22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4930 í B-deild Alþingistíðinda. (5267)

320. mál, raforkuver

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það mál, sem hér er til umr. á þskj. 784, er 320. mál þingsins og var lagt ákaflega seint fram á þessu þingi, enda hefur komið í ljós að það er varla útséð hvort hægt verður að afgreiða málið fyrir þinglausnir. Má gera ráð fyrir að fresta verði þinglausnum frá þeim tíma, sem talið var að þær gætu farið fram, vegna þess hve erfiðlega hefur gengið innan stuðningsmannahóps ríkisstj. að ná endanlegu samkomulagi í þessu máli.

Þau mál einstakra hv. þm., sem komu fram um svipað leyti og þetta stjfrv., hafa varla fengist rædd við 1. umr. hér í hv. deild eins og eðlilegt er, enda þykja þau vera svo seint fram komin að það taki því varla að vísa þeim til nefnda þingsins. En svo mikill er æðibunugangurinn eftir allt seinlætið í allan vetur og frá fyrri árum, að nú á á örfáum vikum að keyra þetta mál í gegn, enda vita hæstv. ráðh. það, að ef málið verður geymt aðeins lengur er ekki víst að það takist að ná saman stjórnarmeirihluta hér á þingi til þess að koma fram með frv. sem eigi möguleika á því að fást afgreitt af hv. Alþingi.

Ég ætla ekki í ræðu minni að gera að umtalsefni það sem mest hefur verið skrifað um varðandi þetta mál að undanförnu í blöðum, en það er hvernig kaupin gerðust hér á þinginu, hvort hér sé fremur kaupþing en Alþing. Ég ætla ekki að ræða það. Það geta aðrir gert og hafa aðrir gert og ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um slíkan „bisness“.

Það, sem mig langar til þess að fjalla fremur um, er ákveðinn þáttur þessara mála, sá þáttur sem snýr að stóriðju sem lið í atvinnuþróun landsmanna á næstu árum og hvernig stóriðjan hlýtur að tengjast stefnunni í orkumálum á hverjum tíma. Það er augljóst, að stefna Íslendinga í stóriðjumálum er jafnvel forsenda þess, hvernig virkjað verður á næstunni, enda hafa stjórnarandstæðingar komið auga á þetta. Snemma í haust komu fram þáltill. bæði frá hv. þm. Alþfl. og eins frá hv. þm. Sjálfstfl. um stóriðjumálefni, um hvernig standa ætti að stefnumótun varðandi stóriðju.

Þegar það frv., sem nú er til umr., var lagt fram hér á hv. Alþingi komu óðar fram brtt. frá stjórnarandstöðunni. Í þeim brtt. er gert ráð fyrir að tengja stóriðju a. m. k. einni fallvatnsvirkjuninni, þ. e. Fljótsdalsvirkjun. Á þetta hafa stjórnarandstöðuflokkarnir lagt áherslu einmitt vegna þess að ekki er hægt að sýna fram á nægilega arðsemi þeirrar virkjunar nema hún sé tengd orkufrekum iðnaði þannig að hægt verði að selja raforku í stórum stíl og helst til framleiðslu útflutningsafurða sem þurfa á mikilli raforku að halda. Mundi slíkur iðnaður renna stoðum undir batnandi gjaldeyrisviðskipti þjóðarinnar.

Það er ljóst eftir 2. umr. þessa máls, að stjórnarflokkunum hefur tekist að ná fram sinni stefnu — ég ætti kannske heldur að segja stefnuleysi — í stóriðjumálum. Og nú er gerð önnur tilraun af hálfu þeirra hv. þm. Sverris Hermannssonar og Magnúsar H. Magnússonar til að koma ákvæði inn í þessi væntanlegu lög um stóriðju í Reyðarfirði.

Ég ræddi það hér áðan, að sjálfstæðismenn og Alþfl.menn hefðu lagt fram stefnumótun sína og hugmyndir um stóriðju í þáltill. í haust. Og það merkilega gerðist, að í hv. allshn. Sþ. náðu þessir tveir flokkar, stjórnarandstöðuflokkar, sameiginlegri niðurstöðu sem birtist á þskj. 572, þar sem lagt er til að kosin verði af Alþingi nefnd sjö þm. til að fjalla um aukningu á orkufrekum iðnaði næstu ár. Þar er því lýst hver verkefni nefndarinnar skuli verða. Í fyrsta lagi eigi nefndin að kanna hagkvæmni framleiðslugreina, sem til álita koma á sviði orkufreks iðnaðar, með tilliti til orkuverðs, flutningskostnaðar, fjölda atvinnutækifæra og markaðsmöguleika. Í öðru lagi kemur það fram á þessu þskj., að nefndinni sé ætlað að kanna hugsanlega möguleika á samvinnu við erlenda aðila, m. a. á sviði tækni og markaðsmála. Og í þriðja lagi var því lýst, að nefndin, þessi þingkjörna nefnd, ætti að gera tillögur um stóriðjuframkvæmdir sem hagkvæmt þyki að stofna til. Skal þar kveða á, eins og segir í þáltill., um eignaraðild fyrirtækja, fjármögnun, orkuöflun og orkuverð, önnur rekstrarskilyrði, gerð, stærð og staðsetningu iðjuvera. Og til þess að tryggja samstarf við Alþingi og embættismannakerfið var sett sú klausa í þessa þáltill., að nefndin skyldi hafa samstarf við þá aðila og skila hv. Alþingi og ríkisstj. skýrslum um störf sín eftir því sem þeim miðaði áfram.

Þessi þáltill. kom til umr. og afgreiðslu á fundi Sþ. í gær. Þá hafði verið lögð fram till. frá minni hl. allshn., fulltrúum Framsfl. og Alþb., þar sem lagt var til að málinu yrði vísað til ríkisstj. Var sú till. stjórnarsinna samþ. hér á hv. Alþingi með nafnakalli. Og þá gerðist það, að hæstv. forsrh, lýsti því yfir, að hann greiddi atkv. með till. minni hl. allshn. á þeim forsendum, að ríkisstj. hefði mótað skoðun sína í stóriðjumálum í svokallaðri þáltill. um iðnaðarstefnu sem var lögð fram á Alþingi á sínum tíma í haust, í þriðja sinn af hæstv. ríkisstj. og þó einkum og sér í lagi auðvitað hæstv. iðnrh.

En þá vill svo einkennilega til, að einmitt þennan sama morgun hafði hv. atvmn. í Sþ. fjallað um þetta mál og vegna áhugaleysis stjórnarsinna í þeirri hv. n. fékkst iðnaðarstefnumálið ekki afgreitt. Sú stefna, sem hæstv. forsrh. vitnar til að sé stefna ríkisstj., vegur ekki þyngra en svo, að hv. stjórnarsinnar á hinu háa Alþingi sjá sér ekki fært að afgreiða það mal út úr atvmn. Sþ. Þetta er grunnurinn sem stóriðjustefna ríkisstj. byggist á. Þetta er sú stefna sem hæstv. forsrh. og fyrrv. hæstv. iðnrh. vitnar til þegar hann segir að ríkisstj. og stjórnarflokkarnir hafi þegar komið sér saman um stóriðjustefnu.

Þegar hæstv. iðnrh. lagði á sínum tíma fram till. til þál. um iðnaðarstefnu var ekkert hægt að finna í þeirri till. um stóriðjustefnu. Með leyfi hæstv. forseta vil ég vitna `il 2. þingmáls á 101. löggjafarþinginu, þess sem hæstv. iðnrh. lagði þá fram. Í einum lið á því þskj., í lið nr. 5 um leiðir og opinberar aðgerðir, segir svo, með leyfi forseta:

„Ríkisvaldið hafi forustu um verulegt átak í uppbyggingu fjármagnsfreks nýiðnaðar, m. a. með því að stjórn á iðnrekstri á þess vegum verði gerð markvissari, og skipulagslegt forræði á þessum atvinnurekstri verði sett í hendur eins aðila, sem hafi fjárhagslegt bolmagn og sjálfstæði til ákvarðana um arðvænleg nýiðnaðarverkefni.“

Þetta var í annað skiptið sem hæstv. iðnrh. lagði þessa till. fram á Alþingi. Á þinginu áður hafði hann lagt hana fram í fyrsta skipti og nú á þessu þingi var það í þriðja skiptið. Og þá voru það stjórnarsinnarnir sjálfir sem drápu stefnuna. Þegar núv. hæstv. ríkisstj. var mynduð gerðist það, að hæstv. forsrh., sem jafnframt er fyrrv. iðnrh., ákvað að reyna að sveigja þessa stefnu hæstv. núv. iðnrh. nokkuð í átt til þeirrar stefnu sem m. a. Sjálfstfl. hefur fylgt í stóriðjumálum. Þetta var gert með því að breyta ákvæði í þáltill. hæstv. iðnrh. og tala þar um orkufrekan iðnað. Í raun — fyrir þá sem skildu þá yfirlýsingu sem fólst í þeim orðum sem ég nýlega las upp í minni ræðu úr þáltill. — var þar um allt annað atriði að ræða. Þar var um það að ræða að minni hyggju, — ef lesið er saman við iðnaðarstefnu sem kemur fram í áliti samstarfsnefndar um iðnþróun sem hæstv. iðnrh. setti á laggirnar fyrir nokkrum árum, — þá var þar um að ræða fyrst og fremst að ríkisvaldið stofni eignarhaldsfélag til þess að styrkja á einum stað afl, sem getur ýtt undir það, að menn þori í þessu landi að taka áhættu þegar um nýiðnaðartækifæri er að ræða. Nú var þessi klausa tekin fyrir af sameinaðri ríkisstj. Gunnars Thoroddsens, hæstv. forsrh., og nú hljóðaði þessi klausa endurgerð á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta — og vitna ég þá til þáltill. sem liggur fyrir á þskj. 93, mál nr. 86, svohljóðandi:

„Ríkisvaldið hafi forustu um uppbyggingu fjármagnsfreks nýiðnaðar, m. a. orkufreks iðnaðar er hagnýti innlenda orku og hráefni. Slíkur iðnaður lúti íslenskum yfirráðum, taki mið af æskilegri atvinnu- og byggðaþróun og umhverfisvernd.“

Hæstv. forsrh. hafði sem sagt tekist að koma inn í þetta plagg nokkrum orðum um orkufrekan iðnað, þó að loðin væru. Sjálfstæðismenn á þingi báru þegar fram brtt. við þáltill. hæstv. ríkisstj., vildu orða þetta ákvæði mun ákveðnar eða eins og fram kemur á þskj. 187, með leyfi hæstv. forseta, að við bætist: „Samningar við erlenda aðila um stóriðjufyrirtæki geri ráð fyrir þeim möguleika, að Íslendingar eignist fyrirtækin á ákveðnum tíma.“ Þarna var það ákveðið tekið fram, að hugsanlegt væri að efna til stóriðjusamvinnu við erlenda aðila, og jafnframt var því breytt þar sem áður stóð að ríkisvaldið ætti að hafa „forystu um“, í að ríkisvaldið ætti að „stuðla að“, og var það í anda yfirlýsinga Sjálfstfl. frá ýmsum landsfundum, m. a. frá landsfundi þar sem Gunnar G. Schram prófessor hafði forustu um að senda frá sér yfirlýsingu um stóriðju í framtíðinni, en þar var minnst á þessa stefnu, og þessi brtt. sjálfstæðismanna, sem ég var að lýsa, er nánast orðrétt fengin úr því plaggi.

Í hv. atvmn. var iðnaðarstefnuályktunartillagan frá hæstv. ríkisstj. tekin fyrir á nokkrum fundum. Mér var falið t. d. að safna öllum þeim fjölda umsagna, sem komu fram um málið, og dreifa þeim til nm., sem sumir hverjir voru afar uppteknir við þingstörf því að í þeirri nefnd eiga sæti menn sem eru mest önnum kafnir við nefndarstörf og því eðlilegt að þeir gætu ekki gefið sér mikinn tíma til fundarsetu í hv. atvmn. Allir höfðu þess vegna tækifæri til að kynna sér rækilega umsagnir þeirra fjölmörgu aðila sem sendu álit um þessi iðnaðarmál.

Þegar líða tók á þingið voru gerðar af ákveðnum nm. tilraunir til þess að vinna á ný upp brtt., bæði úr tillögum hv. sjálfstæðismanna og enn fremur úr þeim fjölmörgu umsögnum sem bárust, m. a. frá Sambandi ísl. samvinnufélaga og Félagi ísl. iðnrekenda, sem sendu mjög ítarlegar umsagnir til n. Var haft samband við hæstv. iðnrh. af mér og hv. þm. Magnúsi H. Magnússyni og tilraun gerð til þess að ná sameiginlegum brtt. á blað, ef það gæti orðið til þess að hægt væri að afgreiða málið út úr nefndinni. Talsvert starf fór fram meðal ýmissa manna sem komu nálægt þessu, og endaði það á því, að það náðist nokkuð sameiginleg niðurstaða, en skildi þó á milli um nokkur atriði. Þá var það hugmynd stjórnarandstöðunnar í hv. atvmn. að afgreiða málið úr nefndinni, jafnvel með sameiginlegu nál., flytja sameiginlegar brtt., en standa síðan hvor aðili á sínum brtt. En þá kom að því sem ég lýsti áðan, að hv. stjórnarsinnar í nefndinni treystust ekki til þess að afgreiða iðnaðarstefnuna, þ. á m. stefnu sem hæstv. forsrh. vitnar til um stóriðjumálin, til þingsins til þess að þingið gæti fjallað um hana.

Þetta rifja ég hér upp vegna þess, hve mikla áherslu hæstv. iðnrh. hefur lagt á að þingið móti iðnaðarstefnu, eða eins og fram kemur í áliti samstarfsnefndar um iðnþróun, á bls. 177, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Samstarfsnefnd um iðnþróun telur rétt að leggja áherslu á að tillögur þær um stuðning við iðnað, sem hér hafa verið lagðar fram, muni án efa ekki verða til mikils gagns, frekar en fyrri tillögur um sama efni, nema þær fái virkan stuðning Alþingis og ríkisstj. og jafnframt að aðilar iðnaðarins, launafólk og atvinnurekendur, verði í megindráttum sammála um nauðsyn þeirrar stefnumörkunar, sem hér er lýst, og veiti henni fulltingi. Eru tillögurnar settar fram í þeirri von, að þær geti orðið grundvöllur að samstöðu um málið og á þeim grundvelli verði síðan unnt að hrinda af stað sérstöku átaki til eflingar iðnaði á Íslandi.“

Ég hef hér lesið upp álit samstarfsnefndar um iðnþróun, sem hæstv. iðnrh. setti sjálfur á laggirnar, og hugmyndir hennar um afgreiðslu málsins. Í þessari sömu bók, bók bókanna um iðnaðarmál, sem skipar áreiðanlega veglegan sess í skjalasafni hæstv. iðnrh., kemur enn fremur fram það viðhorf, að þar séu margir kostir sem megi nefna varðandi stórrekstur og stóriðju þótt þeir taki ekki endanlega afstöðu til þess máls. Þetta rifja ég upp, herra forseti, vegna þess og til þess að undirstrika það, að aðilar iðnaðarins, samtök iðnaðarins, bæði launafólks og atvinnurekenda, hafa ítrekað farið fram á að Alþingi móti stefnu í iðnaðarmálum. Og nú liggur fyrir þinginu þessi stefna, þ. á m. stefna ríkisstj. í stóriðjumálum, en málið fæst ekki afgreitt.

Hver ástæðan sé fyrir því, að mál þetta fékk ekki afgreiðslu í nefnd, er erfitt að dæma um. En mér sýnist að meginástæðan sé sú, að það skorti á samgöngur innan stjórnarflokkanna og þeirra aðila sem styðja ríkisstj. Spurningin er auðvitað sú, hvort ríkisstj. ætlar að byggja stóriðjustefnu sína á ósamþykktri ályktun eða hvort hæstv. ríkisstj. og stjórnarliðið þorir að samþykkja þá till. sem lögð hefur verið fram af þeim hv. þm. Sverri Hermannssyni og Magnúsi H. Magnússyni. Að skjóta sér á bak við stefnu, sem er ósamþykkt, minnir mann dálítið á keisarann þegar hann fór í nýju fötin, sem frægt var. Það er reyndar með endemum hvernig haldið hefur verið á iðnaðar- og orkumálum nú í seinni tíð, og besta lýsingin á því er sá fjöldi mála sem kemur seint fram á þessu þingi og ætlast er til að fái afgreiðslu á færibandi og þm. hafa verið undanfarið uppteknir við að reyna að afgreiða úr nefndum á síðustu dögum þingsins.

Það hefur ekki heldur verið málum hæstv. iðnrh. til framdráttar hvernig hann hefur annað veifið veist að ýmsum rekstraraðilum hér á landi, eins og t. d. Íslenska álfélaginu, þegar hann t. d. lýsti því yfir, er hann var sjálfur kominn í þrot um orkustefnu, að besti virkjunarkosturinn væri að slökkva á álverinu. Næstu daga kom ný yfirlýsing um það, að Íslendingar gætu hæglega yfirtekið álverið. Og allir muna eftir því, þegar hæstv. iðnrh. laumaði sér út af Alþingi og hélt blaðamannafund um aðföng, sem ÍSAL hafði keypt og kaupir frá Ástralíu, og það hefði hækkað í hafi. Hann hélt að með þessu mundi hann skapa grundvöll fyrir hækkuðu orkuverði til Íslenska álfélagsins. Auðvitað á íslenskur iðnrh. að sjá um hagsmuni Íslands gagnvart álfélaginu, en ég held að vitlausasta aðgerðin, sem hægt var að velja, hafi verið sú sem ráðh. fór út í: að byrja fyrst að segja: Hengið hann, hengið hann, — og reyna síðan að leita að sannleiksgildinu. En það var sú aðferð sem hæstv. iðnrh. notaði og hefur síðan orðið til þess, að ekkert heyrist um þetta mál. Ég tel satt að segja að hæstv. ráðh. sé sjálfur að draga það að málið upplýsist nú áður en þing fer heim. En væntanlega getur hann upplýst það síðar í þessari umr.

Hæstv. iðnrh. er kominn í gífurleg vandræði með þetta mál. Hann stendur þannig frammi fyrir því, að forráðamenn í hans eigin flokki, eins og t. d. á Reyðarfirði, hafa sagt sig úr Alþb. vegna orkustefnu eða orkustefnuleysis hæstv, iðnrh. Ég skora á hæstv. iðnrh. — þó að ég viti að það sé eins og að stökkva vatni á gæs — að íhuga þessi mál aftur og taka afstöðu með þeim fjölda Austfirðinga, sem standa að baki hugmyndum Sverris Hermannssonar, því að aðeins með því móti getur hæstv. iðnrh. verið viss um að Alþingi og ráðandi aðilar fáist til þess að leggja út í Fljótsdalsvirkjun.

Herra forseti. Ég hef í máli mínu stiklað á stærstu atriðunum sem fjallað hefur verið um hér á hv. Alþingi í vetur og varða stóriðjumál, en stóriðjumál tengjast að sjálfsögðu þeim málum sem við fjöllum hér um, stefnunni í orkumálum þjóðarinnar. Ég hef bent á það, hvernig hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkarnir hafa skotið sér undan að móta stefnu í stóriðjumálum og þeir hafa þar með bakað sér ábyrgð á sínu aðgerðaleysi. Og nú á síðustu dögum þingsins, jafnvel á síðustu klukkutímum þingsins, er það einasta von okkar, sem í stjórnarandstöðunni erum, að höfða til skynsemi þessara ágætu manna. Ef Alþb. lætur sér ekki segjast, þá skora ég á þá örfáu þm. Sjálfstfl., sem hafa um sinn kosið samstarf við Framsfl. og Alþb., að athuga hvort þær séu ekki fremur í anda Sjálfstfl., hugmyndirnar sem fram koma í brtt. hans og Alþfl., en sá óskapnaður sem nú er orðinn að orkustefnu í meðförum meiri hl. Nd.

Herta forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessa ræðu lengri að sinni, enda munu fleiri mál vera hér á dagskrá sem þurfa afgreiðslu við.