18.11.1980
Sameinað þing: 20. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (592)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég skil ekki þennan óróleika í hæstv. forsrh. Ég hef ekki spurt hann um það sem liggur skriflegt fyrir.

Ég get rifjað það upp, að ég bar fyrir viku fram stutta fsp. sem hægt var að svara með einu orði, jái eða neii. Ég fékk ekki við þeirri fsp. neitt svar þannig að ég sagðist mundu bera hana fram með skriflegum hætti. Það hefur ekki orðið neinn ágreiningur milli okkar, mín og forsrh., um það mál þótt það sé ekki á dagskrá í dag. Ég vil að það komi fram, að ég hef ekki ítrekað það mál.

Á hinn bóginn vil ég leiðrétta það hjá hæstv. forsrh., að verðbólgan sé ekki nema 51%. Það eru til fleiri vísitölur en þær sem eru greiddar niður með smjöri. Mér skilst að smjörið hafi aldrei komið til Austurlands. Ég veit ekki hvað hv. þm. Egill Jónsson segir um það. Það er hægt að greiða niður vísitöluna með þeim hætti, en verðbólgan er sú sama eftir sem áður. Það er kjarni málsins. Það skildi hæstv. forsrh. áður en hann settist í þessa ríkisstjórn.

Hann var að tala um það áðan að kannske væri ráð að kalla saman alla hagfræðinga og viðskiptafræðinga landsins. Ég held að það sé of seint hvað hann snertir.