25.05.1981
Neðri deild: 110. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 5012 í B-deild Alþingistíðinda. (5380)

Umræður utan dagskrár

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Mér var það ekki kunnugt, að þessi mál bæri hér á góma á þessum síðasta degi þingsins. Eigi að síður getur verið gagnlegt að vekja á þeim athygli ef viðbrögð eru höfð við málinu með eðlilegum hætti og þannig að það komi verulega til bjargar. Ég hef ekki í höndunum neina ákveðna skýrslu eða opinbera skýrslu um það, hversu mikið kal er um að ræða á því svæði sem hér hefur verið gert að umræðuefni, en ég veit að það er víða vont og að það veldur alvarlegum erfiðleikum þar sem það er mest.

Ég tók, held ég, rétt eftir því, að hv. 6. þm. Suðurl. sagði áðan að það hefði verið séð um mánaðamótin mars–apríl að hér yrði um verulegt kal að ræða á Suðurlandi. Ég hygg að það sé rétt, að menn óttuðust að svo væri. Og þá var jafnvel haft við orð, að það væri ástæða til, og bændasamtökin gáfu út um það yfirlýsingu, að þeim þætti eðlilegt að bændur hölluðu sér sem mest að aðfengnu fóðri, kögglum og kjarnfóðri, til þess að treina úr heyjunum sem til voru frá síðasta ári svo að þau kæmu til nota á næsta ári ef kal yrði jafnmikið og útlit væri fyrir. Þessu kalli frá bændasamtökunum hefur ekki verið hlýtt svo sem eðlilegt hefði verið, og ég vil gagnrýna það að svo hefur ekki verið gert.

Einmitt í dag eru lagðar á borð hjá okkur alþm. upplýsingar um það, hversu mikill kjarnfóðurskattur hefur verið innheimtur af bændum og búaliði í mánuðunum júní til apríl. Þessar tölur virðast mér vera rúmar 9 millj. nýkr. Það er ekki lítill skattur. Og ef menn hefðu verið þeirrar skoðunar í alvöru, að taka bæri aðvaranir bændasamtakanna til greina að þessu leyti, að þeir hefðu betra tækifæri til þess að afla sér kjarnfóðurs en áður hafði verið, þá átti að létta þeim skatti af sem verið var að innheimta. Það munar hvorki meira né minna en upp undir einni millj. nýkr. hefði kjarnfóðurgjaldinu verið aflétt bara í aprílmánuði s. l. Vitaskuld vænta menn þess, að stjórnvöld bregðist við með þeim hætti að að gagni megi koma þegar það er komið í ljós hversu alvarlegt þetta kal er. En það er dálítið erfitt að ræða um það meðan það liggur ekki fyrir. Enn þá vona menn að sárin séu ekki eins stór og útlit er fyrir á þessum tíma. Ég vænti þess, að það verði brugðist við því með þeim hætti sem best kemur að haldi, því að það er að sjálfsögðu mjög erfitt að fara í stórar nýræktir á þeim tíma þegar grænfóðurræktin er skert samkv. lagaheimild. Það er einnig erfitt að fara í það í stórum stíl þegar áburður hefur hækkað jafngeysilega í verði og nú hefur orðið. Og það er enn þá erfiðara við það að fást þegar tekjur manna hafa verið skertar eins og orðið hefur, bæði með því að setja á kjarnfóðurgjaldið og með þeirri takmörkun á framleiðslu sem verið hefur nú um skeið.