23.05.1981
Efri deild: 122. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4955 í B-deild Alþingistíðinda. (5305)

320. mál, raforkuver

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er um mikilvægt mál að ræða þar sem eru virkjunarmálin. Þau hljóta eðli málsins samkv. að vera í huga okkar og þjóðhagslega eitt það mikilvægasta sem við ræðum um um þessar mundir, enda leynir sér ekki að allur almenningur í landinu lítur svo á. Það má merkja af þeim almennu umræðum sem eru um þessi mál.

Hér er um að ræða spurninguna um það, hvernig við höldum á þeim möguleikum sem við höfum í orkulindum landsins, hvort við ætlum að hagnýta okkur þá stöðu sem hefur verið að koma upp á undanförnum árum, að orkulindir okkar eru alltaf að verða þýðingarmeiri og þýðingarmeiri í ljósi þess, að orkulindir heimsins fara þverrandi og orkuverð fer hækkandi.

Það getur ekki verið neinn ágreiningur um það, að mikilvægasta átakið, sem við gerum nú til efnahagslegrar framsóknar í þessu landi, hlýtur að byggjast mest á því, hvað við gerum varðandi hagnýtingu orkulindanna. Í samræmi við þetta bárum við sjálfstæðismenn í þessari deild fram frv. á þessu þingi um ný orkuver sem við ræddum ítarlega við 1. umr. Ég ætla mér ekki að fara að endurtaka þær umr. Ég vænti þess, að menn hafi enn þá í huga það sem sagt var þar, því að þar var mælt margt sem voru orð í tíma töluð.

Þetta frv. okkar sjálfstæðismanna hefur nú um nokkurt skeið, allmargar vikur, verið til meðferðar í hv. iðnn. Ed. Iðnn. hefur tekið frv. til meðferðar og hefur fengið sérfræðinga á sinn fund frá Landsvirkjun, frá Orkustofnun og frá Rafmagnsveitum ríkisins til þess að fjalla um frv. Mér þykir rétt að það komi hér fram, að hjá þessum sérfræðingum kom fram mjög jákvætt viðhorf til frv. og ekki ábendingar um neina sérstaka galla í veigamiklum atriðum eða þáttum frv. Það má líka geta þess, að fram kom hjá þessum sérfræðingum álit þeirra um eitt af því sem hæstv. iðnrh. fann þessu frv. til foráttu. Ég tek nú kannske of djúpt í árinni þegar ég segi: til foráttu, af því að það var ekki mikið um gagnrýni á sjálft frv. að ræða frá hálfu iðnrh. En það, sem mér virtist hann leggja í því efni mesta áherslu á, var að það væri ekki um að ræða röðun framkvæmda, sem við höfum svo kallað. Þessir sérfræðingar tóku fram í iðnn. óaðspurðir að það væri einmitt einn af helstu kostum frv. Auðvitað byggist það á því sjónarmiði sem ég túlkaði rækilega í umr. um þetta mál, þ. e. að það gæti verið til trafala að njörva niður framkvæmdaröð í löggjöf því að þá gætu verið bundnar hendur stjórnvalda um að taka til hendi hvar sem við verður komið eftir því sem verkefnin liggja fyrir.

Ég sagði að ég ætlaði ekki að fara að ræða þetta frv. okkar sjálfstæðismanna. Ég aðeins vík að því að leggja áherslu í þessum umr. á það sjónarmið okkar sjálfstæðismanna, hve virkjunarmálin eru mikilvæg og að þeim þurfi að hraða. Það var í þessu frv., sem ég vitna til, grundvallaratriði að þeim virkjunarframkvæmdum, sem þar var gert ráð fyrir og væru þær mestu sem um getur í okkar sögu, verði lokið á 10 árum. Nú skyldi maður halda að hæstv. ríkisstj. hefði fyrir löngu verið búin að leggja fram frv. um virkjunarframkvæmdir og ekkert kannske óeðlilegt að hún hefði verið búin að gera það áður en við sjálfstæðismenn sáum að við svo búið gat ekki setið.

Frv. ríkisstj., sem við hér ræðum, kemur fram á síðustu dögum þingsins. Það eru ekki góð vinnubrögð, svo að ekki sé meira sagt. Ég skildi hæstv. iðnrh. hér áðan á þann veg að hann skildi þetta. En það sem mér og ég held öðrum hljóti að vera erfiðara að skilja, er hvers vegna þessi dráttur hefur verið á því, að ríkisstj. bæri fram frv. um þetta efni. Maður hefði skilið það ef þetta frv. væri þess eðlis og borið vott um það, að því lægi að baki mikil vinna og stórar ákvarðanir væri verið að taka samkv. frv. En því er ekki að heilsa. Frv. ber með sér að svo er ekki. Í því sambandi vil ég á þessu stigi málsins láta mér nægja að víkja að tveim atriðum sem ég tel að hefðu orðið að koma fram í þessu frv. eða frumvarpið að kveða á um stefnuna í þeim málum. En það gerir það alls ekki.

Þessi tvö atriði eru í fyrsta lagi orkunýtingarstefna og í öðru lagi hraði framkvæmda. Það er nauðsynlegt að hafa einhverja orkunýtingarstefnu því að það hlýtur að vera grundvöllur fyrir þeim aðgerðum sem við leggjum til eða ætlunin er að framkvæma í virkjunarmálunum. Auðvitað getur orkunýtingarstefnan verið með mismunandi hætti. Það getur í hugum sumra orkað tvímælis hver stefna er rétt í því efni. Menn geta haft mismunandi skoðanir og stefnur um þau atriði. Það má segja að við það sé ekkert að athuga. En það er mikið að athuga við það þegar ekki er um neina orkunýtingarstefnu að ræða.

Það er stefna út af fyrir sig að miða framkvæmdir okkar í virkjunarmálunum við það, að fullnægt verði heimilisnotkun, notkun raforku til húshitunar og til almenns iðnaðar, eins og þessi notkun er áætluð í orkuspá. Það er stefna út af fyrir sig. En ef það er stefnan, þá er ekki raunhæft að vera að tala um virkjanir nema sem svarar þeirri orku sem þarf til þess að framkvæma þessa stefnu. Ef þessa stefnu ætti að hafa þurfum við ekki að vera að tala um svo margar og miklar virkjunarframkvæmdir sem eru í þessu frv.

Hins vegar ef við gerum till. um stórkostlegar virkjunarframkvæmdir, virkjunarframkvæmdir á skömmum tíma, sem eru jafnmiklar og raunar meiri en allt vatnsafl sem virkjað er á Íslandi í dag, þá er það algerlega óraunhæft nema gera sér grein fyrir, marka og ákveða orkustefnu, sem þýðir að það sé markaður fyrir þessa orku. Þetta frv. gerir það ekki. Það er tæpt á mörgum og miklum virkjunarframkvæmdum, en í mínum huga er þetta marklaust meðan orkunýtingarstefna í samræmi við slíkar fyrirætlanir liggur ekki fyrir.

Hitt atriðið, sem ég vildi sérstaklega minnast á sem vansmíði á þessu frv., er að í því er ekkert kveðið á um hraða framkvæmda, að þeim skuli hraðað eða stuðlað að því, að framkvæmdum sé hraðað. Það er alger óþarfi að vera að samþykkja einhver pappírsgögn á hinu háa Alþingi varðandi virkjunarmál ef ekki er litið á þann þátt sem varðar hraða framkvæmda, vegna þess að hraðinn er mjög þýðingarmikill ef okkur er alvara með allt ;al okkar um það, hve miklu varði að nota nú sem best þá möguleika sem við höfum með hagnýtingu orkulindanna.

Þetta vildi ég segja almennt um þetta frv. sem hér liggur fyrir áður en ég vík að nokkrum sérstökum atriðum, án þess þó að ég ætli mér hér að fara að ræða ítarlega hverja grein frv. En þau atriði, sem ég ætla hér að koma inn á við 1. umr., eru ákaflega þýðingarmikil þegar við leggjum mat á gildi þessa frv. Það er þýðingarmikið þegar við 1. umr. að fá skýringar og svör við ýmsum spurningum sem hljóta að koma upp í huga okkar við lestur þessa frv.

Ég vík þá fyrst að upphafsorðunum í frv. þessu, upphafi 1. gr. frv., en þar segir að Landsvirkjun sé heimilt, að fengnu samþykki ríkisstj., að stækka Hrauneyjafossvirkjun í allt að 280 mw. afl og stækka Sigölduvirkjun í allt að 200 mw. afl. Hér segir að Landsvirkjun sé heimilt, að fengnu samþykki ríkisstj. Ég hnýt um þetta orðalag: „að fengnu samþykki ríkisstj.“ Hvers vegna geri ég það? Vegna þess að í — ég ætla — öllum heimildarlögum hliðstæðum, þar sem veitt er heimild til ákveðins fyrirtækis um virkjunarframkvæmdir, er einungis talað um að heimila viðkomandi virkjunarfyrirtæki þær framkvæmdir sem um er að ræða. Það er ekki hnýtt aftan í: „að fengnu samþykki ríkisstj.“ Það er rétt í þessu sambandi að vísa sérstaklega til þeirra heimildarákvæða sem eru í gildi í lögum nr. 59/1965, um Landsvirkjun, þar sem Landsvirkjun er heimiluð virkjun við Sigöldu og Hrauneyjafoss.

Nú leikur mér hugur á að vita hvað þetta þýðir: heimilt að fengnu samþykki ríkisstj. Hvað þýðir þetta: „að fengnu samþykki ríkisstj.?“ Er hér átt við ríkisstj. sem eignaraðila eða fulltrúa eignaraðila í Landsvirkjun? Ef svo er, þá spyr ég: Hvers vegna á þá ekki að fá samþykki annarra eignaraðila Landsvirkjunar? Ég óska eftir því að fá svör við þessu ef um þetta er að ræða. Enn fremur verð ég að segja, ef um þetta er að ræða, hefði þá ekki verið óþarfi að taka þetta fram. Liggur það ekki í hlutarins eðli, ef einum aðila er veitt heimild til þess að gera eitthvað, að þá geri hann það ekki nema með samþykki eignaraðila. Ég verð að segja það. Þess vegna kemur mér í hug að það geti verið önnur skýring á þessu orðalagi, og vil ég nú spyrja hæstv. iðnrh. hvort hún kunni að vera rétt. Ef ekkert stæði hér um samþykki ríkisstj., þá mundi fara um framvindu þessara mála að því er varðar ríkisvaldið að þar kæmi iðnrh. fram í nafni þess. Því að þessi mál heyra undir iðnrh. Getur þetta orðalag þýtt að hér sé gert ráð fyrir að taka það vald úr hendi iðnrh., sem eðlilegt er að hann hefði varðandi framkvæmd þessara mála, og flytja það í hendur ríkisstj.? Ég veit ekki, þess vegna spyr ég. Þegar í mínum augum er svo fáránlegt ákvæði sett í frv. sem hér er um að ræða, þá geta komið upp margs konar spurningar í hugann. En ég skal ekki tíunda hér fleiri að sinni a. m. k.

Ég vík þá að öðru ákvæði í 1. gr. frv., en það er um að Landsvirkjun sé heimilt að tryggja rekstur orkuveranna á Þjórsársvæðinu og koma vinnslugetu þeirra í eðlilegt horf, m. a. með Kvíslaveitu, stækkun Þórisvatnsmiðlunar og stíflu við Sultartanga. Ég verð að segja að mér kemur þetta ákvæði einkennilega fyrir sjónir. Hvers vegna? Vegna þess að í lögum um Landsvirkjun, nr. 59/1965, nánar í 6. gr. þeirra laga, sýnist mér að sé heimild fyrir Landsvirkjun til þess að gera það sem hér er tíundað. Hvað á það að þýða, ef það er rétt, að taka þetta ákvæði upp? Er það ekki nokkuð vafasamt að vera að gera því skóna, að Landsvirkjun hafi ekki haft heimild áður til þess að hagnýta sér ákvæði um þetta efni sem eru í gildandi lögum um Landsvirkjun? Ég hefði haldið að það væri eðlilegra og heppilegra fyrirkomulag að hafa slík almenn ákvæði í lögum um Landsvirkjun eins og sett var 1965, en ekki að fara að taka slík ákvæði upp við einhverja einstaka virkjun eða virkjanir sem kunna að vera samþykktar. Ekki meira um þetta atriði.

En ég held áfram og vil þá víkja að því sem enn segir í 1. gr. frv. eins og það liggur nú fyrir. Það er um það, að ríkisstj. sé heimilt að semja við Landsvirkjun m. a. um að reisa og reka eftirtaldar vatnsaflsvirkjanir, þ. e. virkjun Blöndu, virkjun Jökulsár í Fljótsdal og virkjun Héraðsvatna við Villinganes. Ég er allhugsandi út af þessu ákvæði og mig grunar að svo geti verið um fleiri. Það er af ýmsum ástæðum, vegna þess að þetta mál, þegar grannt er skoðað, hlýtur að snerta mjög skipulag rafmagnsframleiðslunnar í landinu. Nú er það mál sem á undanförnum árum hefur verið mikið rætt og það hefur verið ágreiningur um þau efni í sumum greinum, m. a. milli núv. hæstv. forsrh. og hæstv. iðnrh. En menn hafa verið sammála um að það væri nauðsynlegt að hafa heildarskipulag á raforkuframleiðslunni. Um það hafa menn verið sammála. Menn hafa deilt um það m. a., hvort ætti að lögfesta að eitt fyrirtæki hefði alla meginraforkuframleiðsluna á sinni hendi, en öðrum fyrirtækjum væri bannað það. Um þetta hafa menn deilt m. a. En ég hélt að menn hefðu verið nokkuð sammála um það eða það hefði legið í loftinu, að hvort heldur skipulagið sem tekið væri upp þyrfti að kveða á um það með lögum, í almennri löggjöf um þessi efni, enda liggja fyrir tillögur um það frá þeim, sem vilja hafa eitt orkufyrirtæki og einnig frá hinum, sem vilja hafa visst frjálsræði, en þó skipulag í þessum efnum. Nú sýnist mér að það sé horfið frá því að setja ákvæði í lög um skipulag orkuframleiðslunnar, heldur á að fara þá leið að semja við Landsvirkjun um þetta.

Ég held að þetta þurfi nánari athugunar við, enda virðist ríkisstj. eða hæstv. iðnrh., sem sjálfsagt ber ábyrgð á þessu eins og frv. í heild, gera því skóna, að þetta takist ekki, það takist ekki að semja við Landsvirkjun. Ef það tekst ekki geti það fallið í hlut Rafmagnsveitna ríkisins að vera virkjunaraðili að þeim virkjunum sem hér um ræðir. Að vísu má álykta sem svo samkv. orðalagi frv. eins og það er núna að samningar við Landsvirkjun geti tekið svo langan tíma að eiginlega verði hlutverk Rafmagnsveitna ríkisins einungis það að hafa með höndum ranasóknir og hönnun undirbúningsframkvæmda. Í þessu orðalagi getur falist að það eigi aldrei að koma til þess, að RARIK annist framkvæmdirnar. Hvað skeður þá ef samningar takast ekki? Það væri fróðlegt að heyra túlkun hæstv. iðnrh. á þessu þýðingarmikla atriði.

En áður en ég hverf frá þessu vil ég vekja athygli á því, að í þessu frv. eru útilokaðir möguleikar fólksins úti á landsbyggðinni, sveitarfélaganna úti um land, að taka þessi mál í eigin hendur ef fólkið vill, ef sveitarfélögin vilja. Ég er ekki formælandi þess, að það eigi að fyrirskipa að stofnuð verði landshlutafyrirtæki því að eðli málsins samkv. er að mínu viti ekki hægt að gera það nema viðkomandi sveitarfélög og fólkið þar vilji það og óski eftir því. En ég spyr enn þá einu sinni: Hvers vegna í ósköpunum má það ekki vera leyfilegt ef þessir aðilar vilja taka að sér þessi verkefni og ef þeir geta það? Og nú, ef hæstv. iðnrh. á erfitt með að skilja sjónarmið mín í þessu sem ég skal ekkert um segja þó að hann ríghaldi sér í þessa útilokunarstefnu gagnvart landsbyggðarfólkinu, má ég þá spyrja hæstv. viðskrh., sem sekkur sér nú niður í lestur þess frv: sem við erum núna að ræða: Hefur hann nokkuð að athuga við það, að löggjöfin sé á þann veg að fólkið úti á landsbyggðinni, sveitarfélögin þar, megi í samvinnu við ríkið í formi landshlutafyrirtækja láta þessi mál til sín taka í því formi að reisa og reka virkjanirnar? Mér er algerlega óskiljanlegt hvers vegna á að útiloka þennan möguleika ef hann er fyrir hendi. Við eigum væntanlega eftir að heyra eitthvað um þetta efni síðar í umr. um þetta mál.

Ég sagði að ég ætlaði ekki að fara að ræða ítarlega hverja grein frv. við þessa umr., en víkja að nokkrum atriðum sem hefðu almennt gildi fyrir mat okkar á frv. í heild. Ég hef ekki enn lokið því, en það líður senn að því að ég hafi talið þessi atriði upp. Ég kem þá enn að einu atriði sem er í 1. gr. frv. eins og það liggur núna fyrir. Það er um að ríkisstj. geti heimilað Rafmagnsveitum ríkisins, Landsvirkjun og Orkubúi Vestfjarða að reisa varastöðvar með samtals allt að 50 mw. afli á næstu 10 árum í því skyni að tryggja viðunandi öryggi notenda gagnvart bilunum. Hvers vegna minnist ég á þetta atriði? Einfaldlega vegna þess að það kemur upp sú spurning í mínum huga, hvers vegna verið sé að taka þetta ákvæði upp. Ég stend í þeirri meiningu, að það hafi ekki viðgengist að það væru sett lög á Alþingi ef einhver orkuveita keypti dísilvél til þess að koma sér upp varaafli. Hins vegar er í orkulögum ákvæði um það, að lagaheimild þurfi til þess, eins og það er orðað þar, að reisa og reka orkuver sem er stærra en 2 mw. eða 2000 hestöfl. Ég veit ekki til þess að þessu ákvæði hafi verið beitt nema þegar um vatnsaflsvirkjanir er að ræða. Þá þarf að reisa mannvirki, eins og við vitum. En það hefur ekki verið til þess að koma upp varaafli í formi dísilstöðva. Þegar talað er um varaafl í þrengri merkingu, og ég held að það verði að leggja þá merkingu í þetta, þá er átt við varaafl sem er á staðnum á þéttbýlisstöðunum og fengið er einmitt með vélum sem þar eru settar upp. Væntanlega gefur iðnrh. skýringu á þessu.

Ég skal nú ekki víkja að fleiri atriðum í 1. gr. frv., en vil víkja að einu atriði sem er í 2. gr. frv. og mér þykir þess eðlis, að það sé nauðsynlegt að veita því athygli við 1. umr. og freista þess að fá skýringar frá hæstv. iðnrh. á þessu ákvæði eins og það stendur nú í frv. Það er um að tillögur um framkvæmdir við nýjar vatnsaflsvirkjanir og virkjunaráfanga, þ. á m. um framkvæmdaröð, skuli lagðar fyrir Alþingi til samþykktar. Mér er ekki alveg ljóst hvað þetta þýðir. Sérstaklega hnýt ég um virkjunaráfanga. Heyrir þá undir þetta ákvæði þegar bætt er við t. d. nýjum áfanga við Hrauneyjafossvirkjun, að meðferð á því máli eigi að vera samkv. þessum fyrirmælum? Þegar um er að ræða nýjar virkjanir, sem oft eru stórar og eru oftast í fleiri en einum áfanga, á þá að leita eftir samþykki Alþingis fyrir hverjum áfanga um sig? Það er þýðingarmikið að fá að vita hver er skilningur hæstv. ráðh. og hvað frv. meinar með þessu, vegna þess að hagkvæmni einnar virkjunar fer eftir öllum áföngum hennar. Hvers vegna er þá verið að tala hér um hvern áfanga? Eru menn kannske að gera því skóna, að Alþingi samþykki 1. áfanga og 3. áfanga, en felli 2. áfanga? Ég vildi gjarnan fá skýringar á þessu ákvæði.

Ég skal ekki koma inn á fleiri einstök atriði í bili sem ég óska sérstaklega að fá skýringar við. En það er augljóst og leiðir af því, sem ég hef þegar sagt, að þetta frv. er algerlega ófullnægjandi til þess að svara þeim þörfum sem svara þarf í orkumálum og virkjunarmálum í dag. Hér er ekki um annað að ræða en upptalningu á nokkrum möguleikum. Það er ekki gefin bein heimild til ákveðinna fyrirtækja um ákveðnar framkvæmdir. Það eru ekki gefin fyrirmæli um neitt. Ef heimild er nefnd á nafn, þá er hnýtt aftan í það að koma þurfi til samþykki ríkisstj. eða að það þurfi að semja við Landsvirkjun og því gerðir skórnir, að það sé ekkert víst hvernig um það fari. Því miður er það sorgarsaga hvernig þessi mál standa í dag. Það er fullkomið ráðleysi, fullkomið stefnuleysi og að því er virðist, þegar grannt er skoðað, fullkomin uppgjöf til raunhæfra aðgerða í þessum málum. Þegar ég tala um raunhæfar aðgerðir á ég við aðgerðir sem svara þeim kröfum að virkjunarframkvæmdum sé flýtt svo sem kostur er.

Nú sagði hæstv. iðnrh., að hann vænti breiðrar samstöðu um þetta mál, og óskaði eftir góðri samvinnu. Það hafa fleiri gert en hæstv. iðnrh. að óska eftir góðri samvinnu og víðtækri samstöðu um þessi mál. Það vildi svo til að ég lagði sérstaka áherslu á þetta þegar ég fyrr í vetur mælti fyrir frv. okkar sjálfstæðismanna um ný orkuver. Meira að segja lét ég orð falla á þá leið, að ég sæi ekki annað eftir ummælum ráðh. hér við þá umr. heldur en það ætti að vera möguleiki á þessu, og þá undanskildi ég ekki hæstv. iðnrh. þó að ég leyfði mér að benda sérstaklega á hæstv. viðskrh. Ég hafði þau ummæli um ræðu hæstv. viðskrh. í þeim umr., að hún væri svo góð að ég gæti ekki betrumbætt hana sem framlag til stuðnings við frv. okkar sjálfstæðismanna. En þessar vonir mínar um samvinnu, breiða samstöðu, eins og hæstv. iðnrh. orðar það, hafa brugðist. Ég hef ekki orðið var við nokkurn vilja af hálfu hæstv. iðnrh. til þess að hafa uppi neina samvinnu við stjórnarandstöðuna í þessum efnum. Það gat vel komið til greina að það væri athugað t. d. að frv., sem naut hér í umr. svo víðtækrar samstöðu sem ég var að nefna áðan, frv. okkar sjálfstæðismanna, hefði getað verið einhver grundvöllur fyrir viðræðum um þetta efni. En ríkisstj. hefur með meirihlutaaðstöðu sinni svæft það mál í iðnn. Ed. Ef það á að vera samvinna í þessum efnum verður viðleitni til þess að vera gagnkvæm. En því miður er þetta frv., eins og það er hér lagt fram, ekki sniðið að þeim þörfum að geta orðið grundvöllur fyrir samstöðu um þetta mál. Að sjálfsögðu munum við sjálfstæðismenn freista þess að bæta það, en ef það tekst ekki getur ekki orðið samvinna um þetta frv.