18.11.1980
Sameinað þing: 20. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (590)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hver hv. þm. eftir annan kemur hér upp í ræðustól og segir að ríkisstj. svari engu sem hún sé spurð um. Það mætti kannske byrja á því að benda þessum hv. þm. á hvaða mál er hér til umr. Þeir virðast því miður sumir annaðhvort hafa gleymt því eða ekki haft það í huga þegar þeir stigu í stólinn.

Það, sem hér liggur fyrir, er fsp. frá hv. alþm. Þorv. Garðari Kristjánssyni um það, hvort ríkisstj. vilji taka til endurskoðunar fyrirætlanir um breytt verðgildi íslenska gjaldmiðilsins. Þetta er málið sem hér liggur fyrir. Þessu er búið að svara skýrt og skorinort af þeim hæstv. ráðh., sem fsp. er beint til, viðskrh.

Ég vil aðeins endurtaka það hér, sem í rauninni ætti ekki að þurfa, að það er ekki ætlun ríkisstj. né Seðlabanka að breyta þeirri ákvörðun, að nýr gjaldmiðill komi til framkvæmda um næstu áramót, eins og samþykkt hefur verið með lögum á Alþingi og undirbúið nú um langa hríð. Þessari ákvörðun verður ekki breytt og liggja til þess margar ástæður. Ef ætti að fresta því hefði hv. þm. átt að flytja í tæka tíð frv. til l. um breyt. á þeim lögum sem ákvarða þessa gjaldmiðilsbreytingu og hvenær hún skuli koma til framkvæmda. Það eru margar ástæður til þess, að nú er ógerningur að breyta þeirri ákvörðun, enda vafalaust mjög hæpið að gera það.

Ég þarf í rauninni ekki að fara um þetta fleiri orðum. En þegar hér á Alþ. liggja fyrir ákveðnar fsp. með þinglegum hætti, þá rísa þm. upp og krefjast þess að undir þeim sama lið sé svarað alls konar fsp. sem þeir eru að bera fram í umr. Þetta er gjörsamlega óþinglegt atferli.

Varðandi þær tvær fsp., sem þeir hafa borið fram til mín, hv. þm. Halldór Blöndal og Pétur Sigurðsson, er sú krafa borin fram hér, að þeim fsp. sé svarað nú í umr. um allt aðra fsp., allt annað þingmál. Ég held að hv. þm. ættu að reyna að átta sig á þingsköpum. Það er vissulega undarlegt að þingvanir menn skuli leyfa sér slíkar fjarstæður sem þessa. Þessum fsp. báðum, sem nú hafa verið bornar fram með þinglegum hætti, verður að sjálfsögðu svarað þegar þær koma hér á dagskrá. Það liggur fyrir.

Þær fsp., sem krafist er að svarað verði nú, eru sem sagt með ýmsum hætti og fjalla um ýmislegt.

Eitt vil ég þó aðeins minnast á í sambandi við allar þessar sífelldu fullyrðingar um að verðbólgan æði áfram stjórnlaust og vaxandi og ríkisstj. hafist ekkert að. Það, sem nú liggur nýjast fyrir af upplýsingum og birt hefur verið opinberlega, er þetta: Frá byrjun til loka síðasta árs var verðbólgan 61%, en hún var, liðlega 60% þegar ríkisstj. tók við. Eftir síðustu hækkun framfærsluvísitölu, umreiknað til 12 mánaða á ársgrundvelli, er verðbólgan 51%. Með öðrum orðum og það vita allir: verðbólgan er minni nú en hún var á síðasta ári og þegar ríkisstj. tók við. Þetta liggur fyrir, þetta eru staðreyndir. Til samanburðar má benda m.a. hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni á það, að þegar við sátum saman í ríkisstj. sem tók til starfa haustið 1974, þá reyndum við auðvitað að glíma við verðbólguna og fá hana niður, en á fyrstu tólf mánuðum þeirrar ríkisstj. óx verðbólgan um 55%. Ég segi þetta ekki í ádeiluskyni á einn eða neinn, hvorki okkur sjálfa né aðra. Þetta er staðreynd. Þó höfðum við fullan vilja á því og áhuga á því að draga úr henni. Hún fór sem sagt heldur vaxandi þessa fyrstu mánuði, og á tólf fyrstu mánuðum þeirrar ríkisstj. var hún 55%.

En ég vil taka það fram út af þeim fsp. sem nú dynja yfir menn hér undir þessum ákveðna dagskrárlið, fsp. um gjaldmiðilinn, að ég ætla ekki að fara að svara þeim á þessari stundu, mun gera það á sínum tíma þegar þær koma réttilega fyrir. Sem dæmi um það, sem ætlast er nú til að svarað sé, er hvað hugarfarsbreyting íslensku þjóðarinnar kosti. Ég held að hv. fyrirspyrjandi geti gert sér það í hugarlund sjálfur, að svona fsp. er ekki hægt að svara á stundinni. Þó að allir hagfræðingar þjóðarinnar væru settir í gang mundi þeim reynast erfitt að svara því, hvað hugarfarsbreyting íslensku þjóðarinnar í verðlagsmálum muni kosta.