22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4917 í B-deild Alþingistíðinda. (5256)

301. mál, umferðarlög

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég óskaði eftir því við forseta, að vísu ekki hér formlega, að fundi yrði frestað á meðan sjónvarpsviðtal væri haft við formann Sjálfstfl. Sú venja hefur skapast að þm. gefist kostur á því að horfa á meiri háttar viðtöl í sjónvarpi. Mér var synjað um þetta. Ég get ekki skilið hvernig á því stendur að fundarstjórn hér í deildinni skuli hagað með ýmsum hætti eftir því hver í hlut á. Ég tek því ekki þegjandi, að á sama tíma og Ed. er send heim vegna þess að þinglausnir verða ekki fyrr en á mánudag skuli verið að teygja þessa deild hér fram eftir nóttu. Stjórnarsinnar, sem bera ábyrgð á þinghaldinu, eru víðs fjarri og þá sjaldan þeir eru við svara þeir ekki eðlilegum fsp. sem fram koma. Nefndir þingsins fá ekki að kynna sér mál. Það eina, sem virðist vaka fyrir forseta deildarinnar, er að halda hlífiskildi yfir þessum mönnum.

Ég segi það og ég meina það, að ég mun ekki mæla með því að hausti, að sjálfstæðismaður verði aðalforseti í þessari deild.