nokkrum sinnum fyrir Hæstarétti fyrir fjöldamörgum árum, en Hæstiréttur komst ávallt að þeirri niðurstöðu, að það skyldi vera mat viðkomandi ríkisstj., hvort skilyrði stjórnarskrárinnar væru uppfyllt hvað þetta snertir. Ég held að ég geti leyft mér að fullyrða að það hafi verið skoðun ríkisstj. þegar þessi brbl. voru gefin út, að brýna nauðsyn bæri til að þau yrðu gefin út. Og skýringin á því er ósköp einfaldlega sú, að það var farið að dragast úr hófi fram að komið yrði á kjarasamningum hér á landi. Ekki höfðu verið gerðir nýir kjarasamningar um þriggja ára skeið, og t.d. höfðu kjarasamningar opinberra starfsmanna verið lausir frá miðju ári 1979. Það var ljóst, að kjarasamningagerð við opinbera starfsmenn gæti ýtt undir samninga við aðra launamenn, og því mætti ekki draga það, ef nokkur kostur væri, að ganga frá slíkum samningum.

Þeir samningar, sem gerðir voru í sumar, höfðu ótvírætt marga kosti frá efnahagsleg u sjónarmiði. Hér var um að ræða hóflega samninga með tiltölulega litlum launabreytingum, en þó langmestum launabreytingum hjá þeim, sem neðstir eru í launastiganum, og síðan hægt dvínandi upp á við, eftir því sem launin verða meiri. Þetta voru því sannarlega launajöfnunarsamningar, og vissulega er mjög mikilvægt að ríkið skyldi geta gefið hinum almenna vinnumarkaði slíkt fordæmi með frjálsum samningum við opinbera starfsmenn.

Þeir, sem voru ofan við miðjan launastigann, fengu sem sagt enga hækkun, og það er í samræmi við stefnumótun núv. ríkisstj. þegar hún var mynduð, að áherslu yrði að leggja á lægri launin og stuðla að launajöfnun í þessari samningalotu. En til þess að unnt væri að fá menn til að samþykkja stefnumótun af þessu tagi varð auðvitað eitthvað annað að koma í staðinn, því að óneitanlega verður því ekki á móti mælt, að kaupmáttur launanna hefur farið jafnt og þétt dvínandi seinasta árið fram að því að þessir samningar voru gerðir.

Við vitum öll skýringuna á því, að kaupmátturinn hefur farið dvínandi. Skýringin er einfaldlega sú, að verðbótavísitala mælir ekki jafnmikla hækkun og framfærsluvísitala, bæði vegna þess, að miðað er við breytingar sem verða kunna á viðskiptakjörum, og í öðru lagi vegna þess, að nokkrir liðir framfærsluvísitölu eru dregnir frá við útreikning á verðbótavísitölu. Sá tími, sem liðið hefur frá því að þessi ákvæði voru sett í lög, hefur verið tími talsvert mikillar viðskiptakjararýrnunar. Þar af leiðir að kaupmáttur launa hefur hægt og þétt farið minnkandi og augljóst mál að það kemur ekki eingöngu niður á láglaunafólki, heldur á öllum launamönnum.

Ég held að það hafi verið augljóst mál hverjum sem á horfði, að ekki var auðvelt að gera samning af því tagi, sem ég var nú að lýsa, öðruvísi en að jafnframt væri gerður samningur um ýmisleg félagsleg réttindamál, sem varða miklu fyrir opinbera starfsmenn. Það voru einkum þrjú réttindamál sem þeir lögðu hvað mesta áherslu á. Í fyrsta lagi að þeir fengju rýmkaðan samningsrétt, í öðru lagi, að þeir fengju atvinnuleysisbætur á við aðra launamenn, og í þriðja lagi, að gerðar yrðu nokkrar breytingar á lífeyrislögum opinberra starfsmanna.

Ég held að það sé ósköp einfalt mál, að samningar hefðu ekki verið gerðir í ágústlok, þeir hefðu dregist um skeið, sennilega um nokkurra mánaða skeið, ekki hefði verið hægt að ganga endanlega frá þessum atriðum. Og það er ekki rétt, að ríkisstj. hefði getað lofað því að beita sér fyrir því að frv. um þetta efni yrðu lögð fram á Alþ., vegna þess að reynslan er sú, að það dregst mjög oft lengi að Alþ. afgreiði mál, og forsenda þess, að samningar af þessu tagi yrðu gerðir, var að sjálfsögðu sú, að þessi réttindamál kæmu til framkvæmda um leið og samningurinn væri undirritaður eða um leið og samningurinn hefði verið samþykktur. T.d. var það mikið áhersluatriði af hálfu forustumanna Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, að einmitt atvinnuleysistryggingarnar tækju gildi strax, að það frestaðist ekki í kannske hálft ár eða jafnvel lengur, að einmitt það atriði kæmi til framkvæmda.

Að lokum minntist hv. þm. Friðrik Sophusson á það, að á undanförnum dögum hefðu verið bornar upp margar spurningar um væntanlegar efnahagsaðgerðir ríkisstj., en ekki hefðu fengist skýr svör við því, hvenær þessara aðgerða væri að vænta eða í hverju þær yrðu fólgnar. Ég held að það hlyti að teljast verulegt nýmæli ef stjórnarandstaðan fengi ævinlega svarað öllum spurningum sem bornar eru fram og eru þessa eðlis. Ég held að það verði að horfast í augu við það í þetta sinn eins og oft áður, að ríkisstj. sér ekki ástæðu til að opinbera aðgerðir sínar með töngum fyrirvara eða upplýsa stjórnarandstöðuna um þær, síst af öllu ef ýmsir þættir málanna hafa enn ekki verið ákveðnir eins og er í þessu tilviki. Ég vil hins vegar segja það, að efnahagsaðgerðir eru auðvitað stöðugt í gangi hjá sérhverri ríkisstj. og þessi ríkisstj. hefur beitt sér fyrir endurteknum efnahagsaðgerðum af ýmsu tagi, enda hefur það verið hennar aðalvandi að halda hjólum atvinnulífsins gangandi og koma í veg fyrir að alvarleg stöðvun yrði í atvinnurekstri. Og ég vil minna á í hverju þessar aðgerðir í efnahagsmálum hafa verið fólgnar.

Fyrsta efnahagsaðgerðin var samþykkt fjárlaga á s.l. vetri.

Önnur efnahagsaðgerðin var samþykkt skattalaga á s.l. vori. Ef hvorugt þessara mála hefði náð fram að ganga vegna allsherjar stjórnleysis hér á Alþ. og í þjóðfélaginu, þá býst ég við að efnahagsástandið væri nú allmiklu verra en það er.

Þriðja aðgerðin í efnahagsmálum, sem tók nokkurn tíma, var undirbúningur lánsfjáráætlunar sem vissulega varðar allt efnahagslífið verulega miklu.

Fjórða aðgerðin í efnahagsmálum var kjarasamningur við opinbera starfsmenn, og var mikil vinna í það lögð að tryggja almenna kjarasamninga í þjóðfélaginu. En gerð kjarasamninga er auðvitað undirstaða þess, að efnahagslíf og atvinnulíf geti gengið með eðlilegum hætti. Og nú höfum við lagt fram nýtt fjárlagafrv. og erum með í undirbúningi nýja lánsfjáráætlun.

Því hefur verið lýst yfir, að von sé á efnahagsaðgerðum í byrjun næsta árs í tengslum við væntanlega gjaldmiðilsbreytingu. Ég vil fullvissa alla hv. þm. um það, að efnahagsaðgerðir verða engar framkvæmdar nema að vandlega undirbúnu máli og eftir að ítarleg samráð hafa farið fram við aðila vinnumarkaðarins, bæði vinnuveitendur og þá ekki síður verkalýðshreyfingu. Hins vegar er ljóst að það tekur nokkurn tíma að gera sér grein fyrir því, hver staða mála er eftir gerð nýrra kjarasamninga og eftir að fjárlagafrv. hefur verið lagt fram, þannig að meta megi með fullu raunsæi hver er áætluð verðlagsþróun að öllu óbreyttu á næsta ári. En forsenda þess, að hægt sé að undirbúa samræmdar efnahagsaðgerðir, er auðvitað sú, að menn hafi í höndunum sem gleggstar upplýsingar um það, hver þróunin er líkleg að verða.

Nú segja menn kannske að búið sé að spá því, hver verðbólgan verði, og það vanti ekki spádómana frá Verslunarráði Íslands eða spádómana frá Vinnuveitendasambandinu og ýmsa aðra spádóma sem fram hafa komið. En ég vil vekja á því athygli, að eitt af grundvallaratriðunum í sambandi við þessa spádóma var það, hver yrði vísitala, framfærsluvísitala og verðbótavísitala 1. nóv., og þar voru uppi spádómar um mjög háar tölur. Við skulum sjá fyrst hvort þær rætast. Ég minnist þess, að í sjónvarpsumræðum fyrir einum mánuði átti ég í nokkrum sviptingum við fyrrv. fjmrh., Matthías Á Mathiesen, sem fullyrti að framfærsluvísitalan mundi hækka um 13% núna 1. nóv. og 1. des. Ég hélt því fram, að þarna væri ofáætlað og líklegt væri að hækkunin yrði um eða undir 11%, eins og ég mun hafa sagt í þessum umr. Ég hef glögga vitneskju um það, að þessi skoðun mín reyndist rétt og lægri talan, sem nefnd var í þessum umr., sú tala sem ég nefndi, um eða undir 11%, er rétta talan. Mun það væntanlega koma í ljós þegar kauplagsnefnd gefur upplýsingar um hækkun framfærsluvísitölu, annaðhvort í dag eða á morgun eða næstu daga.

Kjarni málsins er sem sagt sá að í þessum spádómum um verðbólgu höfðu t.d. Vinnuveitendasambandið og Verslunarráð bersýnilega mjög ofáætlað hækkun vísitölu nú 1. nóv., sem kemur til framkvæmda 1. des. Þessi atriði öll þarf auðvitað að taka með í reikningana áður en frá þeim er gengið og áður en viðræður við aðila vinnumarkaðarins hefjast, sem ég geri ráð fyrir að verði á næstu vikum. En auðvitað segir það sig sjálft, að ekki er hægt að gera hér grein fyrir þessum væntanlegu aðgerðum þar sem endanlegar ákvarðanir um þær hafa alls ekki verið teknar og þær hafa ekki verið ræddar með þeim hætti við aðila vinnumarkaðarins sem stjórnarsáttmálinn gerir ráð fyrir.