20.10.1980
Neðri deild: 4. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

17. mál, olíugjald til fiskiskipa

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 18 flyt ég frv. til l. um breyt. á l. nr. 3 1. febr. 1980, um tímabundið olíugjald til fiskiskipa. Frv. þetta er flutt í tengslum við fiskverðsákvörðun frá 1. okt. s.l. Þá var fiskverð hækkað um 8%, en jafnframt ákveðin hækkun á olíugjaldinu um 5%, svo að það verður 7.5%. Með þessari ákvörðun greiddu atkvæði annar fulltrúi fiskverkenda, fulltrúi útvegsmanna og oddamaður. Á móti greiddi atkvæði fulltrúi sjómanna, enn annar fulltrúi fiskverkenda sat hjá. Áður en þessi ákvörðun var tekin var að sjálfsögðu nauðsynlegt að skoða vandlega afkomu þeirra greina sem tengdar eru fiskverðsákvörðun, þ.e. útgerðarinnar, fiskvinnslunnar og sjómanna, og þykir mér rétt að gera með nokkrum orðum grein fyrir því.

Eins og fram kemur í aths. með frv. varð lítil hækkun á olíu framan af árinu. Þetta breyttist hins vegar eftir mitt ár og eins og þar kemur fram hefur gasolía hækkað frá því í júní s.l. um 35.3% og svartolía um 22.9%. Þetta hefur að sjálfsögðu haft mikil áhrif á afkomu útgerðar. Annar erlendur kostnaður hefur sömuleiðis hækkað og nema hallaáhrifin á útgerðina um 5–7%, þannig að fyrir fiskverðsákvörðun áætlaði Þjóðhagsstofnun að útgerðin væri rekin með u.þ.b. 10% halla miðað við ársrekstur, og reyndar var brúttóhagnaður útgerðarinnar áætlaður rétt við núllið. Til að mæta þessum mikla halla útgerðarinnar hefði þurft að hækka fiskverð eitt um 18–20%.

Undanfarna mánuði hefur farið fram ítarleg athugun á afkomu frystiiðnaðarins. M.a. hefur verið kannað hvaða breytingar hafa orðið annars vegar á verði framleiðslunnar og hins vegar á tilkostnaði. Hafa þær athuganir bæði farið fram á vegum Þjóðhagsstofnunar og á vegum Seðlabanka Íslands. Niðurstöður af þessum athugunum eru mjög svipaðar. Þjóðhagsstofnun kemst að þeirri niðurstöðu, að miðað við s.l. haust hafi kostnaðarhækkanir orðið u.þ.b. 8% meiri en verðhækkanir á framleiðsluvörum frystihúsanna, eða m.ö.o. að gengissig hafi orðið töluvert minna en framleiðslukostnaður gaf tilefni til. Jafnframt kemur fram í þessum upplýsingum að verð á frystum afurðum á Bandaríkjamarkaði hefur verið nánast óbreytt í 11/2 ár, á sama tíma og þar hefur orðið hækkun á flestri annarri matvöru og öðrum nauðsynjum um u.þ.b. 24–25%. Í raun og veru má þannig segja að verðfall hafi orðið á frystum afurðum og þess ekki gætt að bæta það upp með nauðsynlegri aðlögun gengis hér heima. Því þarf engan að furða að frystiiðnaðurinn hefur á þessu ári verið rekinn með töluverðum halla. Því til viðbótar hafa frystihúsin átt við ýmsa aðra erfiðleika að etja. Auk þess sem verðhækkun hefur ekki orðið á Bandaríkjamarkaði hefur orðið þar veruleg stöðnun í sölu, eða varð fyrri hluta ársins, og birgðasöfnun hér varð mikil. Þá reyndist nauðsynlegt að breyta töluvert þeirri framleiðslusamsetningu, sem frystingin hefur átt við að búa og er henni hagkvæmari en sú sem við tók, þ.e. meiri framleiðsla á blokk og minni af frystum flökum. Reynt var að mæta þessum tímabundnu erfiðleikum í fyrsta lagi með því að fá hækkun á afurðalánum úr 75 í 85 %. Auk þess var gripið til annarra aðgerða sem löguðu nokkuð stöðu hraðfrystiiðnaðarins, eins og lækkun vaxta hjá Fiskveiðasjóði og niðurfelling tolla af nokkrum fjárfestingarvörum fiskvinnslunnar. En við því stóra vandamáli, sem fiskvinnslan, fyrst og fremst frystingin hefur átt við að stríða, þ.e. ónægri aðlögun fiskverðs að kostnaðarhækkunum hér heima, varð því miður ekki snúist á annan máta en með því að láta gengið síga.

Frá því í febrúar s.l. hefur gengið sigið úr 100 í 133.1 10. okt. s.l. Samanburður á þessu gengissigi og annars vegar launum og hins vegar fiskverði sýnir, að gengið hefur sigið um 2.9% meira en laun hafa hækkað á þessu tímabili og 3.7% meira en fiskverð hefur hækkað, og er þá að sjálfsögðu tekin með sú fiskverðshækkun sem varð núna eða hefur verið samþykkt frá 1. okt. s.l. Hinn 10. okt. var gengi dollarans 533.70 kr., en er nú, 20. okt., 543.20 kr. Er því orðið tæplega 2% gengissig til viðbótar frá því sem þessar tölur benda til.

Ég get fúslega tekið undir það, að gengissig eða breyting á gengi krónunnar er ekki æskileg leið til þess að mæta þeim kostnaðarhækkunum sem verða. Ólíkt betra væri að finna til þess aðrar leiðir. Að þeim er stöðugt leitað. Menn leita að leiðum til að auka framleiðni. Slík vinna er í gangi og veitt hefur verið til þess fjármagn úr Fiskveiðasjóði, eins og unnt er. En allt eru það hægfara leiðir, taka langan tíma, og slíkur munur sem á hefur orðið — og ekki síst má rekja eins og ég sagði, til þess að hlutfallslegt verðfall hefur nánast orðið á frystum afurðum okkar á Bandaríkjamarkaði, — slíkur mismunur verður ekki læknaður á skömmum tíma með aukinni hagræðingu.

Til viðbótar því að láta gengið þannig síga hefur jafnframt náðst samkomulag við Seðlabankann um endurgreiðslu á hluta eða lagfæringu — getum við kallað það — á þeim lánskjörum, sem útflutningsatvinnuvegirnir hafa búið við með gengistryggðum lánum. Lagt verður inn á reikninga útflutningsatvinnuveganna sem nemur 8% af gengissigi, og má líta á það sem lagfæringu í einu lagi bæði á gengissig og vöxtum sem hafa verið 8.5% á þessum lánum. Af þessari upphæð fær freðfiskvinnslan tæp 60%, saltfiskur og skreið 34%, en aðrar framleiðslugreinar töluvert minna. Þarna er alls um að ræða u.þ.b. 3.6 milljarða og leggjast því inn á reikning frystingarinnar í hlutfalli við birgðastöðu apríl–sept. rúmlega 2 milljarðar, sem væntanlega ættu þá að bæta að nokkru greiðslustöðu hennar.

Með þessum aðgerðum er að sjálfsögðu að því stefnt, að staða freðfiskframleiðslunnar verði jákvæð, og má ætla af þeim gögnum, sem Þjóðhagsstofnun hefur látið frá sér fara, að svo verði. 12. sept. s.l. áætlaði Þjóðhagsstofnun að halli á frystingu næmi 3.1%. Ef bætt er við 2 prósentustigum, sem Þjóðhagsstofnun metur að sé mismunur á áætlunum hennar og frystiiðnaðarins sjálfs, þá yrði hallinn þarna um 5%. Ef tekið er tillit til þessa halla á frystingunni og sömuleiðis þeirrar fiskverðs- og olíugjaldshækkunar, sem samþykkt var í Verðlagsráði nú fyrir nokkru, þá þarf gengi dollarans að mati Þjóðhagsstofnunar að vera 552 kr. til þess að freðfiskvinnslan sé rekin jákvætt, og að því stefnir óðum, eins og fram kemur af þeim tölum sem ég nefndi áðan. Til viðbótar vil ég geta þess, að í frystiiðnaðinum hafa aðrir hlutir færst á betri veg. Sú framleiðslusamsetning, sem var eins og ég sagði áðan —frystingunni mjög óhagkvæm, er nú orðin breytt og sölusamtök okkar á Bandaríkjamarkaði telja að hverfa megi að nýju til vaxandi framleiðslu á fiskflökum. Að mati Þjóðhagsstofnunar bætir þetta útkomu fiskvinnslunnar um 1.8%, og er þá tekið tillit til þeirrar 20 kr. uppbótar sem áður var greidd vegna lakari framleiðslusamsetningar, þ.e.a.s. hún er þá að sjálfsögðu niður felld.

Að mati Þjóðhagsstofnunar er einnig tryggður viðunandi rekstrargrundvöllur gagnvart útgerðinni, sem kannske kemur einna gleggst fram í því, að fulltrúi útgerðar greiðir atkvæði með þessari niðurstöðu. Að vísu má gera ráð fyrir því að með fullum afskriftum sé enn nokkur halli á útgerðinni, en hins vegar er brúttóhagnaður áætlaður um 10 milljarða á ársgrundvelli. Í þessu sambandi öllu þarf einnig og ekki síst að líta á tekjur sjómanna og hefur það verið gert. Eins og ég hef hvað eftir annað sagt, þá stöðvast verðbólgan ekki í frystihúsunum. Frystihúsin þurfa að fá það verð sem tilkostnaðurinn krefst.

Alveg á sama máta má segja að verðbólgan stöðvast ekki hjá sjómanninum. Það er eðlileg krafa hans að fá launahækkun svipað og aðilar fá í landi. Samkvæmt þeim samanburði, sem Þjóðhagsstofnun hefur gert á tekjum kvæntra sjómanna, verkamanna og iðnaðarmanna, hafa sjómenn haldið vel í horfinu. Hlutfallstölur þessar sýna, miðað við 1974–1980, að hlutfallstalan á milli s jómanna og verkamanna, sem árið 1970 var 123, sjómönnum í vil, er nú, eftir þá ákvörðun sem tekin hefur verið, orðin 153. Og svipað er hjá sjómönnum og iðnaðarmönnum. Einnig sýnir lausleg áætlun um breytingar tekna sjómanna á botnfiskveiðum, verkamanna og iðnaðarmanna sömu niðurstöðu. Sé miðað við að ársmeðaltal 1974 sé 100, þá eru tekjur sjómanna gagnvart verkamönnum nú 122, en gagnvart iðnaðarmönnum 124. Að sjálfsögðu liggur að baki þessum meiri tekjum mikil vinna, og í mörgum tilfellum er vinna óeðlilega mikil hjá sjómönnum. En einnig felst í þessu mikil fj árfesting útgerðar í fullkomnari skipum og fullkomnari tækjum, sem hafa gert sjómönnum fært að ná stórauknum afla á hverja tímaeiningu. Þannig hefur allt þetta stuðlað að tekjuaukningu sjómanna, mikil fjárfesting, bætt tæki og mikil vinna. Sjómaðurinn er að sjálfsögðu mjög vel að þessum tekjum kominn og þess þarf ætíð að gæta að tekjur sjómanna séu viðunandi. En hitt held ég að sé ákaflega vafasamt, að bera saman fiskverð annars vegar og tímalaun í landi. Sjómaðurinn er ekki tímakaupsmaður og því er sá samanburður ekki eðlilegur.

Ég hef nú reynt að rekja meginforsendur þessarar fiskverðshækkunar, m.ö.o. að leitast er við að ná jákvæðum rekstrargrundvelli útgerðar, jákvæðum rekstrargrundvelli fiskvinnslunnar og tekjuhækkun sjómanna á borð við það sem varð í landi. Um þessa þætti má alla deila. Og alveg sérstaklega er deilt um hækkun olíugjalds. Til þess var gripið vegna mikillar hækkunar á olíu frá því síðasta fiskverð var ákveðið, eins og ég rakti í upphafi míns máls. Ég vil hins vegar leggja á það ríka áherslu, að ég tel olíugjaldið ákaflega vafasama leið til þess að standa straum af olíukostnaði útgerðarinnar. Olíugjaldið er greitt á fjölda fiska, sem eru veiddir, en ekki á fjölda lítra af olíu sem eytt er. Olíugjaldið stuðlar því ekki að sparnaði í olíunotkun og kemur auk þess ákaflega misjafnlega niður. Færa má rök að því, að við einstakar veiðar fáist olíukostnaðurinn allur uppborinn af olíugjaldinu. En því fer að sjálfsögðu víðs fjarri um t.d. suma togarana sem eiga sérstaklega langt að sækja. Ég hef því lagt á það mikla áherslu, að leitað verði eftir öðrum og betri leiðum til að taka þátt í olíukostnaði útgerðarinnar, — leiðum sem stuðla að því, að olía verði spöruð, og stuðla að því, að bæði sjómenn og útgerðarmenn hafi hag af auknum olíusparnaði. Fyrrv. sjútvrh. setti á fót starfshóp í þessu skyni með fulltrúum frá sjómönnum og útgerðarmönnum. Ég hef átt fund með þeim mönnum og lagt á það ríka áherslu, að það starf haldi áfram og leitað verði eftir öðrum leiðum en olíugjaldi. Ég gerði mér nokkrar vonir um að það mætti takast fyrir þessa fiskverðsákvörðun. Ég hygg að það hafi verið of mikil bjartsýni, því þetta eru ákaflega viðkvæm mál eins og von er. En ég geri mér vonir um að einhverjum áfanga verði náð fyrir næstu fiskverðsákvörðun, þannig að menn geti farið að feta sig út úr þessari olíugjaldsleið.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð, en legg til að frv. þessu verði vísað til hv. sjútvn. að lokinni þessari umræðu.