23.05.1981
Efri deild: 122. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4966 í B-deild Alþingistíðinda. (5308)

320. mál, raforkuver

Egill Jónsson:

Herra forseti. Þau eru nú komin hér til umræðu orkumálin og er reyndar vonum seinna, og það vekur í rauninni mikla athygli, að frá áformuðum lokum Alþingis á þessum vetri og þessu vori þurfti að víkja svo að það væri hægt að koma þessum málaflokki og þessari löggjöf áfram hér í gegnum Alþingi. (StJ: Fyrir þvermóðsku þingmannsins meðal annars.)

Það er þá vert að rekja það aðeins hér og ekki síst vegna þessara skýringa sem hingað hafa borist, með hvaða hætti hafa verið gefin fyrirheit um að þessi mál bærust hér til umr. á Alþingi. En það fyrsta, sem var um talað í þeim efnum, var að tillögur ríkisstj. ættu að liggja fyrir fljótlega eftir að jólaleyfi alþm. lyki, og gott ef ekki voru gefin fyrirheit um það, að í því jólaleyfi yrðu þau mál alveg sérstaklega undirbúin. Þegar það stóðst ekki var talað um að þessar till. ættu að leggjast fyrir Alþingi í kringum miðjan marsmánuð, og þegar það stóðst ekki var talað um að þær ættu að hafa borist hingað á borð alþm. fyrir páska. Þegar ekki varð af því var fresturinn tekinn fram yfir páska og páskafríið átti að nota til þess að undirbúa þessar till. og koma þeim í frv.- form. Ekki einu sinni það tókst og varð raunar verulegur dráttur frá þeirri tímasetningu líka. Ég held að það verði að kenna einhverju öðru um en sérstakri þvermóðsku einhverra tiltekinna stjórnarandstæðinga, að engin þessara yfirlýsinga hefur staðist. Og það má mikið vera ef það hafa ekki ákveðnir alþm. innan Alþb. sjálfs, í eigin herbúðum, verið með einhverja þá þvermóðsku sem hefur tafið þetta mál.

En það er svo til viðbótar við þetta, að hér birtist í ákaflega stuttu og einföldu máli lýðræðisást Alþb. Það skiptir ekki máli hvaða tími er tekinn til umfjöllunar um mál sem Alþb. er að vinna að í sínum herbúðum. Það skiptir ekki máli hvaða tími er tekinn til þess hér innan Alþingis. Eftir að búið er að kuðla því út úr þeim félagsskap er um að gera að hraða svo störfum hér á Alþingi að ekki gefist ráð eða tími til þess að fjalla um þau mál. Og það er vert að rifja það hér upp mönnum til minnis, hvernig átti að vinna og var búið að skipuleggja vinnubrögð að þeim þremur iðjumálum sem hæstv. iðnrh. lagði fyrir þessa hv. deild og átti að afgreiða úr Ed. Alþingis á örfáum dögum. Og það er rétt til marks um þetta allt saman, að hv. alþm. Stefán Jónsson tók þátt í því í nokkra daga í rauninni að gjörbreyta öllum þeim frv. meira og minna þannig að í einu þeirra held ég að ein grein hafi verið ósnert. Svo má hv. alþm. tala hér um þvermóðsku og hroðvirk vinnubrögð. En að einu leyti felst þó í orðum hans nokkur sannleikur og einmitt að því leyti, að þessi málatilbúnaður er með þeim hætti og í rauninni ekki það mikils virði að Alþingi ætti e. t. v. ekki að vera að tefja sig á þessari frv.-gerð. Og það er kannske þess vegna sem menn tala um að hér þurfi að flýta málum, og svo kannske líka til viðbótar að ýmis þau vinnubrögð hafa hér átt sér stað sem mönnum finnst ekki ýkja smekkleg og þess vegna kæra sig ekki um að horfast í augu við lengur en þörf er á.

Nei, það er ekkert undarlegt þó að menn séu orðnir þreyttir og óþreyjufullir yfir allri þeirri umræðu sem farið hefur hér fram. Og það er spurning hvort það er frekar flótti frá þessu frv. og frá þessum málatilbúnaði, sem gerir menn nú óþreyjufulla hér á Alþingi, heldur en hitt: að geta farið að njóta sólarinnar og sumarsins.

Það hafa verið sögð hér ýmis spakmæli í þessum umr. og það eitt út af fyrir sig gerir þær gagnlegar. Tveir ráðh. úr ríkisstj. hafa verið að tala mikið um að það þyrfti að fást breið samstaða um þetta mál hér á Alþingi. Ja, batnandi manni er best að lifa. Og það væri gaman að fá vitneskju um það, helst hjá báðum þessum ráðh., hvaða tilefni er til þess, að þeir hafa nú komist að þessari niðurstöðu. Hver er ástæðan fyrir því, að þessir tveir ráðh., hvor eftir annan, eru farnir að tala um að það þurfi breiða samstöðu um þetta mál hér á hv. Alþingi? Það skyldi þó ekki vera að með þessum hæstv. ráðh. leynist einhver beygur um framhald þessa máls og það sé vissara að tala meira við þá menn og við þá flokka, sem eiga hér samstæð málefni, heldur en að láta kaupmennsku á örlagastundu ráða framgangi máls sem þessa? Það var í rauninni hollur skóli sem iðnn. Ed. gekk í gegnum núna á þessum morgni þegar var farið að spyrja um óeðlilega uppsetningu á brtt. meiri hl. iðnn. Nd. sem voru samþykktar í þeirri virðulegu deild, að þá var af sérfræðingum skýrt frá því, að þar lægju ekki til grundvallar efnislegir þættir þessa stóra máls, heldur væri þetta fléttað stjórnmálaatburðum allra síðustu daga. Og þá þykir manni sennilega nóg af slíku komið þegar hrossakaup eru farin að stjórna lagagjörð með þeim hætti sem þar hefur komið fram.

Hæstv. viðskrh. talaði um stefnumörkun í þessu frv. og í grg. þess. Ég varpaði þeirri ábendingu fram við umræðuna, að stefnumörkun í því væri af mörgu tagi, og það var rétt eftir tekið. Og það er kannske sá þátturinn sem væri þá eðlilegast að fara hér aðeins ofan í. Nú er það spurning út af fyrir sig, hvað það er mikil stefnumörkun að fá hér samþykkt frv. sem síðan á aftur að fjalla um í haust. Stefnumörkunin stendur ekki miklu lengur. En byrjum að líta á raforkuspána, sem er fyrsti hluti af grg., — lagatextinn sjálfur hefur hér verið ræddur, m. a. af hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni, þannig að ég sleppi honum sem slíkum, og í rauninni felst ekki í honum nein sérstök stefnumörkun. Það er líka oft svo að það er auðveldara að átta sig á þeim leiðum og þeim orsökum, sem eiga að valda atburðunum, heldur en hinu, sem stendur beint í lagatextum. En í þessum kafla um raforkuspána er m. a. sagt að orkuþörfin í lok þessa framkvæmdatímabils, þ. e. um 1995, verði rúmar 5000 gwst., nákvæmlega 5161. Þarna er væntanlega um að ræða ákveðna tölu sem miðað er við. Og síðan kemur næsti kafli þar sem er talað um mörkun virkjunarstefnu. Og það er út af fyrir sig athyglisvert, að sá kafli fjallar nánast alveg um sölu á raforku. Hann fjallar nánast alveg um orkuþörfina, og að því er hægt er að tala um iðjuframkvæmdir eða hugleiðingar um þau mál, þá er sérstaklega að því vikið hér.

Það er ýmislegt í þessum kafla sem ber þess ótvíræð merki að hæstv. iðnrh. er farinn að átta sig á því, að það er ekki hægt að virkja í stórum stíl öðruvísi en orkunni sé komið á markað. Og það er á bls. 4 komist spaklega að orði — með leyfi hæstv. forseta — eins og ég skal nú hér með fara:

„Forsendur séu til framkvæmda við virkjanir í þeim mæli sem fram kemur hér á undan. Með því móti má ætla að raforka umfram þarfir almenna markaðarins og þess orkufreka iðnaðar, sem nú er fyrir hendi í landinu, geti numið 1300–2400 gwst. á ári eftir 15 ár. Óhjákvæmilegt er að hraðinn við virkjanaframkvæmdir“ — og nú bið ég viðstadda að taka vel eftir— „ráðist í verulegum mæli af þeim nýtingarkostum sem vænlegir þykja hverju sinni. Í þeim efnum er margt óvissu undirorpið sé litið til lengri tíma.“

Þarna hefur hæstv. iðnrh. sannarlega hitt naglann á höfuðið og að því leyti náð alveg sérlega góðum árangri, að honum hefur tekist með þessu að fullnægja kröfum og óskum Framsfl. um þau skilyrði, hvað þurfi að vera til staðar og hvað sé hægt að fallast á af hendi Framsfl. gagnvart Austurlandi og stórvirkjun í Fljótsdal. Þessar hugleiðingar virðast eiga að nægja Framsfl. í þeim efnum.

En það er ýmislegt fleira spaklega sagt í þessum efnum, sem á vissan hátt er líka stefnumótandi. Svo ég vitni hér enn í grg. — með leyfi hæstv. forseta, — þar segir svo um miðja þessa sömu bls.: „Aftur á móti er tiltölulega auðvelt að hægja á, ef þarfirnar ætla að reynast minni en spáð var.“ — Það er sem sagt hægt að finna góð ráð til þess að draga úr orkuþörfinni ef með einhverjum hætti er þörf á að draga þar úr.

Það er þarna stutt á milli gullkornanna í þessum boðskap því að rétt á eftir segir, og þá verður ekki annað séð en að þar sé sérstaklega verið að fullnægja og mæta óskum Alþb.:

„Aukin innlend orkunýting umfram almenna markaðinn, samkvæmt framansögðu, er innan þeirra marka sem við Íslendingar getum ráðið við þannig að við höfum fullt forræði yfir þeim iðnaði, er þar væri um að ræða, en auk þess er eðlilegt að gera ráð fyrir að nýta raforku í stað olíu í núverandi iðnfyrirtækjum í nokkrum mæli.“

Hvaða rök eru fyrir þessari staðhæfingu? Hvernig er þetta tengt saman, það sem okkur er óhætt, væntanlega til þess að tapa ekki okkar sjálfsforræði hér á Íslandi, hvernig er það mælt í megawöttum og krónum? Eða er það bara almenn hugleiðing, almennt snakk út í loftið til þess að geta lesið þetta þegar þarf á því að halda við hátíðlegar stundir hjá Alþb.? Er hér á ferðinni einhver slík friðþæging? Það verður að fást svar við því. Eða með hvaða hætti er þetta túlkað að því er varðar fjármagn og orku?

Þegar svo brotið er enn í blaðið og farið að fjalla um virkjunarframkvæmdir, þá verð ég að segja eins og er að þar finnst stefna, þar finnst á vissan hátt stefna. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt og alveg sérstaklega nú við þessa umr. að fá nokkrar skýringar á því. Þar er sagt frá hvað ríkisstj. ætli sér að gera einmitt núna á þessu sumri. Og þegar verið er að breyta lagatexta eins og búið er að gera í Nd. Alþingis og að því er þaðan hefur spurst til þess að auka á jafnræði milli byggðarlaga, þá er alveg nauðsynlegt að fá vitneskju um hvort það hafi verið gerðar breytingar á þeim áformum ríkisstj. sem koma fram á bls. 6. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með hliðsjón af því, sem að framan greinir, mun ríkisstj. í ár beita sér fyrir eftirfarandi varðandi frekari undirbúning Blönduvirkjunar og Fljótsdalsvirkjunar:

Að hraðað verði verkhönnun við Blönduvirkjun. Að lokið verði rannsóknum vegna Fljótsdalsvirkjunar og hafin verkhönnun hennar.

Að hafnar verði tilraunir með uppgræðslu og gróðurbætur á virkjunarsvæði Blöndu í samráði við sérfræðinga og heimamenn og ráðist í vegagerð á virkjunarsvæðinu.

Að samhliða þessu verði leitast við að ná sem fyrst samningum við hagsmunaaðila vegna Blönduvirkjunar.“

Ég legg á það ákaflega ríka áherslu hér, einmitt við þessa umr., að það komi fram skýrar yfirlýsingar um það, hvort áform eru um að breyta til um áform í sambandi við virkjunarframkvæmdir frá því sem þarna er um getið. Og enn segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Á þennan hátt verði tryggt að ekki verði tafir á undirbúningi næstu virkjunar, þótt ákvörðun um hana verði tekin á síðari hluta ársins og leitað staðfestingar Alþingis á haustþingi.“

Hér verður ekki annað séð en að teningnum sé kastað og þarna séu gerð glögg skil. Sérstaklega kemur það betur fram ef áfram er lesið, sem ég tel nú ekki þörf á, að það eru gerð ákveðin skil á virkjunum við Blöndu og í Fljótsdal annars vegar og hins vegar á virkjun við Sultartanga. Það er beinlínis sagt að þetta eigi að vinna í sumar til þess að það sé hægt að taka ákvörðun um næstu virkjun í haust.

Ég vænti þess, að þetta verði skýrt hér við umr., hvort hér eru nokkrar breytingar á. En það þarf að sjálfsögðu að liggja meira fyrir í haust en aðeins þetta. Það þarf líka að gera upp á milli Blönduvirkjunar og Fljótsdalsvirkjunar eða að öðrum kosti að gera upp á milli stefnu stjórnarandstöðunnar — ekki einungis Sjálfstfl., heldur stjórnarandstöðunnar — og stefnu núv. ríkisstj. Ef menn geta fallist á þá stefnu sem felst í frv. okkar sjálfstæðismanna, að það verði gerðar ráðstafanir til þess að tryggja orkusölu frá Fljótsdalsvirkjun, þá þarf að sjálfsögðu ekki að vera að metast um hver verði númer eitt eða númer tvö. En ef sama tosið á að halda áfram eins og hefur viðgengist hjá núv. ríkisstj., þá fer ekki hjá því að þessi mál þarf að skýra, hvernig hér á að ná fram röðun af hennar hendi.

Einhvern veginn virðist manni að þetta byggist á voninni eins og ákaflega margt hjá núv. hæstv. ríkisstj. Von hæstv. iðnrh. er að ekki takist samningar norður í Húnaþingi og að þar geti komið mjög mikill stuðningur við það, hvernig ríkisstj. geti raðað framkvæmdum. Svo eru að hinu leytinu aðrir ráðh. sem eiga líka sínar vonir og þá væntanlega þær, að það takist samningar við hagsmunaaðila norður í Húnaþingi, og miðað við þær yfirlýsingar, sem iðnrh. hefur verið að gefa í allan liðlangan vetur, eru áhugaaðilar um virkjun Blöndu komnir á þurrt land.

Síðasti hlutinn af þessari grg. fjallar svo um hinar einstöku vatnsaflsvirkjanir. Og það er raunar athyglisvert, að um þær hverja og eina hafa menn ekki talað mikið í þessari umr. Ástæðan er kannske sú, að þær fregnir, sem hafa borist um hagkvæmni þeirra hverrar og einnar, eru með þeim hætti að menn kæra sig ekki um það, a. m. k. ekki þeir sem hafa ætlað að raða virkjununum á þeim grundvelli, að hafa þar orð um.

Fyrir okkur sjálfstæðismenn er það út af fyrir sig ekki neitt sérstakt mál hvað mönnum reiknast til með verð á hverri og einni afleiningu í þessum virkjunum. Við höfum spurst fyrir um það, hvað þessir kostir eru ákjósanlegir og hagkvæmir miðað við þau orkuver sem hafa verið reist hér á landi, og við höfum fengið þau svör, að allir þessir kostir séu mjög ákjósanlegir til hagnýtingar fyrir orkuframleiðslu. Og það hefur verið frá því sagt hér, m. a. af hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni, að við leggjum upp úr því, að öll þau verðmæti, sem þar standa þessari þjóð til boða, verði tekin til notkunar sem allra fyrst. En fyrir þá, — og á ég þá alveg sérstaklega við hæstv. iðnrh. sem í allan vetur hefur verið að tala um mismunandi verð, mismunandi hagkvæmni og samanburð þar á milli, og reyndar hefur alltaf, að manni hefur skilist, verið út frá gengið að hver afleining í Fljótsdalsvirkjun yrði með nokkuð líku verði og norður í Húnaþingi við Blöndu, — hlýtur það að verða að skýrast með einum eða öðrum hætti, hvers vegna einmitt þessu er sleppt úr umr. núna.

Ég hef fengið af því fregnir, að forráðamenn í raforkumálum og fróðir menn þar um hafi komið til fundar við sveitarstjórnarmenn á Austurlandi og þar hafi komið fram ýmsar skýringar á því, hvers vegna hafi frekar dregið í sundur með Fljótsdalsvirkjun og Blönduvirkjun. Sannleikurinn er sá, að allur sá útreikningur og samanburður er þess eðlis, að nauðsynlegt er að þar verði fjallað um af meiri nákvæmni. En út af fyrir sig er það ekki þetta sem skiptir sérstöku máli, heldur hitt, með hvaða hætti verður fundinn og fenginn markaður fyrir þessa orku. Það er út af fyrir sig ekki ástæða til þess að ræða það mjög ítarlega núna, en þó hafa komið fram við umr. í Nd. ýmis málsatvik sem verður ekki komist hjá að fá nokkra skýringu á.

Þá er kannske best að rifja hér aftur upp það sem ég gerði fyrr í minni ræðu, þ. e. óskir og fyrirheit og þörfina sem ráðh. hafa nú fundið um hina breiðu samstöðu í orkumálum. Nú vildi svo til að við umr. í Nd. talaði einn aðalorkusérfræðingur Framsfl., hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson, og hafði ýmislegt um þau mál að segja, m. a. það, að í þeim væri unnið mjög mikið um þessar mundir og að stjórnarandstaðan gæti með engu móti tekið sér rétt eða talið eðlilegt að fá vitneskju um það sem væri að gerast í stjórnarherbúðunum um þau mál um þessar mundir. Það er þá spurningin hvort þessi breiða samstaða á að hyggjast á því, að stjórnarandstöðunni séu afhentar skýrslur rétt áður en til afgreiðslu mála kemur hér á Alþingi, eins og verið hefur, og hún á þá ekki einu sinni að fá almennilegt tækifæri til þess að ræða þau mál. Þessi sérstaki talsmaður Framsfl. í orkumálum gat þess, að það yrði e. t. v. hægt undir haustið að svipta leyndarhjúpnum af þessum vinnubrögðum og þá gæti svo farið að stjórnarandstaðan fengi að fylgjast með.

Hér væri mjög mikilvægt að fá greinilegri skýringar frá hæstv. iðnrh. Og víst er um lítilþægni þm. Framsfl. á Austurlandi varðandi þær miklu kröfur, sem gerðar hafa verið til okkar þingmannanna um flutning á till. um stóriðju á Austurlandi, þar sem þm. Framsfl. úr því kjördæmi láta sér nú nægja fátækleg orð iðnrh. þar um, að eitthvað meira hlýtur að búa þar að baki. Það hljóta að vera gefnar aðrar yfirlýsingar heldur en einvörðungu er talað um í framsöguræðu iðnrh. hæstv. í Nd. Ég legg mjög mikið upp úr því, ekki síst vegna þess, að það liggja fyrir fundarsamþykktir og skriflegar óskir til þm. Austurl. um að flytja á þessu þingi þetta mál, stóriðjumálið við Reyðarfjörð, í þáltill.-formi hér inn á Alþingi, að nauðsynlegt er að fá skýr svör við því, hvernig þessum verkum er nú sérstaklega háttað sem Guðmundur G. Þórarinsson talar svo mikið um.

Annars var það með þá ræðu að hún var ekki að öðru leyti óskaplega sannfærandi. Hann sagði nefnilega frá því, sá hv. þm., að það væru margir aðilar vítt úti um heim sem hefðu áhuga á því og væru að vinna að undirbúningi að iðjuframkvæmdum eins og gert er ráð fyrir að verði við Reyðarfjörð. Og hann lagði mikið upp úr því, að sá boðskapur yrði látinn ganga út um allar heimsins byggðir, hvað núv. iðnrh. hefði í huga í sambandi við orkufrekan iðnað, til þess að aðrir legðu ekki út í kapphlaup við okkur um slíkar framkvæmdir. Og þá má sjá það raunar með skýrari hætti og einfaldari, hverjar kröfur Framsfl. eru í kringum öll þessi mál, að það virðist — og kemur glögglega fram í máli Guðmundar G. Þórarinssonar — að það sé nóg að Hjörleifur Guttormsson, hæstv. iðnrh., sendi orðsendingu til þeirra aðila í öðrum löndum, sem hafi áform um uppbyggingu á orkufrekum iðnaði, um það að við ætlum að fara út í slíkt, það dugi til þess að aðrir bíði. Ég held að hér sé í raun og veru fengin meiri skýring á öllum þessum aumingjaskap í kringum orkufrekan iðnað heldur en annars staðar hefur komið fram. Aðeins á að tala og senda orðsendingar til þess að aðrir bíði. Þetta er sannarlega ekki sú leiðin sem við sjálfstæðismenn leggjum til að farin verði. Í þessum efnum eins og ákaflega mörgum öðrum í kringum orku- og iðjumál skilur á milli stefnu Sjálfstfl. og stefnu núv. ríkisstj.