22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4894 í B-deild Alþingistíðinda. (5231)

335. mál, framkvæmdasjóður aldraðra

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði við umr. um þetta mál fyrr og beindi þá raunar spurningu til hæstv. fjmrh. sem því miður var ekki í salnum, en ég vil nota tækifærið núna, af því að hann situr í stól sínum, og beina þeirri spurningu til hans, hvers vegna hann og félagar hans í Alþb. hafi nú ekki notað tækifærið í sambandi við þetta veigamikla og góða mál til þess að skattleggja fyrirtæki og félög í þeim tilgangi að ná inn meira fjármagni í þann framkvæmdasjóð sem hér um ræðir.

Ég minnti á það þegar ég ræddi þetta mál fyrr, að hæstv. fjmrh. Ragnar Arnalds hélt eitt sinn mikla ræðu hér á þingi og átaldi það harðlega, að hér á landi væri fjöldinn allur af fyrirtækjum og félögum sem nákvæmlega enga skatta bæru. Þá minnist ég þess, að hann hafi veifað plaggi nokkru ærið miklu, sem á voru nöfn — ég held rösklega eitt þúsund fyrirtækja sem þá voru með öllu tekjuskattslaus. Hefði nú ekki verið kjörið — og ég beini líka orðum mínum til hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur — að skattleggja þau fyrirtæki, sem það fólk hefur fórnað kröftum sínum sem við erum nú að undirbúa ellina fyrir með þessu frv.?

Ég sakna þess mjög, að menn skuli ekki hafa komið auga á þann kost að skattleggja fyrirtækin í þessum tilgangi og þá m. a. til þess að fá meira fjármagn inn í sjóðinn, og lít svo á, að með þessum beina nefskatti á hvern skattskyldan einstakling í landinu, sem kominn er yfir 16 ára aldur, sé ekki verið að gera annað í raun og veru en að hlaupa fram hjá vísitölunni. Megintilgangurinn með nefskattinum er auðvitað sá, að hann verður ekki talinn með í vísitöluútreikningi. Þess vegna er þessi leið farin. Ef þetta hefði hins vegar verið prósenta ofan á aðra skatta, t. d. tekjuskatta eða eignarskatta, þá hefði það reiknast í vísitölunni. (Gripið fram í.) Eignarskatturinn hefði gert það ef það hefði komið á hann.

Þá vil ég einnig beina orðum mínum til hv. þm. Alberts Guðmundssonar sem sagði við umr. hér fyrr um þetta mál að hann mundi vilja styðja till. sem fæli það í sér að fyrirtæki yrðu skattlögð vegna þess að málefnið væri svo gott að það væri þess virði. (Gripið fram í.) Þetta kæmi á fyrirtækin, þessi nefskattur. Já, ég hef það rétt eftir, að hv. þm. sagði að hann mundi styðja brtt. þar sem kæmi fram að fyrirtækin yrðu skattlögð.

Ég vil endurtaka það, að mér finnst ranglega að farið í þessu máli að skattleggja eingöngu einstaklinga, m. a. vegna þess að flatur skattur af þessu tagi kemur auðvitað verst niður á þeim sem lægstu launin hafa, eins og allir skattar sem flatir eru og lagðir eru á í þjóðfélaginu. Ég er ekki þar með að vorkenna neinum að borga 100 kr. í þessu skyni. En einhverra hluta vegna er ég þeirrar skoðunar að t. d. hv. þm. Alþb. hefðu átt að styðja það, að þessi skattur kæmi með meiri þunga á þá sem hærri tekjurnar hafa. Og ég vil sem sagt beina þeirri spurningu - eins og ég gat í upphafsorðum mínum — til hæstv. fjmrh., af hverju hann hafi nú ekki beitt sér fyrir því sem þm. Alþb. að nota þetta tækifæri og skattleggja þau fyrirtæki sem hann hefur ítarlega og oft kvartað yfir að bæru enga skatta.