18.11.1980
Neðri deild: 18. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (614)

33. mál, málefni Flugleiða hf.

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að verða ekki til þess að fresta og tefja afgreiðslu þessa máls sem hér er til umr. Ég ætlaði raunar að beina nokkrum spurningum til hæstv. samgrh. og hann kannske heyrir til mín.

Ég er tvímælalaust þeirrar skoðunar, að afgreiðsla á þessu máli, eins og nú er, sé orðin bæði brýn og nauðsynleg. Þó finnst mér mikið á skorta að þm. hafi fast land undir fótum þegar þeir afgreiða þetta mál nú. Ástæðan fyrir því er einföld og hv. þm. Matthías Bjarnason nefndi þar nokkur atriði sem brýna nauðsyn ber til að fá á hreint.

Ég vil beina þeirri fsp. til hæstv. samgrh., hvort í hans rn. sé í raun og veru farið að starfa að stefnumótun í flugmálum Íslendinga. Ég vil benda á nokkur atriði sem nú liggja ljós fyrir. Flugleiðir eiga í umtalsverðum fjárhagsörðugleikum, sem þingið hyggst leysa úr að nokkru leyti. Á sama tíma og Flugleiðir eiga við þessa erfiðleika að stríða er það eitt af ákvæðum þess frv., sem hér liggur fyrir, að Flugleiðir selji Arnarflugi hlutabréf sín eða starfsmönnum Arnarflugs. Það hlýtur að gefa það til kynna að hugmyndin sé að Arnarflug starfi áfram. Og á hvaða grundvelli gerir það það? Það hlýtur auðvitað að gera það á þeim grundvelli, að félagið fái einhverjar áætlunarleiðir, annaðhvort í áætlunarflugi eða leiguflugi. Ég vil benda á það, að krafa um sölu á hlutabréfum í þessu tilviki jafngildir þeirri kröfu, að Arnarflug starfi áfram í samkeppni við Flugleiðir.

Ég vil í þriðja lagi benda á það, að nýverið var flugfélaginu Iscargo veitt flugrekstrarleyfi og auk þess nú fyrir skömmu leyfi til áætlunarflugs til Amsterdam. Það er kannske rétt að benda á það, að hluti af eignum þessa félags er nú á nauðungaruppboði. Ég fæ ekki betur séð en að stefna samgrn. þessa stundina sé sú, að á Íslandi starfi þrjú flugfélög. Ef þetta er sú stefna í flugmálum sem samgrn. hyggst móta, þá er, á sama tíma og reynt er að bjarga Flugleiðum úr þeim erfiðleikum, sem félagið á við að stríða, verið að skafa utan af þeim möguleika sem flugfélagið á til þess að bjarga sér sjálft. Þetta er ekki stefna, þetta er stefnuleysi.

Þessi atriði þurfum við að fá á hreint vegna þess að Flugleiðamálið mun að mínum dómi koma inn í sali þessarar háu samkundu, löggjafarsamkundunnar, snemma á næsta ári þegar það fjármagn, sem nú er verið að hjálpa félaginu með, er uppurið. Það gerist fljótleg a á næsta ári, ef mönnum er það ofarlega í huga að halda áfram Norður-Atlantshafsfluginu frá Lúxemborg, eins og mér heyrist á þeim sem hér hafa talað og mestu ráða um þessi mál.

Ég hef lýst þeirri skoðun minni og það hefur verið rauði þráðurinn í öllu mínu máli í sambandi við Flugleiðamálið, að Norður-Atlantshafsflugið sé dauðadæmt flug, eigi enga framtíð fyrir sér og það sé nákvæmlega það sama og að henda peningunum út um gluggann að reyna að styrkja það flug. Ég er þeirrar skoðunar, að jákvæðu hliðarnar á Norður-Atlantshafsfluginu í þeirri mynd, sem hæstv. samgrh. vill að verði stuðlað að, sé í þá veru að fluginu verði haldið áfram ekki mikið breyttu frá því sem verið hefur undanfarin ár. Þetta er óráðsía og þetta er rangt. Þetta er rangt mat á þeim staðreyndum sem fyrir liggja um afkomu — ekki bara Flugleiða á þessari flugleið, heldur allra flugfélaga sem þar fljúga, að undanteknu líklega einu, þ.e. Laker-fyrirtækinu.

Ég vil auk þess benda á að talað er um atvinnuöryggi stórs hóps manna í sambandi við það að halda áfram Norður-Atlantshafsfluginu. Þetta atvinnuöryggi er atvinnuöryggi hálaunahópa Flugleiða. Þetta er það ljóta í þessu dæmi, vegna þess einfaldlega að sá samdráttur, sem þegar hefur orðið hjá Flugleiðum, hefur bitnað harðast á hinu óbreytta starfsfólki, t.d. ræstingarkonunum sem hljóðlaust hafa unnið sín störf í 10–15 ár hjá félaginu. Þar hefur samdrátturinn þegar orðið, því fólki hefur þegar verið sagt upp og þar verður ekki um fjölgun að ræða þótt ríkisvaldið hlaupi undir bagga með Flugleiðum núna. Það, sem ríkisvaldið er að gera, er að halda uppi atvinnu þeirrar stéttar sem hæst hefur launin hjá félaginu. Þetta er það ljóta í dæminu.

Ég vil einnig benda á það vegna þeirrar kröfugerðar og þeirra skilyrða sem Flugleiðum eru sett með þessu frv. og ég er að mörgu leyti mótfatlinn, að ég minnist þess ekki, að á hinu háa Alþ. hafi ríkisvaldið hlaupið undir bagga með atvinnugreinum — samgöngur eru atvinnugrein — t.d. landbúnaði, sjávarútvegi, iðnaði, þegar illa hefur árað, með skilyrðum sem eru nokkuð í líkingu við þau sem hér liggja fyrir. Eða hafa skilyrði fylgt ákvörðunum í fjárl. um útflutningsuppbætur? Svari sá sem kann skil á því. — Þetta er auðvitað fáránlegt. Allt þetta mál frá upphafi er fáránlegt. Frá því að þetta mál kom hér til umr. á þingi er búið að þyrla upp slíku moldviðri í málinu gagnvart einstaklingum og fyrirtækinu sjálfu að það mun vera dæmafátt í sögu þingsins á undanförnum árum.

Ég vil segja þá skoðun mína afdráttarlausa, að flugið, eins og raunar hv. frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. greindi frá, yfir Norður-Atlantshaf er vitleysa. Það er vitleysa að halda áfram stuðningi eða hefja stuðning við það flug vegna þess, eins og hann sagði sjálfur orðrétt, ef ég man nákvæmlega, að „það mun koma inn á borð þessarar hv. samkundu mjög fljótlega aftur.“ Þá er spurningin einfaldlega sú, hvort hv. þm. Halldór Ásgrímsson er að stuðla að því með forustu í þessu máli í þeirri virðulegu n., sem hann gegnir formennsku í, að við förum nú að byrja á nýju útflutningsuppbótakerfi, því ekkert er þetta annað. Og það, sem hlýtur að liggja ljóst fyrir einnig er að ef Alþ. ætlar fljótlega að veita enn meiri stuðning til Flugleiða, sem hlýtur að gerast á næsta ári, einfaldlega vegna þess að Lúxemborgarmenn hafa bundið sinn stuðning við heitt ár, þá getum við ekki látið okkar eftir liggja í þeim efnum, — ef það á svo að koma hér inn í þessa hv. stofnun, þá hljótum við að verða að samþykkja frekari stuðning ef eftir honum verður óskað. Það gefur auga leið. Ég hef varað alvarlega við þessum þætti málsins og einfaldlega kannske vegna þess að forráðamenn Flugleiða hafa sjálfir viðurkennt það, bæði með ákvörðun sinni um að fella þetta flug niður og í þeim ummælum, sem þeir hafa látið eftir sér hafa, að þetta flug sé vonlaust. En ríkisvaldið vill halda því áfram og svo skal það vera.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umr. Ég vil fá afdráttarlaus svör frá hæstv. samgrh. um það, hvort mótun flugmálastefnu sé komin eitthvað á veg og hvort hún sé þá í þeim anda sem þegar liggur fyrir, þ.e. þrjú flugfélög með flugrekstrarleyfi sem hafa heimildir til þess að fljúga millilandaflug til ýmissa staða í heiminum, á milli Íslands og annarra landa, og hvort það sé raunveruleg a stefnan, að svo eigi að vera áfram, á sama tíma og verið er að reyna að aðstoða fyrirtæki sem varð eitt, Flugleiðir, vegna þess að ríkisvaldið beitti sér fyrir samruna tveggja flugfélaga á sínum tíma. En nú virðist vera að vaxa á þessu nokkurt æxli og minnir mig á amöbur, þau dýr sem eru býsna klók við að æxlast og fjölga sér.