18.11.1980
Sameinað þing: 20. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í B-deild Alþingistíðinda. (584)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Umr. um þessa fsp. var frestað í fsp.-tíma í fyrri viku vegna þess að hæstv. viðskrh. var erlendis og hinir níu — eða hvað þeir voru margir sem þá voru mættir hér af ráðh. — gátu ekki svarað fsp. sem kom fram hjá fjölmörgum þm. Ég hefði haldið að það svar, sem hæstv. viðskrh. gaf nú, hefði getað komið fram í umr. fyrir viku. Það var ekki burðugra en það. En ef hæstv. ráðh. er eitthvað að hneykslast á því, að stjórnarandstæðingar skuli hafa leyft sér að bera fram fsp. um ráðstafanir ríkisstj. í efnahagsmálum, þá er það í framhaldi af því sem ríkisstj. hefur sjálf sagt í þessum efnum.

Forsrh. segir í stefnuræðu sinni að myntbreytingin eigi í fyrsta lagi að auka traust manna á krónunni og þá verði hún komin í hóp annarra gjaldmiðla á Norðurlöndum. Það verða sennilega einhver afföll ef hún heldur áfram með sama hætti til áramóta. En síðan segir hann: „Þessi hugarfarsáhrif geta því aðeins orðið að gagni, að aðrar ráðstafanir fylgi sem sannfæri almenning um að alvara sé á ferðum til þess að treysta gildi krónunnar og veita verðbólgunni viðnám. Samfara þessari breytingu hefur ríkisstj. í huga margháttaðar efnahagsaðgerðir.“ Hún er búin að hafa þessar aðgerðir í huga frá því að hún var mynduð 8. febr. og sendi þingið heim í hálfan mánuð, en það kemur aldrei neitt frá henni. Og þegar þeir eru hér við, þessir ráðh., þá sitja þeir eins og klessur á hverjum einasta fundi og hafa aldrei nokkra skoðun.

Í stefnuræðu forsrh. segir enn fremur: „Unnið er að nýjum vísitölugrundvelli sem ætti að geta gengið í gildi í kringum áramótin.“ Er til of mikils mælst, þegar komið er til loka nóv., að þessir háttvirtu herrar hafi einhver úrræði, eitthvað fram að færa? Hefur verið rætt við verkalýðshreyfinguna um vísitölugrundvöllinn? Nú er kominn tími til fyrir hv. 7. þm. Reykv. að tala, því að hann hefur ekki talað svo mikið undanfarna mánuði.