25.05.1981
Efri deild: 124. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 5009 í B-deild Alþingistíðinda. (5368)

Starfslok efri deildar

Forseti (Helgi Seljan):

Þar sem þetta mun verða síðasti fundur í þessari hv. deild á þessu 103. löggjafarþingi vil ég nota þetta tækifæri til þess að færa hv. þdm. einlægar þakkir fyrir hið ágætasta samstarf í öllum greinum og mikið umburðarlyndi í minn garð sem forseta. Ég færi skrifurum deildarinnar bestu þakkir fyrir vel unnin störf og samviskusemi þeirra í þeim störfum. Sömuleiðis þakka ég varaforsetum deildarinnar þeirra ágæta liðsinni og alla lipurð í minn garð. Skrifstofustjóra Alþingis og öllu starfsfólki þessarar stofnunar færi ég hlýjar kveðjur fyrir þeirra góðu störf í þágu okkar hv. þdm. og Alþingis um leið. Velfarnaðar og góðs gengis óska ég ykkur öllum á sumrinu og færi fram þá ósk að öll megum við hittast heil að hausti.