22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4927 í B-deild Alþingistíðinda. (5266)

320. mál, raforkuver

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Það hygg ég að sé sannmæli, að flestir hafi átt von á því, að allmikið innihald gæti verið í frv. til l. sem lagt er fram á Alþingi í svona stórri bók. Það er tiltölulega auðvelt að telja mönnum trú um það, áður en bókin er opnuð, að þann dag, sem þetta frv. var lagt fram, hafi runnið upp minnisverður dagur í orku- og virkjunarmálum á Íslandi. Undir þetta var tekið á þeim degi af hv. 12. þm. Reykv., að þess dags yrði lengi minnst þegar þetta frv. var lagt fram. Því miður skýrist það um leið og farið er að fletta því, að það er eins og sagt var forðum daga um verk manns: umbúðirnar eru vætt, en innihaldið lóð. Það er gallinn á þessu frv., sem við fjöllum um hér í dag, annar höfuðgallinn, að það segir ekkert af því sem það ætti að segja. Hinn höfuðgallinn er sá, sem er þó sýnu meiri og alvarlegri, að ef það verður samþykkt á því stigi sem það er núna, þá er það spor í gagnstæða átt við það sem Alþingi hefði getað gert hefði verið gengið til þess verks að sameina og samþykkja það frv. um orkumál sem sjálfstæðismenn hafa undirbúið og lagt fram á þessu þingi.

Ég held að það verði öllum mönnum ljóst, sem hafa hlustað á umr. þeirra manna sem bera ábyrgð á framlagningu frv. og virðast ætla að standa að samþykkt þess, að það er eitt höfuðatriði í máli þeirra allra. Það er að fara að öllu með gát, fara nógu hægt. Það kom fram í máli hæstv. iðnrh. þegar hann lagði frv. fram hér í þessari hv. d., það kom fram þegar frv. okkar sjálfstæðismanna um ný orkuver var til umr. í Ed. og það kom fram í máli hv. alþm. Páls Péturssonar þegar hann gerði þetta frv. að umræðuefni hér á dögunum. En ég held að það sé ekki þetta sem við þurfum að hafa fyrst og fremst í huga, Íslendingar, þegar við ætlum að virkja og bæta lífskjörin í landinu. Það er ekki það að fara fyrst og fremst að öllu með gát, því að maður, sem ekki hugsar um annað en fara varlega, kemst sjaldan langt áleiðis. Ég er ekki að gera lítið úr því, að menn skoði mál niður í kjölinn og afli sér allrar þeirrar vitneskju sem hægt er að fá um þann framgang sem á þeim mundi væntanlega geta orðið. En það er allt annað en hér er látið í veðri vaka og er í raun og veru höfuðhljómurinn í þeim umr. sem hér hafa orðið. Þetta, að fara sér hægt í öllu þessu, það kann ekki góðri lukku að stýra að mínum dómi.

Ég gerði það að umræðuefni við 1. umr. um þetta frv. hér í þessari hv. deild, að eitt af meiri háttar slysum, sem orðið hefðu í sambandi við orku- og iðnaðarmál, væri það, þegar hæstv. iðnrh. klauf á sínum tíma í sundur og leysti frá störfum þá stóriðjunefnd, sem verið hafði að störfum um nokkuð langa hríð. Það er skoðun mín og það er skoðun okkar fjölmargra, að til þess að geta veitt landsmönnum þau gæði, það öryggi í lífsafkomu sem allir óska eftir að njóta, þá verðum við að hugsa stærra í iðnaðarmálum heldur en enn hefur verið gert. Það verður ekki hjá því komist. Smáiðnaður, sem settur er niður dreift úti um land, — sem að mörgu leyti er gaman að hyggja að og er verðmætur þar sem hann á við, — leysir ekki þann vanda sem við er að fást í okkar höfuðviðfangsefni, Íslendinga, að bæta lífskjörin. Það verðum við að gera með því að útvega nógu mörg atvinnutækifæri handa þeim sem koma á vinnumarkað á næstu tímum.

Hæstv. iðnrh. benti mér á það við 1. umr. um frv. hér, að ég væri talsmaður þess, að sótt væri eftir útlendri stóriðju, og ég væri haldinn af hugmyndum Sjálfstfl. eins og hann var á sjöunda áratugnum. Það má vera að þetta sé rétt, og ég er ekki að fyrirverða mig fyrir þann hugsunarhátt þó að mér hafi enst hann frá þeim góðu dögum þegar menn þorðu að vinna stórt og hugsa stórt, sem hefur haft þær afleiðingar sem öllum eru sjáanlegar sem vilja hafa opin augu. Það hefur verið reynt að gera þessi ár og þær framkvæmdir og þá samninga, sem gerðir voru á þessum tíma, tortryggilega og jafnan talið að Íslendingar hafi samið af sér þegar þeir gengu til samstarfs og samvinnu við erlenda aðila í álverinu við Straumsvík, að verðið fyrir raforkuna hafi verið svo augljóslega óhagstætt, að við það hafi aldrei verið hægt að una, og það hafi jafnan verið vitlaust að gera það. Ég hef nú ekki tækifæri til að ræða þetta sérstaklega að þessu sinni. En ég vil minna á það, að í þeirri ræðu, sem hv. 6. þm. Reykv. flutti hér við þá umr., kom hann mjög inn á þetta mál og ég vil vísa til þess að mestu leyti. En ég vil þó benda á það, að þeir fjármunir, sem greiddir hafa verið til Landsvirkjunar í formi raforkusölu, hafa verið það stórir í sniðum að þegar er búið að greiða að fullu áætlaðan upphaflegan kostnað Búrfellsvirkjunar. Og ég hygg að við megum heita sæmilega staddir, Íslendingar, ef við gerum í framtíðinni samninga í þá átt sem ekki hafa verri útkomu en þessi. Og það er ósæmilegt af þeim mönnum, sem mest hafa borið hann út, að vilja ekki viðurkenna þær staðreyndir sem hér hafa verið settar fram og ég hef vitnað til.

Það er ekki meining mín að tefja fyrir þessu frv. neitt verulega við þessa umr. En ég get samt ekki látið hjá líða að ræða þetta mál nokkrum orðum frekar en enn er orðið, þó svo að ég þori ekki að vona að menn í þessari hv. deild átti sig svo að þeir taki rétta afstöðu þegar gengið er til atkv. við 3. umr. þessa máls. Ég segi þetta af því að ég get látið mér detta það í hug, að svo geti farið, þar sem ég hef orðið vitni að slíkri kompásskekkju hér í þessari hv. deild í dag, að mér dettur í hug að það sé eitthvað hér innanhúss sem ruglar segulinn og að nálin hafi snúist hring eftir hring og vafi hvar hún stöðvast. Ef það er ekki rétt hjá mér, að hér séu einhver truflandi áhrif í gangi og menn hafi skipt hér um skoðun vegna þess að nú sé búið að gera það frv., sem ég hef gert hér að umræðuefni, betur úr garði á einhvern hátt en áður var,. þá langar mig til að leggja fyrir hæstv. iðnrh. spurningar sem ég óska eftir svörum við.

Þegar hæstv. iðnrh. mælti fyrir þessu frv. hér í hv. deild kvað hann upp úr um það, að með hliðsjón af stjórnarsáttmálanum verði virkjun við Sultartanga á eftir öðrum virkjunarframkvæmdum sem taldar eru upp í frv. Á þetta benti ég við 1. umr., eins og ég áður sagði, og var það þá staðfest, að hugmyndin væri að standa við það sem í stjórnarsáttmálann er skráð, sem ekki þarf að rifja upp, að þar er það einsett að virkja utan eldvirkra svæða og iðnrh. hefur viljað telja Sultartangavirkjunina vera á eldvirku svæði. Vegna þessa vil ég spyrja hæstv. iðnrh. — og ég tel nauðsynlegt að undandráttarlaust svar verði gefið við þessa umr. — ég vil spyrja: Hver er sú breyting á uppsetningu virkjunarkosta sem gerð er á þskj. 1017, þar sem skipt er um fyrri og síðari hluta 1. gr. þannig að neðri endinn snýr nú upp, en sá efri niður? Hefur sú breyting það í för með sér í fyrsta lagi, að Sultartangavirkjun verði byggð á undan þeim virkjunum sem síðar eru taldar í brtt. meiri hl. n.? Í öðru lagi: Verða ákvæði stjórnarsáttmálans látin gilda? Í þriðja lagi: Hefur sú breyting, sem meiri hl. gerir á frv., þá þýðingu, að menn geti treyst því að iðnrh. hafi skipt um skoðun varðandi það að þjóðhagsleg hagkvæmni virkjunarleiða skuli ráða framkvæmdaröð, en ekki ákvæði stjórnarsáttmálans? Í fjórða lagi: Telur ráðh. orkumála fært að leggja þá fjármuni fram sem þarf til stórvirkjunar á borð við Fljótsdalsvirkjun án þess að hafa áður tryggt kaupanda að orkunni sem þar verður framleidd?

Þetta eru þær meginspurningar sem ég vildi bera upp við hæstv. ráðh. Ég tel nauðsynlegt að hann svari þeim til þess að gefa þeim mönnum, sem afvegaleiðst hafa, tækifæri til að rétta sinn kompás af.