18.11.1980
Sameinað þing: 20. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það mátti helst skilja á hæstv. forsrh. í ræðu hans hér á undan, að ég sem fyrirspyrjandi að fsp., sem hefur verið lögð fram í Sþ., hefði óskað eftir að þeirri fsp. yrði svarað nú. Þetta er hinn herfilegasti misskilningur. Hins vegar á hæstv. forsrh. til þann sérstaka eiginleika að geta látið skína í gegnum orð sín hitt og þetta sem er víðs fjarri sannleikanum.

Það, sem hefur hér átt sér stað, er að hæstv. forsrh. hefur ekki tekið eftir því hvað hefur gloprast út úr hæstv. meðráðherrum hans. Þær umr., sem hér hafa orðið, hafa orðið m.a. vegna yfirlýsinga hæstv. viðskrh. er hann gaf svar við þeirri fsp. sem borin var fram í sambandi við myntbreytinguna. Og ekki nóg með það. Það hefur einnig verið umræða vegna stefnuræðu hæstv. forsrh. sjálfs, sem var send okkur þm. um miðjan október, skömmu eftir að þing kom saman, en í henni eru boðaðar efnahagsaðgerðir í kjölfar myntbreytingarinnar. Því er eðlilegt eftir yfirlýsingu hæstv. viðskrh. að spurningar komi upp hjá þingheimi um hvort sé ekki farið að móta neitt þær aðgerðir sem boðaðar eru — eða hefur hæstv. ríkisstj. ekkert gert í sambandi við þessi mál frá því að hún boðaði víðtækar aðgerðir í baráttu sinni við verðbólguna þegar hún tók við völdum í febr. s.l.? Og er þá nema eðlilegt að ég spyrji að því, hvort einhver svör verði lögð fyrir þá fulltrúa ASÍ sem koma saman og eru fulltrúar 53 þús. Íslendinga, hvort það komi ekkert svar til þeirra um við hverju þeir megi búast af þessari ríkisstj. og ég kalla þetta einu og sömu ríkisstj. allt frá 1978 — til viðbótar við 11.5% kaupmáttarrýrnun frá því í sept. 1978? Þessir menn koma saman á fjögurra ára fresti og eiga skilyrðislaust alla vega siðferðilega kröfu á því að hæstv. ráðh. segi þeim hvaða efnahagsaðgerðir séu fyrirhugaðar.