23.05.1981
Efri deild: 122. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4971 í B-deild Alþingistíðinda. (5309)

320. mál, raforkuver

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Við þessa umr. hafa kornið fram ýmis atriði í fyrirspurnaformi sem ég tel skylt að víkja að, en skal þó reyna að ganga ekki mjög á fundartímann og ræða um þessi mál almennt frekar en ég hef gert. Raunar höfum við rætt orkumálin og stefnu í orkunýtingarmálum hér í hv. deild í sambandi við önnur frv. sem hér hafa legið fyrir í vetur þannig að mín viðhorf í þessum efnum ættu að vera vel kunn.

Hv. 4. þm. Vestf. vék að því, og það hefur heyrst frá fleirum, að óæskilegur dráttur hefði orðið á að þetta frv. kæmi fyrir. Hv. 11. landsk. þm. minntist einnig á þetta og nefndi ýmsar yfirlýsingar, sem hann kallaði svo, þar að lútandi, um að þessi mál hefðu átt að koma fyrr fyrir þing samkvæmt yfirlýsingum af minni hálfu eða annarra talsmanna ríkisstj. Ég dreg enga dul á það, að ég hefði talið æskilegt að málin lægju fyrr fyrir, og ég reyndi eftir föngum að ýta á eftir því, en það voru margar ástæður samverkandi sem ollu því að ekki var talið rétt að leggja þetta frv. fyrr fram en reynd varð á. Það voru mjög gildar ástæður, m. a. sú, að niðurstöður verkfræðilegra athugana varðandi virkjanir og aðrar framkvæmdir til orkuöflunar og aukins öryggis í orkuframleiðslu lágu ekki fyrir, þrátt fyrir mjög mikinn eftirrekstur, í samræmdu formi eins og þær eru hér nú í fylgigögnum fyrr en við lok aprílmánaðar eða þar um bil. Vil ég þó engan veginn segja að þar sé síðasta orð, enda eru fyrirvarar á hafðir um það, að ekki séu endanlegir útreikningar sem þar liggi fyrir. Það er eftir að vinna að ýmsum þáttum frekar á þessu ári þannig að gleggri tölur varðandi kostnað munu koma fram á síðari stigum. Svo er það nú raunar þannig um stórframkvæmdir af þessu tagi að allt yfir á útboðsstig eru einstakir framkvæmdaþættir að taka breytingum, menn vinna sig fram til hagstæðari lausna að jafnaði, skulum við vænta, og þessi mál taka þannig nokkrum breytingum á síðari stigum.

Ég get nefnt sem eitt dæmi af mörgum, þýðingarmikið atriði er varðar samninga um réttindi varðandi þessar virkjanir. Reynt var að vinna sig fram úr þeim efnum varðandi bæði Blönduvirkjun og Fljótsdalsvirkjun. Það tókst nánast að koma því máli í höfn varðandi Fljótsdalsvirkjun og fylgigögn liggja fyrir hér með frv. þar að lútandi, en því miður var ekki hægt að koma því máli jafnlangt varðandi Blönduvirkjun og því verður það áframhaldandi verkefni að leita þar lausnar á.

Seint í marsmánuði tók Náttúruverndarráð, sem lögum samkvæmt ber að segja sitt orð um stórframkvæmdir, afstöðu til virkjunaráforma varðandi stærstu virkjunina sem hér er leitað heimilda fyrir, þ. e. Fljótsdalsvirkjun. Erindi Náttúruverndarráðs um þetta er dagsett 21. mars. Það var ekki lítið atriði sem þar var á ferðinni, að fá skýrt fram hvort þessi aðili, sem á að gæta svo þýðingarmikilla hagsmuna, teldi að hægt væri að mæla með því að ráðast í þessa framkvæmd eða ekki. Niðurstaða ráðsins varð sú, að í aðalatriðum gæti það fallist á að ráðist verði í þessa virkjun. Áður hafði það veitt umsögn varðandi Blönduvirkjun og ekki lagst gegn henni þrátt fyrir vissa fyrirvara eins og einnig um Fljótsdalsvirkjun. Þetta er auðvitað mjög stórt mál sem þarna var um að tefla. Það kemur t. d. fram í lýsingu á Fljótsdalsvirkjun, að miðlunarlónið, sem henni á að fylgja, hefur að geyma orkuvinnslugetu sem nemur um 1000 gwst., sem svarar til þriðjungs núverandi ársframleiðslu í öllu landskerfinu. Þarna er um að ræða enn stærra miðlunarrými en er í núverandi Þórisvatnsmiðlun, sem er stærsti orkugeymir landsmanna, en rúmar ekki nú nema um 700 gwst. í orku, en á eftir að stækka miðað við þær hugmyndir sem hér eru fram settar. Þessi þýðingarmiklu atriði og mörg fleiri, sem ég ætla ekki að taka tíma til að nefna hér, voru þess valdandi að ekki var talið rétt að leggja frv. fyrir fyrr en að þeim fengnum, og allt tekur þetta sinn tíma.

Hér hefur verið rætt um orkunýtinguna og hv. stjórnarandstæðingar hafa fundið að því, að þar væru mál ekki enn frá gengin eins og þeir hefðu kosið. Og það kom fram m. a. í máli hv. 2. þm. Reykn. að áform um virkjanir og um orkufrekan iðnað eigi að fylgjast að og vera á sama stigi. Það má út af fyrir sig taka undir það, að æskilegt væri að þessi mál gætu fylgst sem mest að. En undirstaðan er þó orkuframleiðslan og þar skiptir miklu að hafa svigrúm, að vera með undirbúning á því stigi að menn geti hert á framkvæmdum á tiltölulega skömmum tíma eða hægt á framkvæmdum, hafi sveigjanleika eftir því hvernig markaðsaðstæður eru og eftir því hvaða áherslu menn finna hagkvæma í sambandi við orkunýtingu. Og undirbúningur vatnsaflsvirkjana er í reynd flóknara mál og tímafrekara en iðnaðarþátturinn. Sérstaklega á það við ef um hefðbundna tækni er að ræða. En vissulega þarf ekki að muna þarna miklu ef um þróun nýrrar tækni í iðnfyrirtækjum er að ræða. Þá þurfa menn vafalítið ekki skemmri tíma vegna iðnaðar en til þróunar og uppbyggingar vatnsaflsvirkjana.

Vegna þess, hvað þetta er mikið í munni hv. stjórnarandstöðu, að það vanti skýrari stefnu um orkunýtingu, vil ég aðeins til viðbótar vísa til þess, að ég hef ekki séð hennar stefnumörkun, hennar skýru stefnumörkun í öðru formi en því að setja á fót sérstaka orkusölunefnd, sem eigi að vinna að þessum málum og gefa árlega skýrslu um stöðu mála. Ég hef ekki séð þessa skýru orkunýtingarstefnu stjórnarandstöðunnar. Og svo eru menn að kvarta undan því að fá skýrslur ekki — með löggiltri íslenskri stafsetningu, að mér heyrðist — allar í hendur. Og það mátti skilja á máli hv. 11. landsk. þm. að stjórnarandstaðan fengi þau leyndardómsfullu plögg eitthvað verulega seinna í hendur heldur en stjórnarþingmenn eða ríkisstj. Það er misskilningur. Þessar skýrslur hafa komið hér inn á borð hv. þm. samdægurs eða daginn eftir að þær hafa verið lagðar inn á borð ríkisstj. Hitt er svo annað mál, að á vegum ríkisstj. starfar samkvæmt stjórnarsáttmála sérstök nefnd, sem er kölluð orkustefnunefnd, að því að draga upp breiðan stefnuramma um orkumál, þróun orkumála á Íslandi fram undir aldamót væntanlega. Skipunarbréf þeirrar nefndar er að finna sem fskj. með þessu frv, og umræddur hv. þm., Guðmundur G. Þórarinsson, á sæti fyrir hönd Framsfl. í þessari nefnd. Ég hafði vænst þess, að það gæti legið fyrir viss stefnurammi frá nefndinni í öðru formi en fram kemur í þessu frv. nú með vordögum. En þetta yfirgripsmikla verkefni tekur eitthvað lengri tíma. Ég býst þó við að síðar á árinu geti sá rammi legið fyrir og þá til kynningar einnig fyrir hv. stjórnarandstæðinga.

Ég vil þá víkja aðeins nánar að beinum fsp. hér og ekki miklu meira um þessi almennu efni.

Hv. 4. þm. Vestf. spurði um gildi þess, að þess er getið sérstaklega í 1. gr. frv. að Landsvirkjun sé heimilt, að fengnu samþykki ríkisstj., að ráðast í tilteknar virkjunarframkvæmdir, og óskaði skýringa á því, hvort þarna væri um að ræða, að ríkisstj. fyrir hönd ríkisins sem eignaraðila tæki á málinu og heimilaði umræddar framkvæmdir, og einnig hvort verið væri að þrengja valdsvið iðnrh. með þessu orðalagi. Skýring á þessu máli er ofur einföld. Hér sem áður er um það að ræða, að þegar ráðist verði í stórvirki af því tagi, sem þarna er leitað heimildar fyrir frá löggjafanum, sé það ríkisstj. sem taki á slíkum málum og heimill upphaf slíkra framkvæmda. Stjórnskipunarlega séð er það auðvitað viðkomandi ráðh. sem valdið hefur í slíkum málum. En ég hygg að það sé nokkuð viðtekin venja að það sé ríkisstjórnarmál og lagt fyrir ríkisstj., kynnt ríkisstj. þegar ákveðið er að ráðast í slíkar stórframkvæmdir. Þannig var það t. d., veit ég, í tíð ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar þegar ákvörðun var tekin um að nýta lagaheimild um Hrauneyjafossvirkjun. Samþykkt var gerð þar að lútandi í ríkisstj., nánar tiltekið 30. des. 1976. En stjórnskipunarlega fer iðnrh. með þessi efni og hefur auðvitað sitt vald sem slíkur. Það er ekki verið að skerða það sem slíkt með þessu orðalagi, enda oft þannig til tekið í lögum, að ríkisstjórninni skuli heimilt þetta og hitt þótt valdið sé hjá viðkomandi ráðh.

Þá spurði sami hv. þm. um ástæðurnar fyrir því, að leitað væri heimilda til að ráðast í tilteknar framkvæmdir til að auka öryggi í orkuvinnslu, til að tryggja rekstur orkuveranna á Þjórsársvæðinu, eins og það er orðað í frv., og þar undir tilteknar ákveðnar aðgerðir, svo sem Kvíslaveita, stækkun Þórisvatnsmiðlunar og stífla við Sultartanga. Hann spurði hvort ekki hefði verið nóg að hafa þær heimildir, sem 6. gr. laga um Landsvirkjun kveður á um, og hvers vegna sé verið að leita þessara heimilda hér. Því er til að svara, að í 6. gr. laga um Landsvirkjun er veitt nokkuð almenn heimild til aðgerða á Þjórsár-Tungnaársvæðinu til að tryggja rekstur orkuveranna, sem heimildir höfðu verið veittar fyrir þar, og fylgdi heimildum sem veittar voru fyrir Hrauneyjafoss- og Sigölduvirkjun í allt að 170 mw. afl hvorri. Og þar eru tilteknar aðgerðir, svo sem varðandi Þórisvatnsmiðlun og varðandi það að veita megi Köldukvísl inn í Þórisvatn. Ég tel það ekki aðeins eðlilegt, heldur nauðsynlegt þegar stefnt er á framkvæmdir sem eru að orkuframleiðslu og kostnaði í gildi heillar virkjunar, að þá gerist það ekki á grundvelli einhverrar almennrar lagaheimildar sem tengst hefur öðrum virkjunum, heldur taki löggjafinn afstöðu til þess sérstaklega, eins og gert er hér með þessum hætti. Það, sem þarna er á ferðinni, getur auðvitað verið matsatriði og túlkunaratriði. En mitt viðhorf er það, að óeðlilegt sé að löggjafinn setji það skilyrði að sérstaka lagaheimild þurfi ef á að fara í stærri virkjun en tvö mw. að afli, — en sem kunnugt er þarf til þess sérstaka lagaheimild samkvæmt orkulögum, — en svo eigi að vera hægt að fara í 800 gwst. orkuframleiðslu eða aðgerðir, sem fela í sér 800 gwst. orkuframleiðslu á ári, út á einhverjar almennar og tiltölulega óljósar heimildir. Þetta er ástæðan fyrir því, að ríkisstj. telur eðlilegt að taka þessar aðgerðir með inn í þetta frv. og leitar heimilda fyrir þeim.

Þá var spurt um samninga varðandi Landsvirkjun og það sem um er rætt í frv. þar að lútandi. Hv. 4. þm. Vestf. kvaðst vera verulega hugsi yfir orðalagi frv. þar að lútandi og hefði talið eðlilegra að binda skipulag orkuframleiðslunnar í lög, skipulagsmálin í lög. Að mati ríkisstj. er það samningsatriði við Landsvirkjun að hún taki að sér að reisa og væntanlega einnig reka þessar stóru virkjanir utan núverandi orkuvinnslusvæðis. Við lítum svo á, að þrátt fyrir eignaraðild ríkisins að Landsvirkjun sé ekki eðlilegt að setja það einhliða í lög að hún skuli gera þetta, eins og sést hefur í lagafrv. sem lögð hafa verið fram í þessari hv. deild, og því reyni þarna á samninga. Þar kemur einnig til að ríkisvaldið hefur áhuga á því að fleira komi en bara þessi mál inn í þá samningagerð, það sé ekki bara að reisa og reka viðkomandi virkjanir, heldur þurfi jafnhliða að móta stefnu og semja um stefnumótun, um skipulag orkumálanna að öðru leyti í þessu samhengi. Þar hef ég sérstaklega í huga byggðalínurnar og rekstur þeirra, þær stofnlínur sem tengja nú þegar eða eiga að rísa til að tengja væntanleg stór orkuver.

Á þessi atriði mun reyna í væntanlegum samningum við Landsvirkjun. Verður lögð áhersla á að hraða þeirri samningagerð og láta á það reyna, hvort ekki sé hægt að ná þar viðunandi samningum. Ég vænti þess og tel mig hafa ástæðu til að halda að það megi takast. En takist það ekki verður að sjálfsögðu að leita annarra ráða. Þess vegna eru hér heimildir til þess að fela öðrum aðila að sjá um þessi efni. Og það er raunar ekkert nýmæli. Stjórnvöld hafa falið Rafmagnsveitum ríkisins framkvæmdaundirbúning virkjana og sett þær inn sem virkjanaaðila. Með það hlutverk fara þær nú og fara að óbreyttu við t. d. Blönduvirkjun og Fljótsdalsvirkjun á meðan ekki hefur um annað verið samið.

Spurt var um varaafl og hvers vegna væri verið að leita eftir almennri heimild um varaafl allt að 50 mw. Svar mitt er það, að samkvæmt orkulögum er gert ráð fyrir að heimildir fyrir aflstöðvum miðist við 2 mw. og ef þar sé farið yfir þurfi sérstakar lagaheimildir. Ég skal ekki fullyrða hvort þetta ákvæði hefur verið látið gilda í öllum tilvikum varðandi einstakar olíustöðvar, varaaflsstöðvar, ég vil ekki taka af um það hér og nú. En við teljum eðlilegt — þar sem reikna má með því að á reyni að reisa mun stærri varaaflsstöðvar, en athugun á nauðsyn varaafls í landskerfinu er í vinnslu, þá sé æskilegt og raunar nauðsynlegt að hafa heimild þar að lútandi. Það má einnig benda á að í sambandi við orkufrek iðjuver getur verið nauðsynlegt að reisa sérstakar varaaflsstöðvar til að tryggja rekstur þeirra. Á þetta ákvæði gæti m. a. reynt í því samhengi þó að auðvitað megi afla slíkra heimilda með sérstökum hætti síðar. En uppbygging varaafls í landinu er stórt mál sem þarf að hafa gott auga á. Fyrir því hefur ekki verið séð með fullnægjandi hætti til þessa og á því þarf að ráða bót. Þetta ákvæði í frv. vísar til þess og þeirrar áherslu sem á úrbætur er lögð í þessu skyni.

Þá spurði hv. 4. þm. Vestf. hvað fælist í því orðalagi 2. gr., eins og hún er eftir breytingar í hv. Nd., að till. um framkvæmdir við nýjar vatnsaflsvirkjanir og virkjunaráfanga skuli lagðar fyrir Alþingi til samþykktar. Hann innti sérstaklega eftir því, hvað væri átt við með virkjunaráfanga. Þarna heyrir til lýsingarorðið sem var komið á undan: „nýjar“ vatnsaflsvirkjanir og virkjunaráfangar í „nýjum“ vatnsaflsvirkjunum.

Það liggur fyrir í þeim verkfræðilegu álitsgerðum sem eru birtar sem fskj. með frv., að hagkvæmt og skynsamlegt getur talist að skipta í áfanga sumum þeirra virkjana sem hér er leitað heimilda fyrir. Þetta á t. d. við um stærstu virkjunina, Fljótsdalsvirkjun. Og niðurstöður verkfræðilegra athugana, eins og þær liggja nú fyrir, benda til að skynsamlegt og hagkvæmt geti talist að reisa 2/3 hluta þeirrar virkjunar með tveimur eða þremur aflvélum sem áfanga og 1/3 sem sérstakan áfanga sem gæti komið á síðara stigi. Orðalagið í frv. vísar til þess, að þá verði tekin sérstök afstaða til þess af Alþingi er um slíka áfangaskiptingu er að ræða. Það var ekki átt við aflvélar sem slíkar, sem koma í samfelldri röð mn í viðkomandi virkjun, heldur ef verið er að ráðgera að skipta virkjun einnig upp í framkvæmdatíma, sem vissulega getur komið til álita að gert verði. Ég vænti að þetta skýri málið.

Það komu fram í máli hv. 2. þm. Reykn. nokkur atriði, þó ekki beinar fsp. að mér virtist, en staðhæfingar ýmsar, m. a. að virkjunaraðilar viti ekki að hverju þeir eigi að ganga vegna tafa í þessum málum. Ég vil andmæla þessu. Ég tel að það verði fyrirsjáanlega engar tafir á undirbúningi virkjana nú á næstunni fremur en orðið hafa það hafa ekki orðið tafir á slíkum undirbúningi á undanförnum misserum — og efni þessa frv. bjóði ekki upp á neitt slíkt, bjóði ekki upp á neinar tafir í undirbúningi þessara mikilsverðu mála. Hv. þm. vék að þeirri staðhæfingu, sem heyrist mjög oft í umr. um þessi mál, að forsenda fyrir þeim virkjunum, sem hér eru í undirbúningi, sé orkusala til orkufreks iðnaðar, sé, eins og það er kallað, tryggur og öruggur markaður, og þá eiga menn við utan hins almenna markaðar. Þetta fer eftir því hvaða forsendur menn vilja leggja til grundvallar. Ég vil í þessu samhengi, eins og ég hef oft gert áður, benda á það, að öllum sérfróðum aðilum ber saman um að þessar stóru virkjanir upp á 100, 200, 300 mw. séu bestu virkjunarkostir landsmanna, alveg óháð því, hvort menn eru að virkja eingöngu fyrir almennan markað eða aukinn markað með orkufrekum iðnaði. Þó geta verið frá þessu undantekningar, að miðlungsstórar virkjanir komi hagkvæmnilega sem hliðstæðir kostir. Ein slík virkjun hefur einmitt verið tekin inn í þessar heimildir, ein vatnsaflsvirkjun, vegna þess að hún kemur út sem hagkvæmur virkjunarkostur miðað við sömu forsendur og lagðar eru til grundvallar í hagkvæmnimati á þessum stóru virkjunum. Þetta er Villinganesvirkjun. Það er eina skýringin á því, að eðlilegt þótti að taka hana inn í þessar heimildir hér, auk þess sem undirbúningi hennar er fyllilega jafnlangt á veg komið og annarra þeirra virkjana sem hér er leitað heimilda fyrir.

Hv. 11. landsk. þm. vék hér að nokkrum atriðum og vitnaði í grg. með frv. Ég hef þegar svarað vissum þáttum úr hans máli, en það, sem ég geri ráð fyrir að hann leggi mesta áherslu á að fram komi hér af minni hálfu, varðar undirbúning vatnsaflsvirkjana á þessu ári og tengist þeirri heimild til lántöku sem er að finna í 2. gr. frv. Hv. þm. vitnaði sérstaklega til þess sem greinir á bls. 6 í grg. með frv. Ég get verið mjög stuttorður um þetta atriði og svarað því afdráttarlaust þannig, að frá því að frv. var lagt fram hefur engin breyting orðið á áformum stjórnvalda varðandi frekari undirbúning Blönduvirkjunar og Fljótsdalsvirkjunar á þessu ári — ekki nokkur.

Hv. 11. landsk. þm. fór nokkrum orðum um einstaka virkjunarkosti og hagkvæmni útreikninga þar að lútandi og benti á það, sem alveg er réttmætt, að þar hafa komið fram á undanförnum vikum og mánuðum mismunandi upplýsingar. Ég er ekkert hissa á því, þó að ekki aðeins hv. alþm., heldur ekki síður fólk úti í héruðunum, sem fylgist með þessum málum, sé dálítið undrandi og ruglað í ríminu þegar það gerist með stuttu millibili að mismunandi kostnaðarútreikningar eru bornir fram af opinberum aðilum sem eru að vinna að þessum málum. Ég vakti athygli á því og óskaði raunar eftir því sérstaklega við Orkustofnun, þegar hún lagði þrjár þykkar skýrslur hér inn til hv. Alþingis, að hún gerði grein fyrir á hvaða upplýsingum þær væru reistar og frá hvaða tíma upplýsingarnar væru. Það er fram tekið í bréfi sem fylgdi, að þarna var um að ræða upplýsingar og samanburð frá því veturinn 1979–1980 og raunar aðeins verið að reiða fram í fyllra formi upplýsingar, sem kynntar voru alþjóð í maímánuði 1980, um samanburð virkjunarleiða og fleiri þætti. Síðan hefur hins vegar verið unnið að málum á grundvelli rannsókna og það liðu ekki nema nokkrir dagar, eða má kannske segja einhverjar vikur frá því að þessi kynning af hálfu Orkustofnunar fór hér fram með útsendingu á þessum skýrslum þar til þessar verkfræðilegu niðurstöður með nýrri upplýsingum komu fram. Og við skulum vænta að þær séu haldmeiri en hinar fyrri upplýsingar, því að til þess eru menn nú að fikra sig fram með undirbúning mála, verkfræðilegan undirbúning, byggðan á vettvangsrannsóknum.

Herra forseti. Ég taldi nauðsynlegt að svara hér þeim fsp. sem geta varðað efni og túlkun á þessu frv. og bornar hafa verið fram af hv. þm. við þessa umr. Ég vænti þess, að ég hafi ekki skilið margt eftir, þó að það kunni að vera eitthvað, en það er spurning hvar á að nema staðar í sambandi við slíkt. Hv. iðnn., sem fjalla mun um þetta mál, mun eflaust leita upplýsinga og skýringa á því sem henni finnst á vanta. Ég læt því þetta duga og ítreka aðeins von mína og óskir um að takast megi að ganga frá þessu þýðingarmikla máli á þeim skamma tíma, sem þingið hefur enn til umráða og hv. þd., og menn geti tekið sér hlé frá störfum í sæmilegri vissu þess að áfram verði hægt að halda undirbúningi og undirbúningsframkvæmdum á þessu mikilvæga sviði í krafti þeirrar heimildar sem hér er leitað eftir.