22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4915 í B-deild Alþingistíðinda. (5251)

301. mál, umferðarlög

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég þarf fáu að bæta við það sem ég sagði í dag í umr. um þetta mál og það því frekar sem hér eru heldur fáir hv. þm. sem ég hugsanlega hefði getað sveigt inn á skoðun okkar sem erum hlynnt lögleiðingu bílbelta. Það hefur auðvitað hver sína sannfæringu í þessu máli og verður að fá að hafa hana.

Mér hafa fundist ýmis rök gegn þessu máli heldur léttvæg. Auðvitað er það satt, að þetta mál eins og mörg önnur stórmál sem við erum að fjalla um í dag, hefur fengið allt of litla umfjöllun. En ég vil minna á að þetta mál, um lögleiðingu bílbelta, er ekki nýtt af nálinni. Það hefur farið fram stöðug kynning og áróður fyrir því undanfarin 5–6 ár. Það var til umfjöllunar hér á tveimur þingum í röð. Það hefur verið í mjög ítarlegri umfjöllun í hv. Ed. Það hafa borist umsagnir og gögn sem við gætum hugsanlega haft hliðsjón af, hvaða niðurstöðu þingbræður og systur í Ed. komust að. En ég held að það væri til ills eins að slá þessu máli á frest nú.

Ég verð að harma að fyrrv. heilbrmrh., Matthías Bjarnason, tekur svo neikvæða afstöðu í þessu máli. Ég hefði haldið að hans þekking og reynsla í heilbrigðismálum hefði getað orðið til þess að hann tæki afstöðu með þessari aðgerð. Við erum ekki, sem fylgjum þessu, að gera þetta að gamni okkar, eins og einhver sagði, og við viljum ekki hefta frelsi eða mannréttindi eins eða neins. En að í þessari afstöðu til lögleiðingar bílbelta felist óþolandi mannréttinda- og frelsisskerðing, þessa staðhæfingu og þessi rök hljótum við að finna léttvæg. Við skulum bara hafa augun á öllum þeim lögum og reglum sem við erum stöðugt háð í daglegu lífi. Ég bendi á aðeins eitt sem mér kemur í hug. Við verðum samkv. lögum að taka bílinn okkar til skoðunar öryggisins vegna árlega. Hvað gerist ef við hlýðum ekki þeim lögum? Bíllinn er tekinn af okkur einfaldlega. Og maður gæti haldið áfram endalaust að vitna í allan þann frumskóg af lögum og reglum sem við verðum að hlíta.

Nei, í þessu finnst mér felast tvískinnungur sem er ekki samboðinn greindum og velviljuðum mönnum sem hér hafa mælt hvað harðast gegn þessu. Og ég vil minna á það, sem er staðreynd, að við erum á hverjum degi að taka ákvarðanir í stærri og minni málum sem við vitnum í sem rök fyrir því, að þessi eða hin ákvörðunin sé tekin. Hvernig stendur á því, að mönnum leyfist nú að tala með lítilsvirðingu um erlendar skýrslur sem flaggað sé framan í okkur, enda þótt þær eins og aðrar erlendar rannsóknir og niðurstöður þeirra, sem við byggjum á, séu taldar góðar og gildar? Þarna kemur annar tvískinnungur sem ég fæ ekki séð að samrýmist málflutningi þeirra sem andmæla þessari nauðsynjaaðgerð sem við mælum með af því að við teljum það þá virkustu slysavörn sem okkur hefur sannanlega verið sýnt fram á að dugi gegn því fári sem umferðarslys eru orðin, með hörmulegum afleiðingum fyrir fjölda einstaklinga sem liggja örkumlaðir á spítölum eða dánir í gröf sinni.

Ég vil því heita á góða samþm. að yfirvega vel sína afstöðu áður en þeir mæla gegn þessari ráðstöfun. Það þýðir ekki að segja lengur að þetta sé ekki tímabært. Það hefur sýnt sig, að stöðugur áróður og kynning á bílbeltum hefur ekki gefið þá raun sem til var ætlast. Fólk hefur ekki í vaxandi mæli tekið beltin í notkun, hversu greinilega sem sýnt hefur verið fram á með áróðri að sú ráðstöfun eigi rétt á sér. Ég tel til lítilla bóta og alveg hið gagnstæða raunar að fresta refsiákvæðinu þetta lengi.

Guð má vita hvað endurskoðun umferðarlaga tekur langan tíma. Ég hefði talið eðlilegt að við héldum okkur við upphaflegu lagagr. — eða eins og það var í frv. þegar það var lagt fram, að refsiákvæði kæmi ekki til framkvæmda fyrr en 1. okt. Það hefði verið eðlilegur aðlögunartími fyrir fólk til að átta sig á að venjast þessari aðgerð sem við getum ekki lengur undan vikist.

Að því er snertir reiðhjólaákvæðið, þá var á það bent að þetta mundi auðvitað gilda bara í vissum tilvikum, bent á Miklubrautina annars vegar og Laugaveginn hins vegar, eins og ég gerði líka í mínu máli. Ég sé ekkert í þessu frv. né heldur grg. sem tryggir okkur að þessi skilgreining verði gerð þannig að þetta gildi ekki um allar götur jafnt. Því treysti ég mér engan veginn til þess að greiða þeirri grein atkv. meðan ég hef ekki tryggingu fyrir því, að hún verði framkvæmd með sveigjanlegum og skynsamlegum hætti. Eins og hún er núna tel ég hana hafa eins mikla hættu í för með sér og hún mundi hugsanlega bægja háska frá í einstökum tilvikum.