25.05.1981
Efri deild: 124. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 5007 í B-deild Alþingistíðinda. (5359)

320. mál, raforkuver

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við þetta frv, til l. um raforkuver. Till. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Á eftir 5. gr. komi ný gr. sem verði 6. gr. og orðist svo: Samkv. ákvæðum 5. gr. skal ráðh. beita eignarnámsheimild vegna fyrirhugaðrar Blönduvirkjunar takist ekki samkomulag við landeigendur fyrir 1. ágúst 1981.“

Ég þarf ekki, herra forseti, að hafa um þetta mörg orð. Það er alkunna, að deila hefur verið uppi og er uppi um land það sem fara mun undir vatn þegar miðlunarlón koma upp á heiðum í sambandi við væntanlega Blönduvirkjun. Það er alkunna, að hagsmunir bænda rekast þarna á við virkjunarhagsmunina. Hagsmunir fáeinna sauðfjárbænda rekast á við hagsmuni verulegs hluta þjóðarinnar. Það gefur auðvitað auga leið, að þegar svo háttar til að fáeinum mönnum tekst, — með því að að nafninu til eru þeir taldir eiga landssvæði sem í rauninni og eðlis síns vegna ætti að vera almannaeign þó að bændur nýti það og hafi nýtt það, — þegar fáeinum mönnum tekst með þessum hætti að koma í veg fyrir að þjóðþrifa- og þarfamál nái fram að ganga, þá hlýtur auðvitað sú staðreynd að vekja margvíslegar spurningar um eðli þess eignarréttar sem þarna er um að tefla. Þarna er um afrétt að ræða sem eingöngu er nýttur í þessu skyni. Ég minni á það í þessu sambandi, að Alþfl. hefur margsinnis flutt hér frumvörp til laga um eignarráð yfir landinu, gögnum þess og gæðum. Þegar svo háttar til eins og þarna gerist, að fáeinir menn koma í veg fyrir að þjóðþrifamál nái fram að ganga, hlýtur það að kalla á endurskoðun á þeim ákvæðum sem gilda um eignarrétt á landi eins og þessu. Það hlýtur að teljast eðlilegt, að land eins og hér um ræðir sé eign allrar þjóðarinnar, fáeinir sérhagsmunamenn geti ekki stöðvað framgang mála eins og Blönduvirkjunar með þvergirðingshætti og þeirri staðreynd að þetta land er notað sem beitarland fyrir fáeinar sauðkindur. Þess vegna held ég að um það geti varla verið ágreiningur, að ef einhvern tíma eigi að beita eignarnámsheimildum sé það einmitt í tilvikum eins og þessu.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þessa till., en legg til að hún verði samþykkt.