18.11.1980
Neðri deild: 18. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (613)

33. mál, málefni Flugleiða hf.

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það var hafður töluvert annar háttur á vinnubrögðum fjh.- og viðskn. Nd. en í Ed. Í Ed. var málið lengi til meðferðar, ekki svo mjög innan n., heldur öllu meira í fjölmiðlum: í blöðum, útvarpi og sjónvarpi, mikið sýnt af myndum um leið. En nm. Í Nd. og formaður fjh.- og viðskn. Nd. höfðu þann hátt á að fara eftir gamla laginu. Málin voru rædd innan þeirra veggja þar sem n. sat og kallaðir til þeir menn sem upplýsingar gátu gefið. Ég er sennilega orðinn það fullorðinn, að ég kann betur við þessi vinnubrögð heldur en nýmóðins vinnubrögð þeirra Ed.-manna.

Það er margt sem er gagnrýnisvert í sambandi við meðferð þessa máls. Það er í fyrsta lagi það, að þegar mál eins og þetta, sem þarfnast þess að kalla æði marga til fundar og samræma þarf sjónarmið, þá hefur sú regla almennt gilt hér í Alþ., að nefndir í báðum deildum starfa samtímis til þess að hraða afgreiðslu málsins, og ef sú regla hefði verið viðhöfð, þá væri þetta mál fyrir þó nokkru afgr. sem lög frá Alþingi. Ég tel að með því hafi afgreiðsla þessa máls dregist úr hömlu að óþörfu.

Ég ætla að reyna að komast hjá því að fara inn á þau atriði sem frsm. meiri hl. n. ræddi um. Mig tangar til þess að fara nokkrum orðum um þetta frv. og sérstaklega um ýmsa mjög mikilvæga þætti Flugleiðamálsins, en ég ætla þó að reyna að stytta mál mitt eins og frekast er hægt, því að ég hef mikinn áhuga á því, eins og sennilega flestir þm. d., að afgreiða þetta mál þegar á þessum degi. Það er búið að vera það lengi í meðförum þingsins og þar áður í meðförum ríkisstj.

Ég get ekki tekið undir orð hv. frsm. minni hl., Alþfl., Vilmundar Gylfasonar, að það sé mikilvægt atriði að setja skilyrði inn í þessi frv., skilyrði um það sem búið er að samþykkja og ganga frá, t.d. skilyrði um að setja það í lög, að Norður-Atlantshafsfluginu verði haldið fjárhagslega aðskildu eins og frekast er unnt, skilyrði um að ársfjórðungslega verði ríkisstj. gefið yfirlit yfir þróun og horfur í rekstri Flugleiða og skilyrði um að aukningu hlutafjár ríkisins í 20% verði komið til framkvæmda fyrir næsta aðalfund. Þessi skilyrði hafa Flugleiðir samþykkt þegar og því engin ástæða til þess að setja þau inn í sjálf lögin. Hins vegar get ég vel skilið hv. þm., að hann kvartaði yfir því, að þeir kratar hefðu verið gabbaðir við setningu Ólafslaganna svokölluðu, eins og hann hafði á orði. En það er líka í þeim ágætu lögum, sem honum fannst þá og var mjög ánægður með, — það eru líka ákvæði sem hafa verið þverbrotin þótt þau séu í sjálfum lögunum, svo að þetta er ekki til þess að gera, finnst mér, að ágreiningsefni. Önnur atriði skal ég koma örlítið meira inn á.

Eins og frsm. n. sagði, lýstum við því yfir í nál., Matthías Á. Mathiesen og ég, að við erum andvígir því, að ríkissjóður auki hlutafjáreign sína í félaginu. Við teljum ekki ástæðu til þess, að ríkið sé endilega að auka hlutafjáreign sína í þessu félagi upp í 20%. Það hefur ekki komið fram nein ósk um það fyrr en frá ríkisstj. að gera þetta, og ég sá enga ástæðu til þess að við þurfum endilega að fylgja þeirri beiðni ríkisstj. eftir. Hins vegar hefur stjórn Flugleiða samþ. þetta fyrir sitt leyti.

Um 2. gr., þá hefur þegar verið boðið út það hlutafé sem um er rætt. Vorið 1977 var ákveðin hlutafjáraukning hjá Flugleiðum, en forkaupsréttur fyrri hluthafa að þeim rann út 1. jan. 1978. Sú upphæð, sem nú er boðin út og hefur verið boðin út, er 243 millj. 974 þús. kr., og um þetta hefur stjórn Flugleiða sent bréf til allra starfsmanna félagsins fyrir þó nokkru og þar tilkynnt að hún hafi ákveðið að bjóða starfsmönnum félagsins þessi hlutabréf þannig að hver starfsmaður geti fengið hlut fyrir 200 þús. kr. Og við þetta útboð voru starfsmenn sem höfðu hug á því að kaupa hlutabréf jafnframt beðnir að tilkynna um kaupin fyrir 15. nóv., eða fyrir þremur dögum. Ég hringdi í morgun út á Flugleiðir til þess aðila, sem hefur með þetta að gera þar, og spurði hvað hefði nú selst af þessum bréfum. Svarið, sem ég fékk, var að það hefðu selst til starfsmanna hlutabréf fyrir 6 millj. kr. Áhuginn var ekki meiri en þetta. Kannske er ekki við því að búast að áhugi sé mikill, hvorki hjá starfsmönnum né öðrum, því að félagið hefur verið í brennidepli nú um nokkurra mánaða skeið og hefur komið fram á opinberum vettvangi og haft eftir meira að segja ráðh. í ríkisstj. að það væri mjög dregið í efa að Flugleiðir gætu tryggt þá ábyrgðarbeiðni sem hér liggur fyrir. Slíkt tal allt hlýtur að hafa í för með sér að álit á hag og viðgangi þessa félags hefur rýrnað stórkostlega og þá ekki síður utanlands en innanlands. Þetta sýnir mönnum að það er skaði að því að halda uppi málflutningi eins og margir hafa gert undanfarna mánuði.

Mér er það atveg ljóst og ég tek það fram fyrir mitt leyti, að ég hef margt út á rekstur Flugleiða að setja og vafalaust má gagnrýna með fullum rökum fjölmargt í rekstri félagsins. En það er nú einu sinni þannig, að menn verða að muna eftir því, að það voru starfandi hér tvö flugfélög, Loftleiðir og Flugfélag Íslands, sem háðu harða samkeppni sem mönnum þótti of mikið um. Þó að samkeppni sé góð er hér um takmarkaðan markað að ræða, og það er líka mikilvægt atriði að ekki séu of margir um þennan takmarkaða markað. Hins vegar verður auðvitað að veita þeim, sem fá einhvers konar einkarétt, mikið aðhald þannig að þeir noti sér ekki það að ekki sé samkeppni fyrir hendi. Ríkisvaldið á sínum tíma hvatti mjög til sameiningar þessara félaga. Það var á dögum fyrri vinstri stjórnar Ólafs Jóhannessonar, að samgrn. eða samgrh., sem þá var Hannibal Valdimarsson, beitti sér mjög fyrir þessu og það voru sett skilyrði þá fyrir ábyrgð sem um var beðið. Í bréfi, sem lagt var fram af samgrn. til Flugfélags Íslands og til Loftleiða, bauð ríkisvaldið margvísleg fríðindi ef þessi félög sameinuðust í eitt félag. Þessi fríðindi eða þessi fyrirheit voru kynnt hluthöfum í báðum félögum og þau hafa vafalaust haft mjög mikil áhrif á atkvæði manna í báðum þessum félögum með því að félögin sameinuðust. En í þessu bréfi samgrn. frá júní 1973 segir að hið sameinaða félag fái einkarétt á öllu áætlunarflugi til útlanda. Það er ekkert klipið þarna utan af. Í öðru lagi fái hið sameinaða félag sérleyfi til áætlunarflugs á öllum aðalflugleiðum innanlands. Og í þriðja lagi fái hið sameinaða félag forgangsrétt til leiguflugs til og frá útlöndum eftir því sem við verður komið. Og síðar segir: „Telur rn. ekki neina ástæðu til að gera ráð fyrir að breyting verði á þessari stefnu þótt yfirstjórn félaganna verði sameinuð, nema síður sé. Rn. minnir á að opinber stjórnvöld hafa átt frumkvæði að sameiningartilraunum flugfélaganna og hlýtur rökrétt afleiðing þeirrar stefnu að vera sú, að sameinað flugfélag eða núverandi flugfélög, sem verða undir þess yfirstjórn, verði tilnefnd til að njóta allra þeirra réttinda til reglubundins áætlunarflugs á erlendum flugleiðum sem Ísland hefur samkv. loftferðasamningum og það eða þau vilja nýta.“

Þetta er afdráttarlaus yfirlýsing, afdráttarlaus stefna, sem þáv. ríkisstj. tók, og þessari stefnu hefur ekki verið breytt af ríkisstj. sem komið hafa síðan. Það hefur því komið mönnum á óvart þegar hæstv. samgrh. veitti leyfi til flugrekstrar félagi sem hefur eingöngu stundað fragtflug á þessum tímum. Við þá miklu erfiðleika, sem Flugleiðir eiga við að stríða og hafa átt við að stríða, tel ég hættulegt að fara inn á þessa braut, og í bréfi, sem lá fyrir n., vitna Flugleiðir í yfirlýsingu um að rn. hafi tekið þá ákvörðun að móta nýja stefnu í flugmálum. Ég tók ekki þátt í umr. um skýrslu samgrh. um Flugleiðamálið, en ég hef löngun til þess að hæstv. ráðh. skýri hér á eftir, hvort þetta sé rétt, að samgrn. ætli að móta nýja stefnu, hvort það sé með samþykki, vitund og vilja núv. hæstv. ríkisstj. að það eigi að breyta frá þeirri stefnu sem hefur verið í gildi frá sameiningu félaganna og samkv. loforði ríkisstj. frá 1973. Mér finnst vera mjög mikilvægt atriði að fá um þetta hreinar og skýrar yfirlýsingar, hvort hér sé að vænta einhverra breytinga frá því sem verið hefur.

Mig langar einnig til þess að endurvekja hér spurningar sem hv. þm. Friðrik Sophusson lagði fyrir ráðh. í þessum umr. varðandi Iscargo, þess efnis, hvort þetta félag skuldi opinber gjöld vegna starfsmanna, hvort það skuldi lífeyrisgreiðslur vegna starfsmanna og þá í þriðja lagi jafnframt hvort það hafi staðið í skilum um leigukaupsamning vegna Lockheed Electra vélarinnar. Mér finnst þetta allt mikilvægt og svo jafnframt hitt: Er þetta félag byggt á traustum fjárhagslegum grundvelli? Þarf þetta félag að fara út í flugvélakaup og telur hæstv. ráðh. að það sé hyggilegt nú, eins og Flugleiðir standa, alls ekki með fullnýttan flugflota, að fara yfir í það að leyfa nýjum aðila að keppa um flug á erlendum mörkuðum? Er það líka kannske kveikjan að því, að starfsmenn Arnarflugs fá þann mikla áhuga á að eignast hlutabréf Flugleiða? Hefur þeim verið gefið undir fótinn að fá flugrekstrarleyfi á leið erlendis? Hefur þess verið gætt og er það öruggt að það sé þá ekki um leið verið að þrengja hinn veika rekstrar- og efnahagsgrundvöll Flugleiða? Erum við nær því takmarki að halda uppi samgöngum, bæði innanlands og við önnur lönd, ef við ættum að veikja veikan grundvöll, sem fyrir er, við þær erfiðu samkeppnisaðstæður sem nú er við að etja í flugmálum?

Ég ætla að koma í örfáum orðum inn á Atlantshafsflugið. Ég vil taka það fram, miðað við það öryggisleysi og þann mikla hallarekstur, sem er á þessu flugi, að ef ekki er séð að hér verði stórfelld breyting á til batnaðar, þá er auðvitað ekkert vit í því fyrir jafnlitið félag og Flugleiðir eru að halda áfram þrotlausri keppni við risana sem eru á þessari flugleið. Því held ég að það eigi ekki að verða ágreiningsmál, hvorki á milli Flugleiða og ríkisstj. né Flugleiða og Alþ., að fara þarna mjög varlega. Við eigum auðvitað að leggja kapp á að halda uppi flugi til Norðurlanda og til Bretlands og frá Íslandi til Bandaríkjanna. Um það deilum við sjálfsagt ekki, ekki nokkur maður. Og vitaskuld verður að nýta eins og hægt er aðra leiguflugsmöguleika fyrir Flugleiðir og þá fyrir aðra ef Flugleiðir geta ekki fullnýtt þá möguleika. En Flugleiðir hafa þetta loforð og við þetta loforð verður að standa, a.m.k. er ekki hægt einn góðan veðurdag að segja: Nú höfum við gersamlega skipt um stefnu, rétt eftir að við erum búnir að ábyrgjast stórt lán fyrir þetta félag, því að það er ekki grundvöllurinn til þess að þá sé hægt að standa við ábyrgðina. Á þetta vil ég sérstaklega benda.

Það hefur ekki komið fram, held ég, í þessum umr. og er því nauðsynlegt að taka það fram, vegna þess hvað oft er talað um að örfáir stórir aðilar eigi hlutabréf í Flugleiðum, — og víst er það rétt, það eru stórir aðilar í þeim hópi, — en við skulum ekki gleyma því, að hluthafar í Flugleiðum eru um 3000 talsins. Þetta er ekki lokað félag, síður en svo, og hafa allir Íslendingar getað nú, frá því að hluthafar neyttu ekki forkaupsréttar síns, frá 1. jan. 1978 getað keypt bréf í Flugeiðum. Flugleiðir eru opið félag fyrir alla landsmenn. Ég sá í nýkomnu starfsmannablaði Flugleiða, sem þeir kalla Flugpóstinn, að meira en 50% hlutafjár, eins og það er núna, sé í eign starfsmanna félagsins. Þá er þar auðvitað átt við bæði núv. og fyrrv. starfsmenn.

Í sambandi við 3. liðinn hef ég litlu við að bæta þær ágætu skýringar sem frsm. meiri hl. n. gaf, en ég vil aðeins benda á það, að ég lít ekki svo á að þetta skilyrði sé svo afdráttarlaust, að ef þeir hluthafar, sem kjörnir voru í fyrra í stjórn Flugleiða, vilja ekki segja af sér á aðalfundi í vetur eða vor, þá vitaskuld halda þeir samkv. samþykktum félagsins sæti í stjórninni þangað til þeir eiga samkv. samþykktum félagsins að ganga úr stjórn. Stjórn Flugleiða hefur bent á þetta atriði, en hún er aftur reiðubúin að vinna að því, að þessi breyting verði gerð og þannig komið til móts við óskir ríkisstj.

Um 6. liðinn í till. ræddi frsm. mjög ítarlega og þar hef ég litlu við að bæta. Ég vil aðeins segja það, að ég tel að það komi mjög til greina að takmarka heimild hluthafa til meðferðar á hlutum í félögum, en það verður ekki gert með því að setja einhverju einu hlutafélagi slík skilyrði. Það finnst mér vera fráleitt. Ef menn hugsa sér að koma í veg fyrir hringamyndanir verður að setja löggjöf um hringamyndanir. Ég persónulega er mjög opinn fyrir því að slík löggjöf sé sett. Þessu vil ég aðeins bæta við það sem frsm. kom inn á áðan.

Í sambandi við 4. skilyrðið segir hér: „Nm. eru sammála um að Starfsmannafélagi Arnarflugs sé gefinn kostur á að kaupa hlut Flugleiða hf. í Arnarflugi.“ Matthías Á. Mathiesen, sem er veikur og getur því ekki tekið þátt í þessum umr., tekur fram að óeðlilegt sé að gera þær kröfur til fyrirtækis, sem leitar aðstoðar ríkisins, að það selji eignir sínar nema til þess að bæta fjárhagsstöðu eða koma fram stefnumótun löggjafans. En að því tilskildu telur hann eðlilegt að starfsmönnum viðkomandi félags sé gefinn kostur á að kaupa hlutabréf. Ég vildi ekki vera með í þessari bókun og vildi eiginlega gjarnan að þessi bókun hefði ekki komið fram, þó að ég geti tekið undir orð Matthíasar Á. Mathiesens, að það er óeðlilegt, þegar maður kemur í banka og biður um lán, að bankastjórinn segi við hann: „Já, þú skalt fá tánið, góði minn, ef þú selur honum vini mínum bílinn þinn“ — eða eitthvað þess háttar — „þá er allt í lagi að fá lánið.“ Þess vegna tek ég auðvitað undir það, að þetta skilyrði er óeðlilegt. Hitt er annað mál, og þá kem ég inn á það, hvers vegna ég vildi ekki vera með sérstaka bókun þarna í nál., að með tilliti til þess loforðs, sem tá fyrir frá stjórnvöldum frá 1973 og ég las upp áðan, fengu Flugleiðir, eða réttara sagt hafði Flugfélag Íslands þá allar aðalleiðir hér innanlands, allar leiðir sem gáfu einhverjar verulegar tekjur. Flugfélag Íslands sóttist ekki eftir mögru leiðunum. Þær voru sumar að vísu ekki til í byrjun, það voru ekki flugvellir á öllum þessum stöðum, en það sóttist aldrei eftir því að fá þessa minni staði og keypti aldrei til þess minni flugvélar fyrir styttri flugbrautir. Þess vegna álít ég að sú stefna liggi algerlega fyrir, að Flugfélagið hafi fengið sitt í þessum efnum og þurfi því ekkert að seilast eftir öðru. Og með tilliti til þess, að ég er trúr þeirri skoðun, að stórir aðilar eigi ekki að ráða algerlega ferðinni, þá tel ég langt frá því að vera óeðlilegt að Flugleiðir selji hlutabréf sín Arnarflugi. En hins vegar tel ég að Flugleiðir eigi ekki að selja hlutabréf sín í Arnarflugi nema þeim sem býður best, því að þeim veitir sannarlega ekki af að fá hæsta söluverð þeirra bréfa og sem allra fyrst greitt út. Þetta var ástæðan fyrir því, að ég var ekki þarna með bókun eins og Matthías Á. Mathiesen, því að ég tel að Flugleiðir hafi ekki sóst eftir þessum fámennari leiðum, ef má svo að orði komast, og því geti þær látið sér nægja það sem þær hafa í þessum efnum. Ég tel að það sé engin nauðsyn á því, að þær séu endilega að sækjast eftir því að eiga þetta félag, það séu ýmsir aðrir aðilar í þessu landi, sem hafa unnið ágætt og merkt starf í flugmálum, sem megi í þessu tilfelli einnig títa á og jafnvel betur en gert hefur verið.

Þegar við lítum á afgreiðslu fjh.- og viðskn. Nd., þá má kannske segja, þegar menn líta yfir nál. frá Ed., að ákvæðin séu mun mildari eins og Nd. gengur frá þeim, en þá er því við að bæta, að þá er komið svar frá Flugleiðum og Nd. gafst líka ráðrúm til þess að leita upplýsinga og skýringa, eins og formaður n. gat um áðan.

Ég sagði áðan, að ég ætlaði ekki að flytja um þetta langt mál. Ég vildi aðeins koma þessum aths. fram og ósk um það, að hæstv. ráðh. svari þessum spurningum mínum, því að ég tel að þetta mál sé búið að vera nógu lengi fyrir Alþ. og nauðsyn sé á því að Alþ. afgreiði málið. Ég vona að það verði afgreitt með þeim hætti, að þessi mikilvæga starfsemi bíði ekki hnekki, því að ef hún gerir það, þá bíða flugsamgöngur í landinu almennt mikinn hnekki og það getur skapast alvarlegt ástand ef þetta félag getur ekki haldið áfram eðlilegum rekstri.