22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4921 í B-deild Alþingistíðinda. (5261)

301. mál, umferðarlög

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil ekki með mínum orðum verða til þess að vekja upp frekari deilur um þetta efni. En mér finnst ég ekki komast hjá því að fá að segja hér örfá orð.

Það er vitað mál, að umferðarslysin eru mikið böl í þessu þjóðfélagi. Þau valda mörgum dauða og enn fleira fólki örkumlum og eru auk þess þjóðfélaginu mjög dýr. Við þurfum vafalaust að grípa til margra ráðstafana til úrbóta í þessum efnum. En ég er alveg sannfærður um það, að engin ein aðgerð, sem gripið væri til, gerði meira gagn en ef notkun bílbelta yrði almenn. Þetta frv. er spor í rétta átt og að mínum dómi alveg sjálfsagt að stíga það.