22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4910 í B-deild Alþingistíðinda. (5247)

301. mál, umferðarlög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hv. 10. þm. Reykv. gerði hér að hluta til grein fyrir því, hvers vegna við nokkrir nm. skrifuðum undir með fyrirvara. Ég tel mér engu að síður skylt að eyða hér nokkrum orðum og gera grein fyrir fleiri atriðum þar sem mér virðist að þetta mál hafi verið keyrt áfram af áróðri án þess að hann hefði ávallt við rök að styðjast. Samt vil ég byrja á því að geta þess, að eftir að ég átti viðræður við landlækni runnu á mig tvær grímur. Hann hélt því ákveðið fram, að þetta væri sú aðgerð sem væri mest fyrirbyggjandi í heilbrigðismálum á Íslandi og mundi skila mestum árangri í þeim efnum að draga úr slysatilfellum. Ég skal viðurkenna það, að þó að mér sé frekar illa við bílbelti vil ég ekki leggjast gegn svo afdráttarlausri staðhæfingu manns sem vinnur að heilbrigðismálum, vitandi það að gjöld Íslendinga til heilbrigðismála hækkuðu á milli ára um 65%.

En það er fyrst og fremst ein staðreynd í þeim upplýsingum, sem við höfum fengið, sem ég held að sé hægt að tala um sem vissu. Hún kemur fram í ritinu Heilbrigðisskýrslur 1981 nr. 2, Bílbelti. Þar stendur, með leyfi forseta, í kaflanum Þróunin:

„Á árunum 1947–1955 sýndu Bandaríkjamenn fram á þá staðreynd eftir margþættar tilraunir, að fast spenntur þyldi mannslíkaminn hemlunarkrafta sem væru 30 sinnum meiri en eigin þungi.“

Aftur á móti þegar maður rennir augunum yfir þær upplýsingar, sem koma fram í ritinu Umferðarslys og öryggisbelti, og kannar þar fyrstu blaðsíðuna, þá renna á mann tvær grímur um að röksemdafærslan sé í alla staði sannfærandi. Þar segir í 1. gr., með leyfi forseta:

„Dánartíðni í umferðarslysum hækkar á Íslandi, en lækkaði á hinum Norðurlöndunum eftir lögleiðingu öryggisbelta þar. Slösuðum í umferðarslysum hérlendis hefur fjölgað á árunum 1975/1976–1977/1978“. Í fyrsta lagi er þessi tími það stuttur að hann er varla marktækur, og í annan stað er það ekki tekið fram þarna í samantektinni, þó að það komi fram annars staðar í skýrslunni, að olíukreppan dró úr akstri og einnig var farið í það að lækka umferðarhraða í þessum löndum. En ég óttast að of margir telji að með lögleiðingu bílbelta höfum við fundið einhverja allsherjarlausn á þessum vanda og horfum fram hjá þeim tölulegu staðreyndum sem blasa við. Menn þyrftu að beita kröftum sínum — og þar á ég við dómsmrh. og hans starfsmenn — að því að á því verði ráðin bót sem sannanlega fer miður í umferðarmenningu okkar Íslendinga. Og þá snúum við okkur að alvarlegasta þættinum í þeim tölulegu upplýsingum sem við nm. fengum í hendur. Hann er að finna á bls. 7 í því sama riti og ég las hér upp úr áðan. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa hér örlítinn kafla:

„Úr töflu 7 í viðauka og af mynd 5 má lesa að tíðni látinna og slasaðra í umferðarslysum á Íslandi í aldurshópnum 17–20 ára er nær fjórföld miðað við tíðni í aldurshóp 25–64 ára. Aldurshópunum 7–16 ára og 21–24 ára er einnig mun hættara við umferðarslysum en fólki á aldrinum 25–64 ára. Í næstu töflu og á mynd 6 má sjá aldursdreifingu ökumanna er aðild áttu að slysum á Íslandi 1978 og í Danmörku 1976. Hlutfallslega fleiri yngri ökumenn áttu aðild að umferðar- eða dauðaslysum á Íslandi en í Danmörku.“

Hér komum við að aðalatriðinu sem við verðum að snúa okkur að. Við verðum með einhverjum ráðum að tryggja það, að þeir æskumenn sem fá bifreiðar til umráða geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir þegar þeir eru sestir undir stýri. Þar vantar mikið á að Íslendingar standi jafnfætis Norðurlandabúum. Ég vona og vil leggja á það höfuðáherslu, — ég vona að sú mikla hreyfing, sem orðið hefur á umr. um bílbeltin, verði ekki til þess að menn gleymi aðalatriðinu, tölfræðilega séð aðalatriðinu sem kemur fram í þeim gögnum sem okkur hafa verið afhent í þessu máli, og það er hve mikið vantar á að ungir ökumenn á Íslandi geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir. Þar stöndum við höllum fæti í samanburði við hin Norðurlöndin.