18.11.1980
Sameinað þing: 20. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (596)

46. mál, breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. sagði að öllum væri ljós nauðsyn þess að gera ráðstafanir í efnahagsmálum. Ég get verið innilega sammála hæstv. ráðh. um það. Sannast best að segja hélt ég að öllum hefði verið þessi nauðsyn ljós við stjórnarmyndunarviðræðurnar s.l. vetur og stjórnarmyndunarviðræðurnar hefðu átt að snúast um að komast að niðurstöðu um slíkar efnahagsaðgerðir.

Það voru einstaka menn svo auðtrúa, þegar núverandi ríkisstj. var mynduð að halda að til grundvallar henni lægi skilningur á þessari nauðsyn og samkomulag um slíkar efnahagsaðgerðir. En tíminn hefur liðið og í ljós hefur komið að það var ekki komist að niðurstöðu um neinar aðgerðir í efnahagsmálum, þótt nauðsynin væri brýn. Á þriggja mánaða fresti höfum við heyrt framsóknarmenn kalla upp um nauðsyn þessara aðgerða. Við höfum á sama tíma séð Alþb.-menn yppta öxlum og við höfum orðið þess áskynja að þriðji aðilinn í ríkisstj. má ekki mæla, sýna skoðun, er „stikkfrí.“

Þessi leiksýning endurtekur sig í þessum umræðum. Þetta er þriðja umr. um fsp. um myntbreytingu. Lög um myntbreytingu voru í gildi þegar þessi ríkisstj. var mynduð, og auðvitað var það verkefni ríkisstj., þegar hún var mynduð, að gera sér grein fyrir hvaða efnahagsaðgerðir ættu að fara á undan og samhliða þessari myntbreytingu. Ríkisstj. hefur ekki gert skyldu sína að þessu leyti. Í þessum umr. hefur verið spurt um hvaða efnahagsaðgerðum ríkisstj. hygðist standa fyrir. Ekkert svar. Þá var tekið til bragðs að spyrja hvenær þingheimur fengi að vita um ráðagerðir ríkisstj., fengi þingheimur að vita um þær fyrir 1. des., fengi Alþýðusamband Íslands að vita um þetta fyrir 24. nóv. Eftir viku mun ASÍ-þing verða sett og loforð Framsfl. og Alþb. liggur fyrir um að engar efnahagsráðstafanir verði gerðar nema með samþykki verkalýðshreyfingarinnar, ekki eingöngu í samráði við verkalýðshreyfinguna, eins og stendur í málefnasamningi ríkisstj., heldur með samþykki verkalýðshreyfingarinnar. Nú vil ég hafa mjög náið samráð og samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og þ. á m. verkalýðshreyfinguna, en ég vil ekki afsala völdum Alþingis til aðila utan löggjafarsamkomunnar. En þetta loforð liggur fyrir og þess vegna var spurt um hvort fyrirhugaðar efnahagsráðstafanir verði kynntar fyrir þessar dagsetningar, en ekki síst hvort efnahagsráðstafanirnar verði hér til meðferðar á löggjafarþingi fyrir n.k. áramót þegar myntbreytingin fer fram. Ef efnahagsráðstafanir eiga að hafa einhverja þýðingu til hugarfarsbreytingar meðal Íslendinga og myntbreytingin að gera gagn er alveg ljóst að ráðstafanirnar verða að koma á undan myntbreytingunni sjálfri. Við höfum heyrt hæstv. viðskrh. og aðra ráðh. ræða hér fjálglega um að holskeflan 1. des. n.k. verði slík að síðan verði við ekkert ráðið, og enn er spurt: Hvenær fær þingheimur upplýsingar um þessar efnahagsráðstafanir?

Ég held að þögn ríkisstj., hæstv. forsrh. jafnt og hæstv. viðskrh., hæstv. utanrrh., að ég tali nú ekki um ráðh. Alþb., eigi sér skýringu í því, að það er ekkert samkomulag um efnahagsaðgerðir. Hæstv. ráðh. vita ekki sitt rjúkandi ráð.