22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4911 í B-deild Alþingistíðinda. (5248)

301. mál, umferðarlög

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Þær geta verið ærið ruglingslegar, þær hugmyndir sem menn hafa um frelsið. Þetta litla frv., sem hér er til umr., er tvíþætt. Annars vegar á að heimila hjólreiðafólki, sem í þessum tilfellum eru börn og unglingar, að hjóla á gangstéttum — einungis heimila. Hins vegar á, með mildilegum hætti þó, að lögfesta bílbelti. Hv. þm. Karvel Pálmason, sem hér hefur talað gegn þessu frv., báðum þessum atriðum, vill viðhalda banni á börn og unglinga við því að hjóla á gangstéttum — gangstéttum hér í Reykjavík t, d. sem í mörgum tilfellum eru yfirleitt ekki notaðar af gangandi fólki — og helst væntanlega að senda lögregluna á börnin til að banna þeim að hjóla á gangstéttunum, en í hinu tilfellinu er talað um lögregluríki sem hér sé verið að innleiða. Þessi atriði í málflutningnum eru dregin fram til þess að undirstrika það, hversu ruglingslegar hugmyndir manna geta iðulega verið um það, hvað séu boð og bönn, hvað sé frelsisskerðing, sem í þessu tilfelli á auðvitað ekki að kalla svo, heldur skipulagningu, og hins vegar hvað sé frelsi. Og stóryrðum um það, að hér sé um að ræða óeðlilega frelsisskerðingu, ber auðvitað alfarið að vísa á bug.

Það, sem hér er um að ræða, er að löggjafinn er — og raunar óvenjulega mildilega — að gera tilraun til þess að ganga á undan og breyta hegðunarmunstri fólks. Og hegðunarmunstur fólks er með ýmsum hætti. Við skulum taka sakleysislegustu dæmi, að fatnaður manna breytist frá kynslóð til kynslóðar og fjölmargt af því, sem við gerum og er óvenjulegt á einum tíma, er venjulegt á öðrum tímum og er af saklausu tagi. Og auðvitað er þetta af hinu saklausara tagi. Það er enginn maður sviptur neinum grundvallarmannréttindum þó svo þetta sé í lög leitt. Og á það ber að leggja þunga áherslu, hversu hægt hér er farið í sakirnar. f fyrsta lagi er ekki gert ráð fyrir að þessi lög taki gildi fyrr en eftir nokkra mánuði. Í öðru lagi á að útfæra þessi lög þannig að refsingar komi ekki til. Hvað þýðir það? Það þýðir að starf lögreglumanna og þeirra, sem annast löggæslu, verður væntanlega skipulagt með þeim hætti, að þeir geti stöðvað bíla og bent fólki á að þetta séu lög í landinu, og sinni fólk því ekki, taki fólk það illa upp — sem ég satt að segja dreg mjög í efa að fólk geri — en komi það í ljós, gagnstætt spádómum mínum og margra annarra, að fólk taki þetta illa upp, telji að hér sé um frelsisskerðingu með einum eða öðrum hætti að ræða, þá er löggjafanum í sjálfsvald sett að breyta lögunum aftur eða öllu heldur að láta þau ekki koma enn frekar til framkvæmda. Og ég held að þegar við stöndum andspænis þeirri tölfræði erlendis, alveg óyggjandi niðurstöðum sem auðvitað er ógerlegt að mæla í mót, þá sé það auðvitað fullkomlega réttlætanlegt, hvernig sem á þau mál er lítið, að gera þessa tilraun til að breyta hegðunarmunstri fólks. Áframhaldið mun síðan ráðast af viðtökunum.

Við verðum auðvitað að hafa það alveg skýrt, að þetta er ekki eini þáttur umferðarmála sem við höfum reglur um. Við höfum t. a. m. reglur um hraðatakmarkanir. Og sannleikurinn er sá, að þegar menn eru að velta fyrir sér slíkum reglum, þá leggja þeir á vogarskál annars vegar þá hagræðingu, sem af reglunum hlýst, og hins vegar þá áhættu, sem menn taka fyrir sjálfa sig og aðra, og auðvitað væri það önnur leið til þess að draga stórkostlega úr slysahættu að lækka hámarkshraðann. Það er ekki spurning um frelsi annars vegar og þvinganir hins vegar, og við höfum hvort sem er slíkar reglur. En það er nú mat manna að allur almenningur, sem lögin eiga auðvitað að þjóna, leggi það mat á að óhagræðið, sem hlýst af miklu lægri hraða, miklu meiri hraðatakmörkunum, sé svo mikið að það sé ekki réttlætanlegt. Og svona mat erum við að leggja á, ekki bara í umferðarlögum, heldur í miklu fleiri atriðum og í miklu fleiri efnum í hinu daglega lífi. Því er þetta sagt, að því er algerlega vísað á bug að eitthvað sé í reglum af þessu tagi sem með einum eða öðrum hætti er ávísun á lögregluríki. Það er ekki, af tveimur ástæðum: Í fyrsta lagi vegna þess að auðvitað eiga reglur eins og þessar, skipulagning eins og þessi, sér stað svo víða að þetta breytir engu, ekki einu eða neinu til eða frá að því er þetta varðar.

Ég vil aðeins að lokum segja það um þessi efni, að þetta er óvenjuleg lagasetning vegna þess, hversu hægt er farið í sakirnar. Og ég vil að það sé svo, að framhaldið af þessu ráðist af því, hvernig allur almenningur kemur til með að taka þessum breytingum. Og það mun koma í ljós. Það líður allverulegur tími þangað til lögin taka gildi. Þaðan í frá mun líða verulegur tími meðan menn leggja sig niður við að athuga hver reynsla er af þessu. Það er út af fyrir sig skynsamleg leið. Það eru allir möguleikar til að stíga til baka ef þetta fer í taugarnar á fólki eða fólk telur sig hafa óþægindi af þessu. En ég spái því, að sú verði ekki raunin, heldur muni koma í ljós að öllum þorra fólks þyki þetta vera mikið öryggi og lítil fyrirhöfn. Og þá er hægt að herða á lagasetningunni ef menn svo kjósa. M. ö. o.: löggjafinn er með þessum hætti að hafa frumkvæði að því, að tiltekið hegðunarmunstur breytist. Ég tel alrangt að tala um frelsi annars vegar og ófrelsi hins vegar í þessum efnum. Og spá mín er sú, að reynslan muni leiða í ljós — reynsla annarra þjóða er svo óyggjandi í þessum efnum — að ávinningur af þessu verði mikill og með þessari lagasetningu, sem mun koma í gagnið stig af stigi, sé stórlega aukið öryggi í umferð hér.