13.11.1980
Sameinað þing: 19. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (540)

51. mál, bygging útvarpshúss

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að fagna því, að þessi till. kom fram. Í grg. tekur flm. það fram, að hann vilji með þessu styðja viðleitni mína til þess að reyna að þoka fram því málefni að byggja yfir Ríkisútvarpið. Það, sem í grg. stendur, er að mínum dómi mjög glöggt, stutt yfirlit um staðreyndir þessa máls. Einnig vil ég leyfa mér að þakka síðasta ræðumanni, hv. 6. þm. Norðurl. e., fyrir þau orð sem féllu hjá honum í þessu máli.

Það er mikið fagnaðarefni, að Alþingi tekur málefni Ríkisútvarpsins til meðferðar. Því miður er það nú svo, að ýmis mál liggja fullmikið í láginni, eru of lítið rædd hér á hv. Alþingi. Þau verða eins og út undan í annarri mikilvægri umr. Og því er ekki að leyna, að málefni Ríkisútvarpsins eru nú með þeim hætti, að brýn nauðsyn er að hv. alþm. og ég vil segja þjóðin öll fylgist vel með málefnum stofnunarinnar.

Satt að segja leist mér ekki á blikuna þegar ég kom í febrúarmánuði að sem yfirmaður þessarar stofnunar og mér var gerð grein fyrir hvernig hagur stofnunarinnar var á ýmsa vegu, þ. á m. það sem hver maður mátti reyndar vita og ég vissi reyndar, að það voru mjög alvarleg höft á byggingarmálum stofnunarinnar, — höft sem mörgum munu þykja óeðlileg og eru það að mínum dómi. Eigi að síður eru þessi höft fyrir hendi og ekki þægilegt úr að skera hvað rétt er að gera í því. Ég skal fúslega viðurkenna það, að ég hef viljað reyna að beita mér þannig í þessu máli að höftin á útvarpshúsinu, byggingu þess, yrðu leyst með samkomulagi milli þeirra aðila sem hafa deilt um hvernig framgangur þessa máls skyldi vera. En vel má vera að það sé ekki rétta leiðin að bíða eftir því, að slík lausn fáist. Ég hef þó heldur kosið að fara þá leið en að beita einhverri sérstakri hörku, sem e.t.v. væri möguleiki fyrir menntmrh. að gera, hafi hann tiltekinn skilning á því, hvaða rétt sjóðurinn hefur, — sjóður sem menntmrn. hefur yfirráð yfir. En ég skal viðurkenna það, að ég hef fram að þessu og mun að sinni velja þá leið að reyna að leysa þetta mál með samkomulagi við fjmrn. og samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir, sem er ráðgjafi fjmrn. í þessum efnum.

Það er rétt, sem fram kemur hér og mér þykir ánægjulegt að sjá í grg. hjá hv. flm., að hann hefur þar eftir mér ummæli sem komu fram í viðtali við Ríkisútvarpið í sumar og ég tel vera mjög mikilvægt að menn átti sig á, og ég fann að hv. 6. þm. Norðurl. e. kunni góð skil á, að þessi bygging hefur fyrst og fremst stöðvast fyrir áhrif frá samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir sem hefur ekki treyst sér til þess að leggja til við fjmrh. og Alþ., að framkvæmdir haldi áfram í þessu máli. Þetta voru þau orð sem ég notaði í viðtali við útvarpið í sumar, og þau koma rétt til skila í grg. fyrir þessari þáltill. Mér þykir vænt um að hv. flm. hefur veitt þeim athygli, og ég er einnig glaður að verða þess var, að hv. 6. þm. Norðurl. e. hefur líka áttað sig á að þetta er þungamiðjan í þessu máli.

Sannleikurinn er sá, að það er búið að stöðva þessa framkvæmd þrátt fyrir yfirlýstan vilja a.m.k. tveggja ef ekki þriggja menntmrh., og er það út af fyrir sig umhugsunarefni, hver staða ráðh. getur stundum verið gagnvart ýmsum nefndum og ráðum hér í ríkiskerfinu.

Ég vil lýsa því hér yfir, sem ég hef áður margsinnis gert, að ég tel að ekkert þurfi um það að efast, að Framkvæmdasjóði Ríkisútvarpsins er ætlað það hlutverk, ég vil segja honum er eingöngu ætlað það hlutverk að koma varanlegu húsi yfir starfsemi Ríkisútvarpsins. Ég tek ekki undir þá skoðun, sem einnig hefur komið fram og er m.a. ástæðan til þess, að samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir hefur hikað við að ráðleggja fjmrh. og Alþingi að veita heimildir til áframhaldandi framkvæmda. Ég vil taka það skýrt fram, að ég tel að efnum sjóðsins eigi ekki að verja til þess að kosta aðrar framkvæmdir en húsbygginguna og það sem henni fylgir sérstaklega. Ég tel að hann sé ekki að þessu leyti almennur fjárfestingarsjóður Ríkisútvarpsins, heldur er hann húsbyggingarsjóður. Þetta er ákaflega mikilvægt atriði og úr því verður að fást skorið, hvor skoðunin er rétt. Ef Alþ. samþykkir þá þáltill. sem hér er flutt, þá tel ég að Alþ.

hafi lýst vilja sínum til þess að hafist verði handa að nýju við framkvæmdir á byggingu útvarpshússins í Reykjavík, eftir þeim skilningi sem ég hef hér verið að lýsa um hlutverk Framkvæmdasjóðs Ríkisútvarpsins.

Ég vil líka leiða athygli hv. alþm. að orðum þeirra hv. flm. þessarar þáltill. og hv. 6. þm. Norðurl. e. hér áðan um aðstöðu starfsmanna Ríkisútvarpsins. Það er mjög nauðsynlegt að menn leiði hugann að því, hver starfsaðstaða þeirra er. Það voru tekin hér dæmi, m.a. frá fréttastofu. Hv. 6. þm. Norðurl. e. þekkir þá starfsaðstöðu vel af eigin raun, því að hann vann lengi á fréttastofunni, og hv. flm. þessa máls er útvarpsráðsmaður og þekkir því af eigin reynd einnig hvernig starfsaðstaða starfsfólksins er í stofnuninni. Ég held að það sé mjög hollt fyrir hv. alþm. að gefa gaum þessum orðum þeirra.

Það er náttúrlega ekki glæsileg mynd af starfsaðstöðu þar sem fréttastofan hefur 12 skrifborð í 80 m2 herbergi. Þarna er þó um að ræða býsna vandasama vinnu sem innt er af hendi, — vinnu sem þarf stundum meira og minna að vinna í trúnaði. Jafnframt þarf auðvitað að hata góða vinnuaðstöðu fyrir menn sem eru að semja vandasaman texta sem á að flytja í hljóðvarp eða sjónvarp og fólk á að njóta. Það er ekkert smámál hvernig búið er að starfsmönnum sem vinna slík störf. Þetta er aðeins eitt dæmið um það, hversu illa er að þessari stofnun búið.

Það hefur líka verið rifjað upp hér og minnt á það, að Ríkisútvarpið er með elstu menningarstofnunum starfandi með þjóðinni. Ríkisútvarpið er að verða 50 ára gamalt. Það hóf starfsemi sína 20. eða 21. des. 1930 við lítil efni, en þó nokkurn stórhug á þeirri tíð. Þessi stofnun er nú að verða 50 ára. Og ég held að það sé alveg ljóst, að það eru fáar stofnanir í þessu landi, fáar opinberar stofnanir, sem eru í jafnnánum tengslum við almenning í landinu og Ríkisútvarpið, og hefur svo verið alla tíð. Þess er einnig ánægjulegt að minnast, að yfirleitt hefur Ríkisútvarpið notið mjög góðrar forustu. Til starfs við Ríkisútvarpið hafa frá fyrstu tíð, valist mjög góðir menn, menn sem þjóðin hefur bæði metið og hlustað á, haft ánægju af að hlusta á og eiga þannig andleg tengsl við, ef svo má segja, enda hefur Ríkisútvarpinu tekist þetta vel. Það er því sannarlega kominn tími til þess, að Alþ. og ráðamenn þjóðarinnar sýni þessari stofnun það í verki, að hún sé einhvers metin af þjóðinni. Og ég þori að fullyrða það, að þó að vel sé við Ríkisútvarpið gert, bæði í byggingum og öðru, þá mun það ekki hafa það í för með sér að almenningur líti á það sem bruðl eða sukk, heldur þvert á móti er ég sannfærður um að almenningur mun líta á það sem sjálfsagðan hlut, að vel sé að Ríkisútvarpinu búið.

Hv. 6. þm. Norðurl. e., sem hefur sýnt málefnum Ríkisútvarpsins mikinn “áhuga hér á þingi frá fyrstu tíð, sem ekki er óeðlilegt þar sem hann þekkir vel til stofnunarinnar, minnist hér á sorgarsögu Ríkisútvarpsins í byggingarmálum. Ég skal viðurkenna það, að þó að ég sé orðinn það gamall, að ég man eftir því þegar Ríkisútvarpið var stofnað — og það er líklega elsta minning sem ég á í huga mínum — þá kann ég ekki byggingarsögu Ríkisútvarpsins svo vel að ég treysti mér til þess núna lítt undirbúinn að rekja hana í smáatriðum. En hitt er víst, að sú saga er hin mesta sorgarsaga. Þó held ég að hápunktur þeirrar sorgarsögu sé þegar Ríkisútvarpið hafði á árunum í kringum 1950, á þeim árum sem Jónas Þorbergsson var forstjóri Ríkisútvarpsins, safnað í byggingasjóð mjög stórum fúlgum sem nægðu til þess að koma upp myndarlegu húsi yfir stofnunina. Þá er stofnunin nálægt því að vera 20 ára gömul, 19–20 ára gömul, þegar kominn er myndarlegur sjóður til þess að byggja yfir stofnunina, og þá var, eins og kom reyndar fram í ræðu hv. 6. þm. Norðurl. e., þegar komið svo langt, að það var búið að teikna og hanna hús yfir stofnunina og velja því stað, svo að lítið annað var að gera en hefjast handa um bygginguna. En ég kann naumast að greina frá því, - þetta er orðin 30 ára gömul saga, — hvernig þessi sjóður hvarf. Það var horfið frá byggingu útvarpshúss af einhverjum ástæðum, erfiðleikatímar voru þá, fjárfestingarhömlur voru á þessum tíma mjög miklar og einhvern veginn fór það svo, að það voru settar hömlur á útvarpshúsbygginguna í kringum 1950 eða fyrir 30 árum. Og svo fór, að þessi sjóður gufaði upp í verðbólgu næstu ára.

Ég ætla nú að beina því til hv. alþm., hvort þeir kjósi að sagan endurtaki sig, að sá sjóður, sem nú er fyrir hendi og forráðamenn útvarpsins segja mér að kunni að nema um 2 milljörðum kr., mjög bráðlega eyðist tíka fyrir verðbólgu eða fyrir önnur vandræði í fjármálastjórn Ríkisútvarpsins. Og ég vil beina því til hv. alþm., að þeir hafa hér mikla ábyrgð, kannske ekki hver og einn sem einstaklingur, en a.m.k. má segja að þingið í heild ber hér mikla ábyrgð, að ekki fari eins og fór, þegar húsbyggingarsjóður Jónasar Þorbergssonar, sem ég leyfi mér að kalla svo, eyddist og gufaði upp fyrir það að hann var aldrei nýttur í því skyni sem honum var ætlað, heldur hvarf í verðbólguhítina.

Ég skal ekki hafa mörg fleiri orð um þetta. Ég lýsi því yfir, að ég tel að þessi till. eigi ekki aðeins rétt á sér, heldur komi hún að gagni. Það er gagnlegt, að vakin sé athygli á málefnum Ríkisútvarpsins, húsbyggingarmálum þess og öðrum málefnum, og að þessu leyti er ástæða til að fagna framkomu þessa máls. Ég geri mér nú vonir um að mjög fljótlega rætist úr í þessu efni og hægt verði að koma því svo fyrir að bygging útvarpshússins hefjist á næsta ári, því það er rétt, þó að illt sé fyrir ráðh. að viðurkenna það, að það er nánast ein nefnd, valdamikil nefnd í stjórnkerfinu, sem fyrst og fremst hefur lagst gegn því að haldið sé áfram húsbyggingunni að sinni. Ég vil þó taka fram, að mér dettur ekki í hug að halda að sú ákvörðun nefndarinnar að leggja það ekki til að haldið sé áfram húsbyggingunni sé einhver endanlegur dómur. Auðvitað er þetta bráðabirgðaákvörðun nefndarinnar. Eigi að síður er þessi ákvörðun ekki þannig að hægt sé að sætta sig við hana, og ég tel hina mestu nauðsyn á að reynt verði að létta þessum hömlum af, og að því leyti til fagna ég framkomu þessarar till. Ég efa ekki að hún verður til þess að margir hv. alþm. — og kannske embættismenn og þjóðin öll — fái rétta mynd af því, hvernig staða þessa máls er, og að það leiði til þess að þessum hömlum verði létt af áður en langir tímar líða. Og þegar ég tala um áður en langir tímar líða, þá á ég að sjálfsögðu við að það verði nú áður en fjárlagaafgreiðslu lýkur. Upp úr því hef ég lagt innan ríkisstj., að málefni Ríkisútvarpsins, þ. á m. byggingarmálin, verði almennt málefni Alþingis í meðferð fjárlaga. Á meðan sá undirbúningur stendur mun ég treysta því, að á þeim málum verði tekið svo að leiði til jákvæðrar lausnar með samkomulagi að kalla. En verði það ekki, þá er ekki um annað að gera fyrir mig en að beita öðrum ráðum til þess að knýja þessa húsbyggingu fram, og þá á ég við það, að ég neyti þess réttar sem ég tel mig hafa sem ráðh. til að ákveða að þessi bygging skuli ganga fram og halda áfram á næsta ári fyrir það fé sem til er í húsbyggingarsjóði. Ég tel að Ríkisútvarpið eigi þennan sjóð, sé fjárráða hvað varðar þennan sjóð, og að því leyti til kann svo að fara, að ég muni beita því valdi sem ég hef yfir sjóðnum. En að sjálfsögðu kýs ég heldur að það sé fullt samkomulag innan Alþingis, innan ríkisstj., í embættiskerfinu um þetta mál og það leysist á þann hátt, því að það er að mörgu öðru að hyggja í málefnum Ríkisútvarpsins.