23.05.1981
Neðri deild: 109. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4980 í B-deild Alþingistíðinda. (5313)

313. mál, steinullarverksmiðja

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem fram kom í máli hv. 6. þm. Reykv., að það er vitaskuld ámælisvert, hversu seint þessi frv. koma hér fram, frv. sem varða jafnviðamikil mál og þessi frv. um hinar ýmsu verksmiðjur.

Ég kvaddi mér hér hljóðs til þess að gefa lítils háttar skýringu á málinu ef það gæti orðið til þess að það lægi ljósara fyrir. Það er eðlilega kvartað um að vantað hafi upplýsingar, vissar forsendur til þess að meta arðsemiútreikninga verksmiðjunnar. Viðurkenna má að þær forsendur, sem þarna eru lagðar til grundvallar, ern nokkuð gamlar í hettunni. Þær eru rúmlega ársgamlar, ef maður gengur út frá útflutningsverði framleiðslunnar sem punktinum sem arðsemin er reiknuð út frá. Hins vegar kemur það fram í skýrslu þeirrar nefndar, sem hafði þetta mál með höndum, að í jan. 1980 fóru Garðar Ingvarsson frá Seðlabanka Íslands, Hörður Jónsson frá Iðntæknistofnun og Svavar Jónatansson verkfræðingur og heimsóttu nokkra líklega steinullarkaupendur á meginlandi Evrópu og í Bretlandi, og nefndin segir eftir að hafa rætt við þessa menn: „en sölumöguleikar virtust þá góðir“.

Það kemur fram í samantekt sem ég hef undir höndum, að gert er ráð fyrir útflutningsverði sem er sambærilegt við gangverð sem þá var í Evrópu. Þó að markaður hafi dregist að nokkru saman vegna efnahagsástands á því svæði hefur verðið ekki breyst. Og allir þeir, sem um þessi mál fjalla þar, seljendur og framleiðendur, spá því, að þetta sé tímabundið ástand sem hljóti að breytast að nýju.

Þó svo að verksmiðja eins og sú, sem hér er ráðgerð, flytji út kannske allt upp í 14 þús. tonn af gosull er það ekki nema 0.5% af þörfinni fyrir þessa vörutegund í Vestur-Evrópu. Við sjáum því að það orkar ekki stórlega á framboðið.

Jarðefnaiðnaður hf. á Suðurlandi hefur verið með þetta mál í athugun nú um nokkurra ára skeið. Þegar fór að draga nær lokum þeirra athugana, sem gerðar voru, sneri félagið sér til iðnrn. vegna þess að hentugt þótti að hafa við það samvinnu um ýmis tæknileg atriði. Einnig var farið fram á að felld yrðu niður gjöld af vélum og tækjum ýmiss konar til verksmiðjunnar eins og dæmi eru til um annan samkeppnisiðnað á Íslandi.

Hins vegar fór Jarðefnaiðnaður hf. aldrei fram á það, að ríkið yrði þátttakandi í þessari verksmiðju, því það hefur verið höfuðmark félagsins að gera allt sem það gæti til þess að ekki þyrfti að fjármagna verksmiðjuna af ríkinu. Enn er starfað þannig að málinu á Suðurlandi að það geti heppnast. Um það er erfitt að segja, það er mikil fjárfesting sem þarna er um að ræða. Það mun verða gert allt sem hægt er til þess, en ef það brestur að því marki verði náð sem stefnt er að í þessu efni, þá er að sjálfsögðu mikið í það varið að eiga þá fyrirvara sem í lögunum felast. En ég tel að mjög sæmilega sé girt fyrir að mögulegt sé að nota þá nema að vissu marki.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, sennilega að tillögu þeirrar nefndar sem hafði þetta til könnunar, að hlutafé félagsins verði minnst 30% af stofnkostnaði verksmiðjunnar. Ég hygg að það sé alveg óvenjulega hátt miðað við það sem gerist um önnur hlutafélög. Við því er ekkert að segja. En það er erfitt að ná þessu marki og þess vegna getur það orðið til þess að félagið verði fremur að leita til opinbers aðila eins og ríkisins um það að hlaupa þarna undir bagga. Ég hygg að algengara sé að þetta mark sé ekki hærra en 25% og þyki algerlega nóg. En því er ekki að neita, að náist það gerir það reksturinn léttari.

Ég ætla ekki að tala lengra mál um þetta. Ég vil aðeins geta þess, að miðað við þær forsendur, sem reiknað er með og útreikningar um arðsemina gera ráð fyrir, er sýnt að verksmiðja, sem byggir á útflutningi, er komin með jákvæða sjóðsstöðu á fjórða rekstrarári sínu. Hygg ég að það þyki ekki slæm niðurstaða um jafnviðamikið fyrirtæki og þetta verður.