18.11.1980
Sameinað þing: 20. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (578)

338. mál, styrkir til bygginga orlofsheimila verkalýðssamtakanna

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. ráðh. fyrir skilmerkileg svör, þótt það verði hins vegar því miður að segjast, að þær upplýsingar, sem hann hefur fengið frá viðkomandi aðilum, eru hvergi nærri fullnægjandi. Það kemur í ljós þegar maður skoðar þessi svör. En áður en ég ræði þau vil ég taka það skýrt fram, að allt það, sem hér hefur verið drepið á og gert hefur verið, er vissulega þýðingarmikið og á fullkominn fett á sér, þótt ég telji hins vegar að í þessum svörum ráðh. komi í ljós að í þessari fjárveitingu sé allmikil misskipting á ferðinni. Að vísu spurði ég aðeins um tvö s.l. ár vegna þess að ég hafði rökstuddan grun um að þannig væri í pott búið, að það væru sömu aðilar sem fengju fjármuni úr þessum sjóði til ráðstöfunar ár eftir ár. Svar ráðh. sannar það einmitt og um leið að kannske þyrfti að hafa til athugunar líka, og þá tek ég undir það sem hæstv. ráðh. sagði um frekari úthlutun á slíku fé í framtíðinni, að það þarf auðvitað að fylgjast betur með hvernig þessu fé sé varið, til hvaða hluta. Auk þess tel ég ekki neitt því til fyrirstöðu, að settar verði fram einhverjar kröfur um að viðkomandi aðilar skili einhverju á móti, annaðhvort í fjármunum eða vinnu. Það er auðvitað alveg útilokað, að sumir aðilar geti alltaf gengið í opinbera sjóði og fengið allt sitt á þurru úr þeim án þess að leggja nokkuð að sjálfum sér til þess að ná fram eða koma slíkum verkefnum í höfn.