23.05.1981
Neðri deild: 109. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4987 í B-deild Alþingistíðinda. (5326)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Mér er fullljóst að vitanlega kemur þetta mál ekki héðan af fyrir þetta þing. Ég vildi hins vegar aðeins víkja að þessum vinnubrögðum hæstv. dómsmrh. sem ég virði á ýmsan hátt, en er algjörlega ósammála í vinnubrögðum þarna. Ég vísa algjörlega frá því tali hæstv. dómsmrh., hvernig lög eigi að vera, og frábið mér algjörlega alla kennslu í þeim efnum frá honum. Það, sem greinir á, er að annars vegar er kansellíið, embættismennirnir, og hins vegar almennt verkafólk. Vitanlega sigrar kansellíið. Það er regla. Og dómsmrh. skal ekki vera hér með einhverja lagakróka og reglugerðir. Það er efni frv. sem hefur ákveðið gildi. Dómsmrh. gat á öllum stigum þessa máls komið með leiðréttingar og efnislegar breytingar, og till., sem komu frá dómsmrn., voru efnislega felldar hér inn í. Það er ekki „júridískur“ ágreiningur, eins og kansellíið orðar það, eða búningur, sem ágreiningur er um.

Ég skal svo ekki lengja þessar umr. eða troða illsakir við hæstv. dómsmrh. Mér finnst þetta bara slæm vinnubrögð.