13.11.1980
Sameinað þing: 19. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í B-deild Alþingistíðinda. (547)

51. mál, bygging útvarpshúss

Flm. (Markús Á. Einarsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að lýsa ánægju minni með þann hug sem komið hefur fram í máli hæstv. menntmrh. og þeirra hv. þm. sem tekið hafa til máls. Ég túlka ummæli þeirra á þann veg, að þau hafi í öllum meginatriðum verið jákvæð.

Í tilefni ummæla hv. 3. þm. Reykv., Alberts Guðmundssonar, vil ég taka undir að þm. fái að sjá og kynna sér teikningar að útvarpshúsinu. Hann ræddi einnig um að þarna væri e.t.v. um mikið bákn að ræða. Ég vil því undirstrika það, sem ég lét reyndar koma fram í máli mínu áðan, að það hafa vissulega verið gerðar áætlanir um áfangaskipti í þessu efni, þannig að það er ekki við því að búast og e.t.v. ekki eðlilegt að byggingin rísi öll í einum áfanga. Ég nefndi tvo minni áfanga sem gerðar hafa verið áætlanir um og teikningar munu að mestu vera tilbúnar að, alla vega að fokheldu ástandi.

Að lokum vil ég einfaldlega ítreka það sem mér finnst skipta hér máli, að grunnur þessa væntanlega húss er tilbúinn, fjármagn er í öllum aðalatriðum tiltækt og teikningar upp að fokheldu ástandi eru svo til tilbúnar, hver svo sem sá áfangi verður sem valinn verður fyrst. Það er því að mínu mati nærri því ótækt að örfáir menn geti með umræðum um túlkun á hlutverki Framkvæmdasjóðs Ríkisútvarpsins stöðvað þetta mál svo langan tíma sem nú er orðið.

Loksins vil ég benda á að fyrir hv. Alþ. liggur núna till. um merkingaskyldu ríkisframkvæmda. Hvernig skyldi nú skiltið við Háaleitisbrautina verða? Skyldi þar standa: Í þessari holu átti að rísa útvarpshús? Það má aldrei verða, heldur verður sem fyrst að koma þar upp skilti sem á stendur: Hér byggir Ríkisútvarpið útvarpshús.