22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4941 í B-deild Alþingistíðinda. (5269)

320. mál, raforkuver

Frsm. minni hl. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Þessi umr., 3. umr. um frv. til l. um raforkuver sem hæstv. iðnrh. hefur lagt fram, er nú senn að lokum komin. Ég ætla ekki að lengja umr. mikið, en ég vil þó, áður en henni lýkur, vekja sérstaka athygli á tveimur atriðum.

Í fyrsta lagi hlýtur það að vekja sérstaka athygli, að í umr. um þetta frv., þar sem fluttar hafa verið mjög ítarlegar ræður af hálfu allmargra hv. þm. og m. a. hefur hæstv. iðnrh. í þessum umr. verið spurður ákveðinna spurninga, t. d. af hv. 2. þm. Suðurl. hér í dag, en þrátt fyrir þetta kýs hæstv. iðnrh. að sitja þögull eins og gröfin undir þessum umr. og ekki að taka þátt í þeim. Hann flutti sína framsöguræðu við 1. umr. þessa máls. Síðan hefur hann ekki staðið hér uppi í ræðustól. Hann hefur enga tilraun gert til þess að skýra þær brtt. sem fluttar voru við þetta frv., sem þó er vitað að voru meira og minna að hans undirlagi, og hann hefur ekki heldur kosið að taka neinn þátt í þeim umr. sem hér urðu t. d. um stóriðjumál fyrir viku. Þetta vekur sérstaka athygli og ég vildi ekki láta þessa umr. enda án þess að vakin yrði athygli á því.

Í rauninni skil ég vel þetta sjónarmið hæstv. ráðh., að kjósa það hlutskipti að sitja lúpulegur undir þessum umr., því aumt er hans hlutskipti eftir það sem á undan er gengið í þessu máli. Frv. hans, eins og það var lagt hér fram, var máttlaust og í því fólust engar ákvarðanir. Það var aðeins upptalning á þeim virkjunum, sem til stóð og til stendur að byggja, án nokkurrar stefnumörkunar í orkumálum eða uppbyggingu raforkuvera. Og í frv. vantaði líka, eins og oft hefur verið bent á, allan botn. Það vantaði alla stefnu um það, hvernig nýta ætti orkuna sem úr þessum orkuverum kemur. Hins vegar ætlaði ráðh. sér greinilega, samkv. frv. eins og það var lagt hér fram, að ná því í sínar hendur eins og hann mögulega gat — miðað við þá aðstöðu sem hann er í í hæstv. ríkisstj. — að taka ákvarðanir um það sem næst skyldi gera í virkjunarmálum, sbr. það ákvæði í frv. að Alþingi skyldi staðfesta næstu framkvæmdir í virkjunarmálum, þ. á m. framkvæmdaröð. Hæstv. ráðh. varð hins vegar fyrir því þegar þetta mál var tekið til meðferðar af stjórnarliðinu, þeim sem styðja núv. hæstv. ríkisstj. hér á Alþingi, að það litla traust, sem hann greinilega ætlaði sjálfum sér þegar hann flutti frv., báru hans samstarfsmenn ekki til hans, því að frv. var breytt á þá leið, að nú er það Alþingi sem að öllu leyti skal taka ákvörðun um framkvæmdaröð og engir frestir settir um tíma né hvenær það skuli koma fyrir Alþingi að nýju að taka ákvarðanir um næstu aðgerðir í virkjunarmálum.

Þó að ráðh. telji sig vafalaust hafa unnið einhvern sigur með því að fá þessu frv. breytt á þennan veg og tryggja því þar með framgöngu hér á hv. Alþingi, þá held ég að öllum sé það ljóst, sem skoða þetta frv. og skoða málið eins og það liggur fyrir og reyna að greina aðalatriði frá aukaatriðum, að hér er um mikinn varnarsigur að ræða hjá hæstv. iðnrh. Mig grunar að hér sé um Pyrrusarsigur að ræða hjá hæstv. ráðh. Hann flær ekki feitan gölt frá þessari meðferð hv. Alþingis og ekki síst hans stuðningsmanna í stjórnarliðinu. Hann flær ekki feitan gölt frá þessu máli. En við öðru gat hann e. t. v. ekki búist eins og málið var í pottinn búið. Og við hv. þm. verðum að bíða og sjá hvað setur. Við verðum að horfa áfram upp á það aðgerðaleysi sem ríkt hefur í þessum málaflokkum til þessa.

Annað atriði, sem ég vildi sérstaklega vekja athygli á áður en þessari umr, lýkur, er að í þessu máli hefur komið betur fram en e. t. v. í flestum öðrum málum, sem hér hafa verið til meðferðar á hv. Alþingi í vetur, hver grundvallarstefnumunur er á milli hæstv. ríkisstj. annars vegar og stjórnarandstöðunnar hins vegar, þ. e. Sjálfstfl. og Alþfl. Sú stefna, sem birtist í þessu stærsta máli þjóðarinnar í dag og birtist í því frv. — og ég vil segja nú: þeirri frv.- ómynd sem okkur er ætlað að samþykkja hér í kvöld, — sú stefna er áframhald aðgerðaleysis, það er stefna afturhalds og kyrrstöðu. En sú stefna, sem við höfum boðað, stjórnarandstæðingar, í stóriðju- og orkumálum, er stefna nýrra átaka. Hún er stefna upp á við, hún er stefna til bættra og betri lífskjara fyrir Íslendinga. Hún er stefna sem á að geta tryggt okkur öðru fremur betri lífskjör og sambærileg lífskjör við það sem okkar nágrannaþjóðir búa við. En ekkert er hættulegra okkar þjóð en að við drögumst aftur úr í lífskjörum miðað við okkar nágrannaþjóðir. Það hafa dæmin sýnt okkur og sannað. Við sjáum að fjöldi ungs fólks streymir úr landi til þess að freista gæfunnar annars staðar vegna þess að því finnst að hér ríki orðið kyrrstaða, hér sé afturhaldið búið að taka við völdum og hér fái það ekki þau tækifæri sem það vill fá. Unga fólkið finnur ekki kröftum sínum viðnám í því þjóðfélagi sem hæstv. ríkisstj. og hæstv. iðnrh. og flokksbræður hans hafa e. t. v. öðrum fremur mótað síðan á árinu 1978.

Herra forseti. Ég vil ekki teygja þessa umr. lengur. Ég vildi aðeins, áður en henni lyki, vekja athygli á þessum tveimur atriðum.