22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4913 í B-deild Alþingistíðinda. (5250)

301. mál, umferðarlög

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það þurfa held ég allir þeir sem ökuréttindi fá að aka einnig eitthvað aftur á bak og sennilega einnig sá þm. sem var að fara úr ræðustól. Jafnvel eftir að hringvegurinn kom þarf hann einhvern tíma að bakka. (HÁ: Það bilaði bakkgírinn hjá mér í síðustu kosningum.) Já, og þá ferðu bara hring eftir hring kringum landið ef þú þarft að komast austur. Það er gott að heyra.

Það er sagt hér í þessu nál., að allshn. hafi yfirfarið og rætt ítarlega frv. Ég dreg það mjög í efa eftir tímanum sem hefur farið í það, að hér hafi verið um ítarlega málsmeðferð að ræða. Það væri fróðlegt að fá nánari upplýsingar frá nm. um það, í hverju þetta ítarlega starf n. er fólgið. Og það væri líka fróðlegt að frétta, sem ekki hefur komið fram frá nm., til hverra málið var sent til umsagnar? Hver voru svo svör þeirra sem málið var sent til umsagnar? Og hver eru rök þeirra? Ekkert af þessu hefur komið fram. Þetta er bara eins og hver önnur færibandavinna sem hér er stunduð í þessari stofnun. Menn lesa einhverja skýrslu og verða heilagir og flytja svo hjartnæmar ræður, að hér sé ekki um neitt annað að gera.

Það er eitt skynsamlegt í þessu frv., sem ber að taka fullt tillit til, að það skuli vera hnakkapúðar af viðurkenndri gerð á framsætum. Það finnst mér vera skynsamlegt ákvæði. Og svo gleypa menn hverja skýrslu alveg í heilu lagi, hversu þykkir doðrantar sem það eru, og berja sér hér á brjóst og segja að það sé hætta á þremur vegum á landinu: Óshlíð, Ólafsfjarðarmúla og Ólafsvíkurenni. Það eru víðar brattar hlíðar á Íslandi sem vegir liggja í, og það er margur maðurinn sem hefur bjargað sér úr bíl á fjölmörgum stöðum á landinu af því að hann var ekki í bílbelti. Ég er ekki þrátt fyrir þetta að segja að menn eigi ekki að nota bílbelti. Það á hver og einn að ráða því. Ég ek oft og mikið og enginn er oftar með mér en konan mín. Hún er alltaf í bílbelti en ég aldrei. Mér dettur ekki í hug að fara að skipta mér af því. Hún vill vera í bílbelti, en mér finnst það óþægilegt.

Ég hef hugsað mikið um þetta mál. Ég hef hugsað: Er ég að gera rangt eða rétt með því að vera á móti því að lögfesta þetta? Ég kemst að þeirri niðurstöðu, að fái ég fregnir af því, eftir að hafa greitt atkv. með þessu frv., að það verður slys, banaslys eða stórslys, þar sem fólk hefur verið fest í bílbelti, ekki getað losnað og beðið þess vegna bana eða stórslasast, þá hef ég hugsað: Ég vil ekki taka þá ábyrgð á mig að hafa skipað þessu fólki með atkv. mínu á Alþingi að vera spennt í bílbelti. Og þá segja menn: Hvað er þá með hina, sem farast fyrir það að vera ekki í bílbelti, sem eru mjög margir? Svar mitt er þetta: Það eiga að vera bílbelti í öllum bílum og það er manna að ákveða, hvers fyrir sig, hvort þeir nota þetta bílbelti eða ekki. Þeir sem nota það og bjargast, ef bíllinn verður fyrir óhappi og þeir bjargast, annaðhvort líf þeirra eða að öllu leyti, það er fyrir þeirra tilverknað sjálfra að hafa notað bílbeltið. Þeir, sem verða fyrir líkamstjóni eða valda dauða, það er ekki fyrir það að Alþingi eða löggjafarsamkoma þessarar þjóðar hafi bannað þeim að nota bílbelti, síður en svo. Þetta er í örstuttu máli afstaða mín til þessa máls.

Hitt er svo annað mál, sem mér finnst að mörgu leyti undarlegt í þessu frv. að það á ekki samkv. frv. að sekta þá sem ekki nota bílbelti. Það er samkv. frv. lagaleg skylda að nota bílbelti, en það á ekki að refsa fyrir brot á 3. gr. fyrr en lokið er þeirri heildarendurskoðun umferðarlaga sem hófst á s. l. hausti. Til hvers er þá verið að skylda menn með lögum til að vera í bílbelti þegar lögreglan getur ekki annað gert en að stöðva og segja: Þú átt samkv. lögum að vera í bílbelti? Þá setur viðkomandi maður bílbeltið á sig og þegar lögreglan er úr augsýn tekur hann það aftur af. Hann veit að hann þarf ekki að standa neinum reikningsskil gerða sinna fyrr en næsti lögregluþjónn kemur og gefur honum áminningu.

Mér finnst þetta eiginlega furðulegt frv. í alla staði. Það geta verið skiptar skoðanir hjá þm. í afstöðu til þessa máls. Sumir vilja lögfesta þetta, aðrir ekki. Meiri hl. ræður, og þegar og ef það verður ofan á að bílbelti verða lögleidd, þá verðum við, sem aldrei höfum notað þau, að fara að spenna á okkur bílbeltin til þess að vera ekki lögbrjótar. En það gefur ekki svo auga leið, að öllum eigi að vera skylt að vera með þessu máli. Ég er af þessum ástæðum á móti því.

Ég tel líka varhugavert að heimila reiðhjólaakstur á gangstígum og gangstéttum. Það geta verið gangstígar þar sem þetta er sjálfsagt að gera, þar sem er lítil mannaferð. En hins vegar held ég að það rekist á, sérstaklega í þéttbýli, og geti valdið slysum, sérstaklega í sambandi við gamalt fólk. Víða erlendis er þetta hlið við hlið og þar sem eru mjóar gangstéttir hafa orðið tíð slys vegna reiðhjólaáreksturs á gangandi vegfarendur. En um það er lítið rætt hér.

Ég tel að allshn. hafi lítt athugað þetta mál. Ég gagnrýni það orðalag í nál., að þetta mál hafi verið ítarlega rætt, og tel varhugavert að samþykkja þetta frv. og engum greiði gerður, ekki heldur þeim sem vilja lögleiða bílbelti, þó að þetta frv. verði lögfest, á meðan refsiákvæði eiga að bíða eftir heildarendurskoðun umferðarlaga.