23.05.1981
Neðri deild: 109. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4981 í B-deild Alþingistíðinda. (5314)

313. mál, steinullarverksmiðja

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það væri vissulega ástæða til að ræða gaumgæfilega um þessa verksmiðju. Og það hefði kannske ekki síður verið ástæða til að þær tvær aðrar verksmiðjur, sem hv. Alþingi hefur fengið til meðferðar, að sjálfsögðu í sömu vikunni, fengju nokkru betri og nánari meðferð hér í hv. deild. Þessi frv. eru öll lögð fram í Ed. Síðan er þeim kastað hér inn rétt fyrir þinglausnir, þremur stórum verksmiðjum, og ætlast til þess að þm. hafi kynnt sér vendilega allar þær bókmenntir sem að baki þessum frv. standa. Ég vil leyfa mér að fullyrða að það séu nokkur kg — nú telur maður ekki blaðsíður, ekki á þessum síðustu og verstu tímum — sem hv. þm. hefðu þurft að pæla í gegnum til þess að geta gert sér þokkalega grein fyrir öllum þeim atriðum sem verulegu máli skipta.

Í gær var verið að afgreiða hér út úr deildinni frv. um sjóefnavinnslu. Nál. vegna þeirrar verksmiðju var aðallega um það, að n. hefði þurft að fá lengri tíma, það hefði þurft að kanna betur hagkvæmni verksmiðjunnar og önnur smáatriði. Nál. var allt á þá lund, að það væri ekkert vit í að fara að smíða slíka verksmiðju, því miður. (Gripið fram í.) Ja, það er hérna á borðinu mínu. Ég hef kannske fengið sérbökun á þessu. En það eru sem betur fer vissir fyrirvarar í þessum efnum. Og þó að menn vakni hér upp við þessa hluti núna eins og þeir hafi ekki þekkt þá áður — og eru allir skælbrosandi yfir, þá er það síður en svo nokkurt gamanmál hvernig staðið er yfirleitt að afgreiðslu margra stórra mála undir lok þessa þings og reyndar fleiri þinga margra sem ég hef verið á. Ekki man ég þó eftir að við höfum áður þurft að afgreiða tvö raforkuver og tvær verksmiðjur á dag. En afköstin vaxa með bættri tækni að sjálfsögðu.

Það verksmiðjumál, sem hér er á ferðinni, er kannske ekki eins alvarlegt og ella vegna þess að lítið er ákveðið í þessu frv. eins og fleirum, og má þó einkennilegt heita í því eina tilfelli þar sem komið hefur til greina að eygja mætti skugga af möguleika til þess að eitthvert fyrirtæki yrði sett á laggirnar í Suðurlandskjördæmi, því kjördæmi sem hefur lægstar meðaltekjur allra kjördæma í landinu, því kjördæmi þar sem framleitt er meira en 90% af allri raforku landsins, en engin raforka er til afnota á stórum svæðum kjördæmisins þrátt fyrir það og enginn iðnaður hefur verið byggður upp kringum þau stóru raforkuver sem þar eru. Raforkan er flutt milliliðalaust beint vestur yfir heiði til Reykjavíkur. Við fáum lítið að nota hana. (Gripið fram í.) Já, til Vestmannaeyja, sagði hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson. Það er gott að hann veit að við höfum rafmagn. En ég verð að segja það, að ekki hefur það nú gengið andskotalaust að eiga við ríkiskerfið varðandi orkumál Vestmannaeyja. Það eru ekki nema örfá ár síðan við fengum þennan rafstreng út til Vestmannaeyja eftir langan og mikinn barning, og þurfti að afgreiða það með félagslegum hætti, eins og það er kallað. Það þótti lítið vit í því að vera að tryggja Vestmannaeyjum, einni stærstu verstöð landsins, raforku, enda höfum við þurft að koma okkur upp rafafli í Vestmannaeyjum sem nemur u. þ. b. 4 mw. í dísilkeyrslutækjum. Það er svo sem ekki hægt að hrópa mörgum sinnum húrra fyrir afrekum þeirra iðnrh. sem þá voru við völd.

Við vorum víst að tala um steinullarverksmiðju, herra forseti. En það er kannske ekki alltaf út í hött að taka dálítið hliðarskref og ræða annað samtímis því okkur liggur ekkert á. Ég var að benda á að um leið og vottar fyrir minnsta möguleika — ég nefndi það skugga af möguleika, það þyrfti ekki meira — á því, að Sunnlendingar fengju einhvern iðnað í sitt kjördæmi, þá eru málin afgreidd með þeim alveg sérstaka hætti sem hæstv. iðnrh. hefur haft forgöngu um í þessu máli. Um leið og nefnt er Suðurland þarf að koma því þannig fyrir í þessu frv., að efnt er til samkeppni um hlutafjáröflun. Þetta er eins konar hlutafjárkapphlaup. Þetta hefur ekki komið fyrir hér áður, en það út af fyrir sig skiptir ekki svo miklu máli. Ég hefði kosið það í þessu máli, eins og mörgum öðrum, að einhver ákvörðun hefði verið tekin, tekin hefði verið ákvörðun um þessa verksmiðju, hvar hún ætti að vera og hversu stór hún ætti að vera og á hvaða forsendum það væri byggt, en ekki hafa þetta allt svífandi í lausu lofti. Þetta gildir einnig um fleiri mál hér í hv. Alþingi. Stjórnmálamenn verða að gera svo vel að þora að taka á sig þá áhættu að ákveða hlutina og taka ábyrgð á þeim ákvörðunum.

Sannleikurinn er sá, að það hefur verið unnið ákaflega einkennilega að þessu. Fyrir rúmu ári var skipuð sérstök nefnd til þess að fjalla um hvar þessi verksmiðja skyldi rísa. Deilt er um það, hvort hún eigi að vera á Sauðárkróki eða á Suðurlandi, í Þorlákshöfn, og það var settur á fót starfshópur eða nefnd eða hvað það heitir núna. Stór hópur vísindamanna var fenginn til þess að rannsaka hvort hagkvæmara væri að hafa verksmiðjuna nyrðra eða syðra. Framkvæmdastofnunin var einnig með fingurna í þessu eða formaður byggðadeildar þar. Þessir herramenn áttu að sanna það m. a., að það væri styttra frá Sauðárkróki til Reykjavíkur heldur en frá Þorlákshöfn. Og þeir eru núna alveg að komast að þeirri niðurstöðu að svo sé. (Gripið fram í: Hvað munar það miklu?) Og þegar verið er að reikna hagkvæmnina, þá er m. a. ekki tekið neitt tillit til þess, að það kunni að kosta eitthvað að flytja þessi 5–6 mw. norður í land. Þeir taka ekkert tillit til þess, að það kosti eitthvað að lagera þarna sand og skeljasand upp á tugi þúsunda tonna. Vaxtakostnaður er ekki til í þessum dæmum, a. m. k. ekkert í líkingu við þá vexti sem við búum við. Öllum þeim þáttum, sem koma til álita við matið á þessum verksmiðjum, er hagrætt þannig að sem best komi út fyrir verksmiðjuna á Sauðárkróki, jafnvel þó að hún sé þrisvar sinnum minni en hin, en stofnkostnaðurinn samt 7 einingar á móti 10 í stóru verksmiðjunni. Ég vek athygli á þessu ef menn hafa ekki kannað þetta. Fjárfesting á tonn er margfalt meiri í verksmiðjunni nyrðra heldur en syðra. Um þetta er ekkert talað hérna. Það hefur auðvitað ekki verið ákveðið neitt um það, hvar þetta eigi að vera, og það er auðvitað algerlega þýðingarlaust að vera að tína til yfirleitt neinar röksemdir. Mér sýnist menn stefna á ákveðið mark og sjá aðeins fram fyrir sig, þeir á Norðurlandi vestra ásamt hæstv. iðnrh., en ég er hræddur um að það eigi eftir að heyrast allmyndarlegt hljóð úr horni áður en endanlega verður gengið frá þessu máli.