22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4892 í B-deild Alþingistíðinda. (5230)

335. mál, framkvæmdasjóður aldraðra

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að harma það, að nefndin skyldi ekki hafa treyst sér til þess að velja þá leið sem ég legg hér til, að binda framlagið til Framkvæmdasjóðs aldraðra við tekjuáætlun ríkissjóðs.

Algengt er að sú leið sé farin ef menn vilja leggja sérstaka áherslu á afmörkuð verkefni. Minnist ég í því sambandi sérstaklega á Byggðasjóðinn þegar honum voru tryggð 2% af fjárlögum í sínar lánveitingar (MB: Það hefur verið svikið í framkvæmdinni.) Að vísu hefur það verið svikið í framkvæmdinni, eins og hv. 1. þm. Vestf. segir hér réttilega, en eigi að síður hefur þessi leið tryggt Byggðasjóði verulegt fjármagn á umliðnum árum.

Alþfl.-menn hafa lagt til að binda framlagið til Framkvæmdasjóðs aldraðra ákveðnum hundraðshluta af tekju- og eignarskatti. En ég vil einnig segja um þá tekjuöflunarleið, að mjög hefur verið á reiki á undanförnum árum hversu hár tekju- og eignarskatturinn hefur verið, og persónulega kann ég illa við þann þanka, að á sama tíma og menn berjast fyrir lækkun tekjuskatts skuli þeir berjast á móti framlagi til Framkvæmdasjóðs aldraðra. Ég get ekki hugsað mér af þeim sökum að tengja framlagið til Framkvæmdasjóðs aldraðra tekjuskattinum. Ég tel hann of háan og hlýt þess vegna að velja aðra viðmiðun.

Við 1. umr. málsins beindi ég því til fjh.- og viðskn., að hún athugaði sérstaklega tvö atriði í sambandi við þennan nýja skatt. Það hefur farið fram hjá mér ef formaður n. hefur gert þeim skil í sinni ræðu. Ég vakti annars vegar máls á því við 1. umr., að í áramótaboðskap sínum hefði ríkisstj. lofað verkalýðshreyfingunni verulegum lækkunum á beinum sköttum. Ég óskaði eftir upplýsingum um hvort verkalýðshreyfingin teldi að þessi nýi skattur, sem hér er lagður til, rúmaðist innan þess samkomulags sem fjórir af forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar, forseti og varaforseti Alþýðusambands Íslands, formaður Verkamannasambands Íslands og formaður Einingar á Akureyri, gerðu við ríkisstj. varðandi lækkun skatta. Hv. 3. þm. Austurl. vék ekki einu einasta orði að þessum þætti málsins. Óska ég enn eftir því, að upplýsinga um þetta atriði verði leitað eða a. m. k. að fram komi að n. hafi ekki séð ástæðu til þess að grennslast fyrir um það hvert væri álit verkalýðshreyfingarinnar á þessum nýja skatti.

Ég sakna þess einnig, að hv. 3. þm. Austurl. skyldi ekki gera grein fyrir því, hversu ríkisstj. hefði gengið að nýta sér þær heimildir sem hún hefur aflað sér til þess að draga úr rekstrarkostnaði ríkissjóðs. Ég hef haldið því fram, að ríkisstj. hafi nýtt sér þessar heimildir að mjög takmörkuðu leyti og að þær 10 millj. kr., sem hér er gert ráð fyrir að renni til Framkvæmdasjóðs aldraðra, rúmist innan ónotaðra heimilda ríkisstj. til að draga úr rekstrarkostnaði ríkisins. Einnig á þetta atriði var ekki drepið í framsöguræðu formanns nefndarinnar.

Ég vek athygli á að í meðförum fjh.- og viðskn. hefur sá kostur verið tekinn að tímasetja þennan skatt svo, að hann skuli eingöngu vera lagður á á þessu ári, árinu 1981. Við vitum að verulegur kostnaður fylgir álagningu skatts sem þessa, útreikningar í skattstofu, skriffinnska og þar fram eftir götunum. Ég álít að litlar 10 millj. kr. séu svo óveruleg upphæð, að hún réttlæti ekki nýja skattheimtu kostnaðarins vegna. Með því að samþykkja þennan skatt erum við að kasta í glatkistuna verulegum tíma og verulegum fjármunum. Þess vegna get ég ekki fallist á þetta.

Hitt vekur sérstaka athygli mína, að n. skuli ekki hafa treyst sér til þess að láta ríkissjóð leggja af mörkum svo sem helming þess sem nú er ætlast til af þegnunum að þeir greiði, litlar 5 millj. kr. Miklu geðfelldari hefði þessi skattheimta orðið ef ríkissjóður hefði séð af einhverju í dvalarheimilissjóð aldraðra. Skattheimtan hefur aldrei verið meiri en núna. En till. mín um þetta við 1. umr. málsins vakti ekki meiri athygli í n. en svo, að á hvorugt þessara atriða minntist formaður n. einu einasta orði. Og ég get ekki séð að hann sé hér og hafi hlýtt á mál mitt það sem af er þessari ræðu, sem sýnir ljóslega hvers konar færibandastofnun Alþingi er orðið. Engu máli skiptir hver málatilbúnaðurinn er, engu máli skiptir hvað einstakir þm. leggja til. Fyrirlitningin er augljós á rétti þm. til þess að láta athuga sín mál í nefndum. Í þessu tilfelli lagði ég til að fjh.- og viðskn. kynnti sér sérstök atriði. En þau sérstöku atriði hafa ekki verið könnuð í n. Þó greiddu fjh.- og viðskn.-menn atkv. með því, að málinu yrði vísað til fjh.- og viðskn. En það var greinilega ekki gert til þess að þær athuganir færu fram sem ég óskaði eftir, — greinilega ekki til þess. Ég tel þó að mikið hafi áunnist að því leyti til, að n. treysti sér ekki til að slá því föstu að þessi smánefskattur skuli vera til frambúðar.

Ég er ekki sammála því, að það sé nein lausn þótt 10 millj. kr. eigi að verja með þessum hætti í þessu skyni. Ég tel það ekki. Og ég vil vekja athygli á því, að það mikla framtak, sem gert hefur verið í málefnum aldraðra í Kópavogi, sýnir okkur glögglega að einstaklingarnir geta áorkað miklu, miklu meiru en sveitarfélög og ríki, þegar vilji þeirra stendur til þess. Eins og að þessu máli er staðið verða ekki nein þáttaskil. Miklu fremur hefði maður getað búist við því, að deildin mundi sýna meiri höfðingsskap en mér virðist nú útlit fyrir. Ég geri hér úrslitatilraun til þess við 2. umr. málsins að binda framlagið til Framkvæmdasjóðs aldraðra tekjuáætlun fjárlaga, eins og ég sagði áðan. Ég fer þar troðnar slóðir, þær leiðir sem best hafa reynst ef við viljum lyfta einhverju Grettistaki að þessu leyti. Ég væri reiðubúinn til að fara enn hærra en í 0.3%.

Við 3. umr. málsins mun ég svo flytja frekari brtt. ef þeirri tekjuöflunarleið, sem ég legg hér til, verður — gegn von minni — hafnað.

Að síðustu vil ég segja það, að fjöldi fólks hefur haft samband við mig vegna þeirrar tillögugerðar sem ég hafði hér við 1. umr. málsins, þar sem ég talaði um að eina tryggingin fyrir því að ganga svo frá hnútunum, að ekki losni um þá, sé einmitt þessi: að tengja framlagið heildarfjárlögunum. Ég vænti þess því, að hv. alþm. muni ekki skella skollaeyrum við þessu, þeir muni nota tækifærið um leið og hafna því að leggja á enn einn nýjan skatt.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja hér fram skrifl. brtt.: „Við 2. gr. 1. tölul. orðist svo: 0.3% af tekjum ríkissjóðs samkv. fjárlögum.“