13.11.1980
Sameinað þing: 19. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í B-deild Alþingistíðinda. (542)

51. mál, bygging útvarpshúss

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að deila við hv. þm. Albert Guðmundsson um þetta frekar. Ég lýsti því, hver afstaða mín til þessa máls væri. Ég sagði að ég hefði viljað leysa þetta deilumál með friði og samkomulagi. Hins vegar stend ég á því, að ég tel að Ríkisútvarpið hafi umráð þessa sjóðs, og það mun koma til athugunar síðar, hvernig staðið verður að því að gera útvarpið í raun fjárráða hvað snertir þennan húsbyggingarsjóð.

En það, sem mér fannst vera ástæða til að taka undir í sambandi við ræðu hv. þm. Alberts Guðmundssonar, er að í meðferð þessa máls og meðferð fjárlaga fái þingið tækifæri til að kynna sér teikningarnar að húsinu og sjá líkan af húsinu. Það finnst mér alveg sjálfsagt, og ég skal gera mitt til þess að líkan af húsinu verði aðgengilegt í húsakynnum Alþingis til sýnis og teikningar þá jafnframt. Það er auðvitað lágmarkið að sú n., sem fær þetta mál sem við erum að ræða nú, þessa þáltill., fái til athugunar teikningarnar og líkanið af húsinu, sem ég hygg að sé auðvelt að fá til sýnis. Undir þetta vil ég mjög taka, að alþm. fái sem allra best tækifæri til að kynna sér útlit hússins, teikningar að því og þær hugmyndir sem menn hafa um áfanga byggingarinnar.