20.10.1980
Neðri deild: 4. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

17. mál, olíugjald til fiskiskipa

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, um tímabundið olíugjald til fiskiskipa, gerir ráð fyrir því, að olíugjald hækki um hvorki meira né minna en 200% frá því sem það nú er. Þetta er í þriðja skipti á þessu ári sem lagt er fram frumvarp um tímabundið olíugjald til fiskiskipa. Fyrsta frv. var um lækkun á olíugjaldi frá árinu á undan, fyrst úr 9 í 5%. Um það frv. náðist víðtæk samvinna og samstarf hér á Alþ., og sömuleiðis má segja að um það náðist nokkuð sæmileg samstaða í greinum sjávarútvegsins. En þegar núv. hæstv. sjútvrh. tók við flutti hann fljótlega frv. um breytingu á þessu tímabundna olíugjaldi þar sem hann lagði til að lækka gjaldið úr 5% niður í 2.5% miðað við fiskverð eins og það er ákveðið af Verðlagsráði sjávarútvegsins á hverjum tíma. Þegar það frv. var til umr. lýsti hæstv. ráðh. því yfir, að hann teldi þetta form á olíugjaldi vera allsendis ófullnægjandi og hann ynni að því að breyta því. Jafnframt taldi hann óeðlilegt — því að það voru svo bjartar vonir fram undan um lækkun á olíuverði — að viðhalda 5% tímabundnu olíugjaldi lengur en þrjá fyrstu mánuði ársins og því væri nauðsynlegt að lækka það um helming eða niður í 2.5%. Og í raun og veru talaði hann á móti olíugjaldi mjög einarðlega og kvað nauðsyn bera til að leggja það niður í þessari mynd.

En nú á fyrstu dögum þessa þings virðist hæstv. ráðh. hvað snertir samningu frumvarpa hér á Alþ. hafa snarlega skipt um skoðun, því hann leggur til að olíugjaldið hækki um 200 í. Það er nú niðurtalningarleið sjútvrh. í þessum efnum, enda er hún orðin skrýtin, niðurtalningarleið ríkisstj. í heild. En hitt er enn þá furðulegra, að hæstv,. sjútvrh. hefur umræður um þetta mál í útvarpi, sjónvarpi og blöðum og talar þar algerlega á móti olíugjaldinu eins og það er byggt upp og er m.ö.o. algjör andstæðingur þessa frv. sem hann leggur nú fyrir Alþ. og var að tala fyrir hér rétt áðan. Hann segir í samtali við eitt blaðið: „Ég er á móti olíugjaldinu eins og það er nú uppbyggt. Með því er olían greidd eftir fjölda fiska sem veiðast, en ekki með tilliti til þess, hversu margir olíulítrar fara í að ná aflanum. Þetta tel ég grundvallarskekkju og verið er að leita annarra leiða til að mæta auknum olíukostnaði. En þó ég sé mótfallinn olíugjaldinu, eins og það er nú, var ekki um aðra leið að ræða við ákvörðun fiskverðs,“ sagði Steingrímur Hermannsson sjútvrh. m.a. á fundi með fréttamönnum í gær, en það var 14. okt.

Steingrímur var spurður um þau orð forustumanna sjómanna, að þeir hefðu ekki trú á því, að lög um olíugjald yrðu samþykkt. Steingrímur sagði að á það mundi reyna á Alþ., en frv. um þessa lagabreytingu var lagt fram á mánudag. Og síðan segir: „Ég ræddi þetta mál hins vegar ekki við fulltrúa í yfirnefnd Verðlagsráðsins fyrr en ég hafði til þess samþykki ríkisstj.,“ sagði ráðherrann. M.ö.o.: hinir níu í ríkisstj. hafa lagt blessun sína á það að hækka olíugjaldið um 200%. Þá eigum við eftir að sjá hvort þeir, sem hingað til hafa talið sig styðja þessa ríkisstj., ætla líka að leggja blessun sína yfir þetta gjald.

Við fulltrúar Sjálfstfl. í sjútvn. þessarar hv. d. studdum olíugjaldið, sem lögfest var 24. jan., og töldum að útgerðin þyrfti á því að halda, sérstaklega með tilliti til þess, að nokkuð góð samstaða náðist meðal allra greina í sjávarútvegi um það gjald. En þegar núv. hæstv. sjútvrh. flutti frv. sitt um að lækka þetta gjald á miðri vertíð um helming til þess að ná samstöðu eða meiri hluta um nýtt fiskverð eftir að allir aðilar nema útgerðin höfðu sagt upp þessu fiskverði, þá tók hæstv. sjútvrh. þann kost að láta það ganga út yfir þann aðila sem ekki hafði sagt upp fiskverðinu. Og í ræðu, sem hann flutti þegar hann lagði þetta frv. sitt fram, segir hann orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Því var ákveðið á fundi ríkisstj. að settir verði menn í að kanna þessi vanskil, og ríkisstj. mun beita sér fyrir því, að eins miklu og frekast er unnt með tilliti til stöðu sjóða og banka og fyrirtækja verði breytt í skil á næstu vikum og mánuðum.“ Þetta átti að vera svar við stöðu útvegsins þegar tekinn var helmingur af olíugjaldinu. Þar átti að bregða fljótt við og breyta vanskilaskuldum útvegsins í föst lán og gera ráðstafanir til þess að bæta honum það tap, sem útgerðin varð fyrir þegar olíugjaldið var í einu vetfangi lækkað um helming. Jafnhliða þessu segir hæstv. ráðh. í ræðu sinni: „Jafnframt var ákveðið að setja á fót starfshóp til að gera samanburð á samkeppnisaðstöðu frystiiðnaðarins og annars útflutnings- og samkeppnisiðnaðar. Um það hefur lengi verið deilt, hvor býr betur. Ég held þó að ástæða sé til að efast um að frystiiðnaðurinn búi betur en annar samkeppnisiðnaður, og vek m.a. athygli á því, að uppsafnaður söluskattur hjá frystiiðnaðinum og fiskvinnslunni í heild er 3.8 milljarðar á ársgrundvelli og þar af 2 milljarðar hjá frystihúsunum. Þetta eru stórar upphæðir og ýtir sannarlega enn undir að virðisaukaskattur verði upp tekinn í þessu þjóðfélagi í staðinn fyrir söluskatt.“

Svo segir hann:

„Ég er á þeirri skoðun, að finna eigi aðrar leiðir í sambandi við þennan olíukostnað. Ég vísa til viðræðna, sem eru í gangi og hófust að tilstilli fyrrv. sjútvrh., um breytingu á þessu sviði. Þar munu vera hugmyndir um að olía verði greidd af óskiptu, en þó þannig að greitt verði fyrir ákveðinn lítrafjölda þannig að sveiflur í verði valdi ekki verulegri röskun á fiskverði til skipta. Sýnist mér mjög æskilegt að vinna frekar að samkomulagi eftir slíkum leiðum," segir hæstv. ráðh. um mánaðamótin mars–apríl. En það liggur ekkert fyrir, hann sagði hér áðan að það lægi ekkert fyrir, en að þessu væri unnið og hann væri mjög bjartsýnn á að þetta hefði getað legið fyrir. Hann dæmir samt um það, að þetta sé óhæft gjald, en hefur nú haft allan þennan tíma til þess að koma sér niður á það sem er líklegra og sanngjarnara að bera fram. En árangurinn er enginn, eftir því sem hann segir sjálfur, og hann heldur áfram að tala á móti olíugjaldinu, bæði við fjölmiðla og aðra, en leggur svo til hér á hv. Alþ. að það sé hækkað um 200%.

Ég skil nú ekki eitt — en það er nú kannske ekki stórkostlegt í þessu mikla máli — að hæstv. ráðh. segir að olíugjaldið sé reiknað eftir fjölda fiska. Ég hef ekki vitað til þess, hvorki í tíð fyrirrennara hans sem sjútvrh. né í hans tíð, að það færi fram talning á fiskum og olíugjaldið sé greitt eftir fiskafjölda. Hitt held ég að sé sönnu nær, að olíugjaldið kemur ofan á verðið fyrir aflann, eins og það er ákveðið. Það kemur ekki eftir fiskafjölda, það er mikill misskilningur hjá hæstv. ráðh. Það kemur á verðmæti aflans, og þá kemur auðvitað meira á fiskana sem eru þyngri en hina sem eru léttari. Þetta vil ég gjarnan leiðrétta hjá hæstv. ráðh. af því að hann er búinn að segja þetta í blöðum. Ég hélt bara að blöðin hefðu ekki haft þetta rétt eftir honum, en þegar hann sagði þetta í ræðu sinni hér áðan, þá mátti ég nú til með að leiðrétta þessa bévítans vitleysu í honum.

Hann segir, hæstv. ráðh., í sambandi við frv. í vetur: „Ég vil jafnframt nefna það, eins og fram kemur í aths. við þetta lagafrv., að sem betur fer eru sumar forsendur fyrir háu olíugjaldi ekki fyrir hendi nú. Hækkun á gasolíu og svartolíu hefur ekki orðið eins og menn töldu að kynni að verða, og fram undan er væntanlega, eins og nú er spáð, fremur lækkun, a.m.k. er verð á Rotterdammarkaði töluvert lægra en það var þegar fiskverð var ákveðið í janúar.“ En hann bætir við í þessari ræðu sinni: „Við erum að vísu enn með dýrari olíu, en ódýrari olían er komin til landsins og meira er væntanlegt. Mér sýnist því að ekki sé óeðlilegt að lækka olíugjald með tilliti til slíkra staðreynda.“ Hann er mjög forspár, þessi hæstv. ráðh., eins og allir hafa séð síðan og fundið.

Ég held að þó að olíugjaldið hafi tekið einhverjum breytingum, eins og við sögðum hér, fulltrúar Sjálfstfl., sem töluðum í sambandi við lögfestingu þessa frv. um mánaðamótin mars-apríl, að það væri ekki ástæða til þess — eins og jöfnunarreikningur eða jöfnunarkaupareikningur olíunnar stóð — að hlaupa til að lækka olíugjaldið um helming og tefla fram svona fullyrðingum algerlega út í bláinn, eins og komið er á daginn. Og það er nú það sem oft hendir alveg sérstaklega þennan hæstv. ráðh., að hann er of fljótur að tala og fullyrða án þess að ígrunda nógu vel hvort þessar spár hans og fullyrðingar fái staðist, eins og komið er á daginn í þessum efnum.

Við fulltrúar Sjálfstfl. í sjútvn., sem vorum þeir sömu þá og eru nú í n. sem kemur til með að fá þetta frv. til afgreiðslu, vorum andvígir því að lækka olíugjaldið. Við töldum að það væri verið að stórauka erfiðleika útgerðarinnar með því að hlaupa þannig frá þeirri ákvörðun sem tekin var í janúarmánuði. En við tókum jafnframt fram, að við teldum ekki vera sanngjarnt að sjómenn einir og sjávarútvegurinn einn stæði undir þeim vanda sem olíuverðshækkanirnar hafa bakað þjóðinni. Það er ekki sanngjarnt, að þessi atvinnugrein eigi ein að standa undir því og greiða það, og það er ekki sanngjarnt, að sjómenn séu látnir hvað eftir annað taka á sig aukna byrði vegna þessa vanda, sem er sameiginlegt vandamál þjóðfélagsins alls.

Ég minnist þess, að það heyrðist oft mjög hátt í þm. Alþb. fyrir nokkrum árum út af sjóðakerfi sjávarútvegsins. Þeir áttu margir hverjir ekki nógu sterk orð til að lýsa því, hvað þetta sjóðakerfi kæmi illa við sjómenn, það væri verið að færa til útgerðarinnar á kostnað sjómanna, og þeir kröfðust breytinga á því og að horfið yrði frá þessu mikla sjóðakerfi, sem var að meginhluta til vegna olíugjalds sem lagt var á árið 1973 og í ársbyrjun 1974. Þetta sjóðakerfi var allt saman stokkað upp og þá var fært hátt í 3 milljarða, miðað við verðlag á þeim árum, úr sjóðakerfinu og yfir til skipta á milli útgerðar og sjómanna. Það hefur iðulega komið fyrir, að gengið hefur verið á rétt sjómanna í sambandi við fiskverðsákvörðun. Á valdatíma ríkisstj., sem sat 1974–1978, varð meðalhækkun á fiskverði 287.6%. Kauptaxtar verkamanna hækkuðu á sama tíma um 261.6% og kauptaxtar allra launþega um 252.7%, þannig að hlutur sjómanna var verulega leiðréttur á þessu fjögurra ára tímabili. En svo þegar vinstri stjórn kemur, þegar höfðingjarnir sem alltaf eru að berjast fyrir alþýðu þessa lands, fyrir verkamenn og sjómenn, — þegar þeir koma til áhrifa, þá er það alltaf þeirra fyrsta verk að ganga á rétt þessa fólks, mennirnir með samningana í gildi. Það orð stendur nú fast í hálsinum á þeim og hefur gert æðilengi. Kaupmáttur launa fer sífellt rýrnandi. Staðan milli fiskverðs, sem er laun sjómanna, og kauptaxta verkamanna hefur breyst frá árinu 1978 og þar til í okt. s.l. úr vísitölunni 100 í 217, á sama tíma og kauptaxtar verkamanna eru 224 og kauptaxtar allra launþega það sama. Hlutur sjómanna er þetta lakari eftir þetta vinstristjórnartímabil. Og þannig er það alltaf, í hvert skipti sem þeir hafa áhrif. Þá er ekkert hikað við að níðast einmitt á þessum aðilum. Svo er hægt að snúa við blaðinu, þegar kosningar eru fram undan, og tala með allt öðrum hætti.

Það var ekki heldur verið að minnka bilið núna með samningunum við opinbera starfsmenn á milli þeirra og hinna almennu launþega í landinu, sjómanna og verkamanna. Það var ekki verið að minnka bilið með því að taka upp 95 ára regluna svokölluðu, að þeir, sem eru hjá því opinbera, geta komist á full eftirlaun 60 ára að aldri. Beri menn það svo saman við verkamenn og sjómenn, hvaða kjör þeir eiga við að búa þegar þeir þurfa að hætta að vinna. Þeir geta ekki hætt 60 ára gamlir og fengið 70% verðtryggðan lífeyrissjóð, það er eitthvað annað. Og það fer ósköp lítið fyrir þeim málum. Það er ekki mikið verið að herða núna á. Hvar eru kröfugerðarmennirnir í Alþb.? Þeir eru allir komnir í fín föt og vesti og lita út í klæðaburði eins og dyggir stuðningsmenn frú Thatcher, en ekki baráttumenn verkalýðsins og þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu. Þeir eru eins og klipptir út úr tískublöðum, þessir piltar. En þeir fara sennilega í vinnubuxurnar sínar rétt fyrir kosningar, þegar þeir þurfa að skæla framan í sjómenn og verkamenn og biðja aftur á ný um atkvæðin þeirra. Þá mun ekki standa á þeim að fara í gömlu fötin sín og gerast nógu alþýðlegir, eins og þeir voru fyrir síðustu kosningar sem og aðrar kosningar.

Hæstv. sjútvrh. lét hafa eftir sér í blöðum, því hann hélt blaðamannafund um þetta, - það er sjálfsagt að halda blaðamannafund alltaf um það, sem er að gerast, og upplýsa þjóðina um allar hræringar sem von er á, — og á þessum blaðamannafundi segir hann að menn geri sér nokkrar vonir um hækkun þorskblokkar á Bandaríkjamarkaði á næstu mánuðum. Það kom jafnframt fram á þessum fundi, að seljendur frystra sjávarafurða telja nú mun léttari róður á þessum markaði heldur en á tímabili í ár og að því erfiðleikatímabili, sem verið hefur á þessum mikilvæga markaði, sé nú að ljúka. Þetta eru mjög góð tíðindi, ef það mætti treysta þeim. En Morgunblaðið átti viðtal við forstjóra Coldwater Seafood Corporation Þorstein Gíslason, um sölu á íslenskum frystiafurðum í Bandaríkjunum og í því samtali kemur fram að Þorsteinn er ekki sérlega bjartsýnn á að verð á þorskblokk hækki í Bandaríkjunum á næstu mánuðum. Hann segir orðrétt:

„Eftir tímabil mjög erfiðra markaðsskilyrða í sumar tókst Coldwater loksins í sept. að ná upp sölu umfram það sem var í sama mánuði árið á undan. Enn eru þó talsverðir erfiðleikar á sölu á ýmsum legundum afurða okkar og ekki er hægt að segja um það enn, hvort salan sé komin í eðlilegt horf.

Þegar við miðum við síðasta ár í tali um sölu eins og tíðkast, þá ber að hafa það í huga, að árið í fyrra var algjört metár og í ár hefur okkur aðeins tekist að selja svipað magn og árið 1978, sem á sínum tíma var einnig metár. Þótt erfitt reynist að ná eins mikilli sölu og okkur hentar hverju sinni, þá er hæpið að kalla núverandi ástand sölutregðu, þegar miðað er við hina geysilegu söluaukningu síðustu ára.“

Og síðar í þessu viðtali: „Verð þorskblokkar mótast af þáttum sem við eigum litla aðild að, og það virðist nú að verðlag þeirra í Bandaríkjunum sé nú lægra en á öðrum mörkuðum. Verksmiðjur hér í landi, sem vinna úr þorskblokkum, hafa átt erfitt með að halda uppi nægilegri sölu undanfarið og geta því illa tekið á sig hækkanir á blokkum í bili. Það er ekki mögulegt að spá um það nú, hvenær þorskblokkir kunni að hækka eitthvað í verði, en takmarkaðar vinsældir sneiðanna, sem úr þeim eru skornar, hafa ekki gefið tilefni til mikillar bjartsýni þessa dagana,“ segir þessi maður, sem á nú að vera kunnugri mörkuðum þar vestra en flestir aðrir. Og hann segir: „Þrátt fyrir tímabundna erfiðleika á að ná söluaukningu á Bandaríkjamarkaði í ár er litill vafi á því, að hann verður samt þýðingarmestur allra fiskmarkaða fyrir íslenskan fisk um langa framtíð.“

Nú ætla ég ekki að gerast neinn dómari í því, hvor hefur réttara fyrir sér, hæstv. sjútvrh. eða Þorsteinn Gíslason, forstjóri Coldwater. Við skulum vona að spár sjútvrh. rætist og það sem allra fyrst. Það er auðvitað það sem við viljum helst. En ósköp held ég að það sé óvarlegt að vera á þessu stigi með fullyrðingar í þessa átt og byggja á þeim.

Hæstv. sjútvrh. sagði að við fiskverðsákvörðunina hefði gengissigi verið lofað, og dollarinn á eftir að síga í 552 kr. Einhvern tíma mátti sjá í Þjóðviljanum talað og skrifað hressilega um gengislækkanir íhaldsins og afturhaldsins í landinu. Það hefur ekki verið minna skrið á gengislækkunum eftir að Alþb. kom í stjórn, en þær heita bara miklu fínna nafni núna. Núna heita þær gengissig. En þær verka alveg nákvæmlega eins á vöruverð, sem allur almenningur þarf að borga. Það skiptir ekki nokkru máli, hvort lækkunin hefur farið fram með sigi eða þessu gamla orði: „gengisfellingu.“ Varan hækkar að sama skapi. Og það er afskaplega ánægjuleg þróun sem hefur orðið í þessum málum og Alþb. getur sannarlega státað af, eftir að hafa verið í ríkisstj. frá 1. sept. 1978, að undanskildum 4 mánuðum, sem engu breytti um þessa stefnu Alþb. til þess að ná endum saman, eins og það er núna kallað. Það hefur auðvitað aldrei staðið á Framsókn í þessum efnum, en ósköp hefur orðið mikil breyting á Alþb. frá því sem áður var, þ.e. þegar það var ekki í ríkisstj.

Hæstv. sjútvrh. segir að með þessu loforði um að dollarinn fari í 552 kr. verði frystingin jákvæð að dómi Þjóðhagsstofnunar. Mikið má nú leika sér að tölum og orðum eins og fyrri daginn. Ætli staða frystiiðnaðarins sé jákvæð? Á hann ekki eftir á þessu tímabili að taka á sig útgjöld? Er ríkisstj. kannske alveg örugg um að verkalýðshreyfingin muni ekki hreyfa sig til áramóta og engir samningar verði gerðir? Treystir hún á það? Er það alveg pottþétt? Hafa áhrifamenn Alþb. í verkalýðshreyfingunni kannske lofað ríkisstj., því, að menn sitji við sama borð og sömu laun og kjör til áramóta, alveg eins og ríkisstj. hefur lofað að fella dollarann í 552 kr.? Eitt er þó víst. Það er alveg öruggt, að verðbætur koma á laun 1. des. Og ef við snúum okkur aðeins frá verkalýðshreyfingunni, frá launþegum, og yfir til þeirra sem stjórna frystiiðnaðinum og eiga þau fyrirtæki, ætli rekstrarstaðan sé jákvæð þegar litið er á þann geigvænlega halla sem verið hefur allt þetta ár og ekki síst eftir að núv. ríkisstj. tók við? Hvernig var viðhorf þessarar ríkisstj. eða a.m.k. þeirra sem létu til sín heyra þegar hún tók við? Forsrh. sagði að fiskvinnslan hefði haft svo góða afkomu á undanförnum árum að hún gæti tekið á sig skakkaföll. Sá góði maður gerði sér enga grein fyrir því, að ef fyrirtæki hafa grætt á undanförnum árum, þá hafa þau verið að byggja upp sína starfsemi og hagnaðurinn er bundinn í nýjum húsum, vélum og tækjum. Hann liggur ekki á lausu, hann liggur ekki í bankabókum sem fyrirtækin gætu tekið út úr til þess að greiða úr þeirri slæmu stöðu sem vinnslan og einkum frystiiðnaðurinn var kominn í.

Það tók þó sjútvrh. í ríkisstj. skemmstan tíma að átta sig á þessu, því að nokkrum mánuðum eftir þessar yfirlýsingar forsrh. lýsti sjútvrh. yfir að hann væri búinn að sjá það, að fiskvinnslan stæði nú höllum fótum og það þyrfti sannarlega að gera ráðstafanir og það sem allra fyrst. Hæstv. sjútvrh. hefur gert mjög víðreist, bæði í eigin landi og til annarra landa, og hann hefur haldið marga fundi og sótt margar ráðstefnur. Ég man eftir því, að ein stórfrétt kom í útvarpinu af ræðu hans á Vopnafirði, að mig minnir, þar sem hann sagði að ef ekkert yrði gert í þessum málum til þess að tryggja stöðu atvinnuveganna og berjast gegn verðbólgunni, þá sæi hann ekki að þessi ríkisstj. gæti lifað miklu lengur. En það er aftur komin mikil ró yfir hæstv. ráðh. síðan hann gaf þessa Vopnafjarðaryfirlýsingu. Nú telur hann alveg sjálfsagt að hækka olíugjaldið um 200% því að það þurfi að rétta hag útgerðarinnar.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh. — Ætli það hefði ekki verið hyggilegra fyrir hann að fara að ráðum okkar sjálfstæðismanna í vetur og hreyfa ekki við olíugjaldinu? Þá væri staða útgerðarinnar töluvert önnur núna. Þessi ákvörðun hans og handauppréttingar ykkar hinna sem styðjið þessa ríkisstj., hafa gert það að verkum að útgerðin hefur safnað lausaskuldum upp á marga milljarða kr. og skuldir einmitt vegna olíunnar eru um 12–13 milljarðar. Ástæðan fyrir því er þessi vitleysa sem hæstv. sjútvrh. beitti sér hér fyrir seint í marsmánuði og tók lagagildi með aðstoð þm. stjórnarliðsins fyrstu dagana í apríl.

Hæstv. sjútvrh. getur ekki búist við því, að þeir þm., sem hafa haft hreina og ákveðna afstöðu í þessu máli, geti hringlað eftir duttlungum hans hverju sinni. Ég get ekki greitt atkv. með 7.5% olíugjaldi til útgerðarinnar og það á kostnað sjómanna, ekki af því að ég geri mér ekki ljóst að útgerðin þurfi fullkomlega á þessu að halda, en þeir, sem bera ábyrgðina á því að svipta útgerðina þessum tekjum frá 1. apríl til 1. okt., verða að finna önnur ráð til þess að bæta aftur úr því glapræði sem þeir sjálfir gerðu.

Þegar núv. hæstv. ríkisstj. telur sér það henta vitnar hún óspart í lög um stjórn efnahagsmála o.fl., sem nefnd hafa verið ólafslög. Þegar sagt er upp verkafólki í frystihúsum fer félmrn. í gang og átelur að það sé ekki farið að lögum. En þegar ríkisstj. sjálf brýtur lögin talar hún ekkert um það, þá vill hún helst ekki minnast á það. Ég spyr hæstv. sjútvrh.: Hvað hefur hann og ríkisstj. gert til þess að hafa reglubundið samráð og samstarf stjórnvalda og launafólks, sjómanna, bænda og atvinnurekenda í efnahags- og kjaramálum? Hvert var samstarf ríkisstj. við sjómenn í sambandi við þessa fiskverðsákvörðun? Þetta segir í 3. gr. margumræddra Ólafslaga, og enn fremur segir í 4. gr. þeirra laga:

„Þátttakendur í samráði skv. 3. gr. skulu vera fulltrúar launafólks, sjómanna, bænda og atvinnurekenda og opinberra aðila. Samráðsfundi má halda bæði með fulltrúum einstakra samtaka og fulltrúum ríkisstj. og öllum samráðsaðilum í senn. Skipa skal starfshópa til að vinna að einstökum málaflokkum á vegum ríkisstj.

Í 5. gr. segir að verkefni samráðs skuli vera m.a. að „ræða meginþætti í efnahagsmálum og helstu efnahagsmarkmið ríkisstj. frá ári til árs og til lengri tíma, í því skyni að leggja grundvöll að samræmdum ákvörðunum á sviði opinberra fjármála, peninga- og lánamála, lífeyrismála og verðlagseftirlits af opinberri hálfu, og á sviði kjaramála af hálfu aðila vinnumarkaðarins.“ — Hvað er það samráð sem hefur þá verið haft við sjómenn á sviði kjaramála þegar kjör þeirra eru rýrð með þessum hætti, eins og ég hef gert áður að umræðuefni?

Hagur útvegsins stendur mun verr en vanskilin í sambandi við olíuna gera ráð fyrir, því að það hrannast upp vanskil bæði afborgana og vaxta í helstu stofnlánasjóðum sem sjávarútvegurinn hefur lán frá. Miðað við uppgreiðslu vanskila um miðjan ágústmánuð hjá Fiskveiðasjóði skuldar útgerðin 7 milljarða 331 millj. og vanskilin ná til 309 skipa. Þar af eru skuttogarar 38, loðnuskip 29, skip yfir 100 smálestir 36, undir 100 smálestum 143 og smábátar 64. Þetta eru ekki örfáir aðilar sem skulda. Og þessi tala segir ekki nema hálfa sögu. Afborgun lána fellur yfirleitt 1. nóv. í þessum stærsta stofnlánasjóði sjávarútvegsins og öll eru lán þar verðtryggð, svo að rekstrarstaða útgerðarinnar hefur versnað síðan þetta var tekið saman. Þessi upphæð verður auðvitað miklu hærri þegar kemur að þeim gjalddaga.

Í sama sjóði eru vanskil fasteignalána, miðað við uppgreiðslu eða verðtryggingar, næstum því 4 milljarðar og 100 millj. Ég hef ekki töluna úr Byggðasjóði, en þar er verið að taka þetta saman og mun það liggja fljótlega fyrir. Síðan er eftir að taka saman hvað þjónustufyrirtækin í landinu eiga mikið inni bæði hjá útgerð og fiskvinnslu. Hér er því um alvarlega stöðu að ræða sem ég hef áður gert að umræðuefni. Ég gerði þetta að umræðuefni litlu eftir að núv. ríkisstj. var mynduð. Þá kom þetta ágæta svar hjá forsrh., að þeir yrðu bara að bjarga sér sem hefðu grætt á liðnum árum og borga upp sínar skuldir. Það sýnir mikla þekkingu á atvinnulífi! Sennilega er hún því miður lítið skárri hjá þeim hinum.

Hæstv. sjútvrh. kom inn á það, að sjómenn hefðu margir hverjir haft góðar tekjur með auknum afla. Að vissu leyti er rétt að svo er á aflahæstu skipunum, en því fylgir líka aukin vinna. En heldur hæstv. sjútvrh. að tekjur sjómanna aukist eftir því sem hann fjölgar skrapdögunum? Ég hugsa að það hafi ekki verið gengið eins nærri nokkurri stétt í þjóðfélaginu og sjómönnum á þessu ári. Sjómenn og útgerð hafa orðið að taka á sig þær takmarkanir sem auknar hafa verið frá því sem áður var á veiðum skipa og þá einkum togara og einnig báta, sérstaklega hér, á vertíðartímabilinu. Þetta hlýtur að ganga út yfir bæði útgerð og sjómenn. Heldur hæstv. ráðh. að það verði til þess að bæta afkomu sjómanna og útgerðarmanna að bæta sífellt við flotann og fjölga skrapdögum eða þeim dögum sem skipin eiga að vera bundin við bryggju? Verður það að hans dómi kjarabót fyrir þessa atvinnugrein og fyrir útgerðina í heild? Hver nýr togari þýðir sex dögum lengri stöðvun skipa. Fróðlegt væri að fá frá sjútvrn. upplýsingar um, hvernig það telur að hægt sé að gera út skip eins og togarana á næstu árum miðað við þessar takmarkanir allar. Og er þá ráð að bæta alltaf nýjum skipum við með þessum hætti? Ætlar núv. hæstv. ríkisstj. að halda því áfram? Sumir sögðu fyrir nokkrum árum að maður sá, sem var sjútvrh. 1974–78, væri svo forstokkaður að hann væri að láta drepa síðasta þorskinn, og það átti allur fiskur að vera búinn í sjónum. Allt sem hefur fiskast síðan hafa þá verið afturgöngur! Það hefur þá verið mjög mikið af afturgöngum í sjónum. (Gripið fram í: Og á landi líka.) Já. Eru þær ekki helst í Framsfl.? — Þetta skiptir höfuðmáli fyrir framtíðina og hvað eigi að gerast. Á að halda þessari stefnu eða þessu stefnuleysi áfram? Það er rétt, að nokkur skip hafa verið tekin úr umferð eða gerð ónýt með aðstoð úreldingarsjóðs og aldurslagatryggingar, en það eru yfirleitt ekki skip sem hafa veitt mikið á undanförnum árum.

Hæstv. ráðh. sagði að frystingin fengi núna 60% inn á sína reikninga af 3.6 milljörðum, eða rúmlega 2 milljarða, og hann sagði þetta einhvern veginn með þeim hætti, að ókunnugir mættu halda að þetta fjármagn hefði dottið af himnum niður í hlaupareikninga fiskvinnslunnar í landinu. Þetta er auðvitað fjármagn sem fiskvinnslan á sjálf, því að tekið var of mikið af henni og verið er að skila því aftur. Og fjandinn þakki það! Það hefði mátt koma fyrr og ekki þurft að skapa fiskvinnslunni aukna erfiðleika fram yfirþá erfiðleika sem hún stendur frammi fyrir.

Þegar talað er um mál eins og olíugjaldið og þá miklu bjartsýni, sem hæstv. sjútvrh. leit málin í vetur, held ég að hann hefði mátt vita að í öllu aðgerðaleysi núv. ríkisstj. og vesaldómi hennar í efnahagsmálum mundi gengissigið halda áfram. Það mátti hann vita. Gengissigið hefur ekki orðið til þess að lækka olíukostnað frekar en annan kostnað. Þegar vinstri stjórn var mynduð 1. sept. 1978 var verð á dollar í ísl. krónum 260.40 kr. og verð á vesturþýska markinu 129.14 kr. 14. okt. var verð á dollaranum komið í 539.20 kr., hafði hækkað um 207%, en er núna komið í 543.20 kr. og á næstu dögum fer það í 552 kr. Verðið á þýska markinu hafði hækkað hinn 14. okt. í 297.67 kr. eða um 231%. Þetta eru hressilegar gengislækkanir sem átt hafa sér stað á þessu tímabili, en þær hafa allar verið taldar gengissig nema ein sem framkvæmd var í byrjun valdatíma stjórnarinnar sem mynduð var 1. sept. 1978. Hitt hefur alltaf verið gengissig, gengissig eftir gengissig, sem hefur leitt af sér vaxandi verðbólgu, versnandi stöðu atvinnuveganna.

En það, sem ég er hér að tala um í sambandi við olíugjaldið, er að á sama tíma og allir launþegar fá ákveðnar uppbætur á laun sín hlýtur það að vera fullkomin réttlætiskrafa, sem á að gera til stjórnvalda, að stétt eins og sjómannastéttin búi ekki við önnur kjör. Sjómenn hafa tekið veiðitakmörkunum af miklum skilningi og af mikilli sanngirni. Ég tel það rangt að svara þeim skilningi og sanngirni með því að láta þeirra hlut liggja eftir á sama tíma og verið er að breikka bilið á milli annarra starfshópa í þjóðfélaginu eins og gert var í þeim kjarasamningum sem búið er að gera. Ég tel — og endurtek það — að olíugjaldið eigi ekki að bitna á sjávarútveginum einum. Það á að leggjast á landsmenn alla. Sjávárútvegurinn er undirstöðuatvinnuvegur landsmanna. Það er ekkert meira að þjóðin taki þátt í þeim verðbreytingum, sem verða á olíu, en að hún taki þátt í að rétta við kjör ýmissa annarra stétta og starfshópa í þjóðfélaginu. Ég hygg að það frumhlaup hæstv. sjútvrh. litlu eftir að hann settist í núv. ríkisstj. að lækka olíugjaldið um helming ætti að verða til þess að kenna honum að fara nokkru hægar í sakirnar og hugsa meira og vandlegar um það, sem þarf að gera hverju sinni, en að taka svona ógnvekjandi kollsteypur, eins og hann er búinn að gera nú í þessu máli og því miður mörgum öðrum sem síðar gefst tækifæri til að ræða um.

Ég mun í sjútvn. gera kröfu til þess, að fulltrúar sjómanna og útvegsmanna og aðrir aðilar í sjávarútvegi mæti á fundum n. eða gefi skriflegar umsagnir um þetta mál og því sé ekki hraðað svo að afgreiða málið að það fái ekki eðlilega þinglega meðferð.