22.05.1981
Neðri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4943 í B-deild Alþingistíðinda. (5272)

320. mál, raforkuver

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Það er að mínu mati forsenda Fljótsdalsvirkjunar og þeirra orkuframkvæmda sem hér er verið að heimila, að orkufrekur iðnaður risi á Austurlandi og víðar. Í stefnumörkun með f. v. er gert ráð fyrir a. m. k. þreföldun orkufreks iðnaðar til aldamóta. Varðandi afstöðu mína vil ég taka fram eftirfarandi:

Í 2. gr. frv. er ríkisstj. gert að leggja fram í haust greinargerð um þá möguleika sem liggja fyrir um nýtingu orkunnar til orkufreks iðnaðar og í því sambandi er í undirbúningi kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði. Ég lít svo á að samkomulag sé um það, að vegna fyrri áfanga Fljótsdalsvirkjunar verði gert ráð fyrir orkufrekum iðnaði á Austurlandi. Með tilliti til þessa og í trausti þess, að ríkisstj. standi við þau áform er ég áður hef getið um, tel ég ekki ástæðu til að lögfesta þetta ákvæði og segi því nei.