25.05.1981
Neðri deild: 110. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 5011 í B-deild Alþingistíðinda. (5379)

Umræður utan dagskrár

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að vekja athygli hv. Alþingis og ríkisstj. á hinu mikla kali sem komið er í ljós að er á túnum sunnanlands á þessu vori. Vafalaust á eftir að koma í ljós að kal er víðar um land.

S. l. vetur var, eins og okkur öllum er kunnugt, óvenjulega erfiður hér sunnanlands. Hitafar var lægra en í meðalári og með því allægsta á öldinni. Hinn lági hiti dreifðist jafnt á tímabilið frá október til mars. Þetta sama tímabil setti niður óvenjumikinn snjó. Um áramótin blotaði nokkuð og allmikla hláku gerði um 20. jan. Við þessa blota varð snjóalagið að miklu og þykku svelli sem lá yfir allri jörð, hvort sem var á sléttlendi eða í bratta. En þykkt svellalagsins var þó breytilegt eftir aðstæðum. Svell huldu svo yfirborð túna fram í marslok en tók þá að mestu upp á 2–3 vikum. Frá því í síðari hluta mars hefur tíð verið hagstæð nema hvað nokkurn afturkipp gerði um sumarmálin.

Að fenginni reynslu mátti heita fullljóst um mánaðamótin mars–apríl að líkur á því, að svellkal hefði orðið, væru verulegar þar sem svellin voru þykkust og lágu lengst. Það er um alla Árnessýslu og mestan hluta Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Fyrstu varnaðarorðin voru flutt í sjónvarpi hinn 12. apríl s. l. ásamt með ábendingum um úrræði til öflunar viðbótarfóðurforða á komandi sumri. Auk þeirra staðreynda, sem þá lágu fyrir um hitafar vetrarins og hin miklu svellalög, bentu athuganir á grassverði, sem tekinn var til ræktunar undan mismunandi þykkum og mismunandi langvarandi svellum, ótvírætt til þess að svellkal hefði orðið enda þótt ekki yrði sagt um það með neinni vissu hver útbreiðsla þess væri.

Eins og fyrr segir hefur tíðin verið afar hagstæð frá því að brá til hins betra í síðari hluta marsmánaðar, og eftir óvenjuhlýjan og sólríkan apríl birti sjónvarpið svo frétt 2. maí, byggða á viðtali við búnaðarmálstjóra, þar sem fullyrt var að ótti manna við svellkal á Suðurlandi hefði reynst með öllu ástæðulaus. Hin hagstæða tíð ásamt eðlislægri bjartsýni manna varð til þess að ótrúlega margir gerðu þessa skoðun að sinni og voru andvaralausir um kalið þrátt fyrir áðurnefndar óhagganlegar staðreyndir. Hefur svo verið allt fram til 20. maí, en um það leyti urðu skilin milli þess, sem er kalið og ókalið, ótvíræð.

Eins og komið hefur fram í fréttum fór formaður Búnaðarsambands Suðurlands ásamt nokkrum ráðunautum í yfirlitsflug um svæðið hinn 23. maí s. l. Flugu þeir yfir flestar sveitir í Árnes- og Rangárvallasýslum og blasti þá við ömurlegri sjón en nokkur þeirra hafði gert ráð fyrir. Eftirtektarvert var hve öll tún taka seint við sér í hinni hagstæðu vortíð enda þótt þau virðist ekki dauðkalin. Hitt var þó að sjálfsögðu meira sláandi, að á flestum eða nær öllum bæjum voru áberandi kalskemmdir í túnum, og er algengt að engin spilda hafi sloppið við kal með öllu. Á þeim bæjum, sem verst hafa orðið úti, má fyllilega jafna ástandinu við það sem verst var 1969 — og raunar enn verra enda þótt nú séu orsakir að nokkru annars konar. Hafa menn áætlað að í verstu tilfellum sé frá 50 og allt upp í 80% af yfirborði túnanna dauðkalið. Ef tíðarfar í sumar verður í meðallagi hagstætt má áætla að heyfengur af túnum á umræddu svæði geti orðið 50–60% af meðalheyfeng. Það er því fullljóst að ástandið er alvarlegt, fyllilega sambærilegt við það sem var 1951 og 1969, og krefst skjótra og markvissra aðgerða.

Það úrræði, sem helst virðist koma til greina til að tryggja næga fóðuröflun í sumar, er ræktun grænfóðurs til votheysverkunar. Einkum er þá um að ræða hafra og bygg, þótt fleira komi til greina. Samkv. upplýsingum frá þrem stærstu sáðvöruinnflytjendum 22. maí er fræframboð þeirra ekki miðað við umtalsverða aukningu á grænfóðurræktun, enda hafa pantanir bænda ekki gefið tilefni til þess, og enda þótt um þetta væri rætt um mánaðamótin mars—apríl varð bjartsýnin síðar til að víkja þeim þönkum frá. Þá eru þeir hvekktir, fræinnflytjendur, vegna þess samdráttar í fræsölu sem varð á s. l. ári vegna þeirra framleiðslutakmarkana sem þá var unnið að. Hins vegar munu vera fyrir hendi möguleikar á útvegun á sáðhöfrum og sáðbyggi, en vegna þess, hve langan tíma slíkt tekur, þyrftu beiðnir um það að berast tafarlaust eigi það að koma að gagni á þessu sumri.

Benda má á að skerðingarákvæði jarðræktarlaga vegna grænfóðurs þyrfti að afnema í bili vegna þessa ástands. Spyrja má og hvort Bjargráðasjóður gæti komið þarna til sögunnar. Ljóst er að endurræktun allra þeirra túnspildna, sem skemmst hafa af kall á Suðurlandi í vetur, er ekkert áhlaupaverk. Væri mikið átak unnið ef takast mundi að bæta það tjón, sem orðið hefur nú, á 5 ára tímabili. Það er því fullljóst, að bændur verða nú í sumar og næsta sumar að sætta sig við að nota mismunandi skemmd tún til slægna og beitar.

Sem betur fer eru sums staðar heyfyrningar frá síðasta sumri sem munu bjarga nokkuð næsta vetur. En ofan á kvótakerfi, fóðurbætisskatt og stórhækkun á áburðarverði hafa nú máttarvöldin komið til liðs að stórdraga úr framleiðslunni. Verður ekki séð á þessari stundu hvernig þeir, sem verst verða úti, komast yfir þá erfiðleika.

Ég vil nota tækifærið og víkja að öðru skyldu máli í leiðinni. Nefnd, sem kannað hefur ástandið vegna Heklugossins, hefur skilað tillögum til landbrh. Í tillögum hennar er farið fram á fjárframlag til áburðardreifingar og girðinga.

Herra forseti. Ég leyfi mér að vænta svars hæstv. landbrh. varðandi þessi mál, hvað ríkisstj. hyggst gera til lausnar þeim. Mér er þó að sjálfsögðu ljóst að tæmandi svars er ekki að vænta með svo litlum fyrirvara.