23.05.1981
Neðri deild: 109. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4989 í B-deild Alþingistíðinda. (5331)

314. mál, stálbræðsla

Forseti (Sverrir Hermannsson):

Ég hlýt að gera aths. við það, að hver hv. þm. á fætur öðrum setur á tölu þar sem hann gagnrýnir harðlega almennt vinnubrögð hins háa Alþingis. Menn ættu ekki að taka hluta fyrir heild í öllu. Það er að vísu rétt, ég játa það og get vel látið það koma fram, að ýmis mikilsverð mál hafa komið allt of seint fram, og má þar nefna mál þetta sem nú er til umr. En það er óþarft að sveigja svo hastarlega á bakborða með fjölmiðlum, eins og þeir haga sér í gagnrýni á störfum þessa hv. Alþingis, að taka undir í öllu það sem þar fer fram. Má ég minna á það, að við vorum rétt í þessu að afgreiða mál sem var 2. mál á hinu háa Alþingi og hefur legið fyrir því síðan 10. okt. Skyldu hv. þm. ekki hafa haft tækifæri til þess að rannsaka og athuga það mál? Ég nota þau orð yfir mál, að athuga þau og rannsaka, en ekki eins og hér er gert og hver hv. þm. á fætur öðrum segir: að skoða mál. Menn skoða landslag og hús, en þeir skoða ekki mál nema þá að líta á plöggin. En þetta vil ég að komi sérstaklega fram, vegna þess að langmestur fjöldi þeirra mála, sem hér hafa verið til afgreiðslu á síðustu dögum þingsins, hefur fengið mjög rækilega meðferð á hinu háa Alþingi í báðum deildum og við slímusetur á þingnefndarfundum.