18.11.1980
Sameinað þing: 20. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég var í hópi þeirra sem biðu með eftirvæntingu eftir því, að hæstv. viðskrh. gæfi svör við þeim mikilvægu spurningum sem hér hafa verið fram bornar. Mér er spurn: Gæti hæstv. ríkisstj. létt þagnarskyldunni af þessum hæstv. ráðh. svo að hann gæfi okkur hlutdeild í vitneskju sinni? Það var auðheyrt á öðrum hæstv. ráðh. hér fyrir nokkru að það var hæstv. viðskrh. sem bjó yfir þeirri vitneskju sem eftir var beðið.

Það er ljóst — og löngu ljóst — að verðbólgan á Íslandi er komin af því stigi að vera einvörðungu efnahagsvandamál, hún er sálfræðilegt vandamál. Ríkisstj. hæstv. er það vitanlega ljóst, enda er það mjög haft á orði af hennar hálfu að gjaldmiðilsbreytingin eigi að hafa fyrst og fremst í för með sér hugarfarsbreytingu. Og til hvers? Til hvers á að breyta þessu hugarfari? Á að breyta trausti manna á krónunni vegna þess að þessi margnefnda króna okkar verði trausts verð, eða á að breyta trausti manna á krónunni og horfa svo upp á það að fólk hafi verið blekkt? Það er rétt, vafalaust verður hér um hugarfarsbreytingu að ræða.

Herra forseti. Erindi mitt í ræðustól er að bera fram eftirfarandi spurningu til þess ráðh. sem því kynni að geta svarað, eftir atvikum hæstv. forsrh., hæstv. fjmrh. eða viðskrh. — eða þeirra allra saman eftir því hver þeirra vill taka að sér að svara: Hvað kostar þessi hugarfarsbreyting?