18.11.1980
Neðri deild: 18. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (616)

33. mál, málefni Flugleiða hf.

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þau svör sem hann gaf, en vil þó leiðrétta örfá atriði.

Hann sagði að ég væri þeirrar skoðunar, að það væri óæskilegt að Flugleiðir hefðu jafnfjölbreytta starfsemi og þær hafa. Það, sem ég sagði til viðbótar því, sem hv. frsm. meiri hl. n. gerði að umræðuefni, var í sambandi við 6. skilyrðið, að ég væri alfarið á því að setja löggjöf sem hindraði að hér væri um hringamyndanir að ræða. Þá átti ég ekkert frekar við Flugleiðir en marga aðra aðila í landinu. Það voru ekki orð mín, að Flugleiðir mættu ekkert reka nema flugvélar eða eiga nema flugvélar. Ef það er annar skyldur atvinnurekstur sem tryggir betur rekstur einhvers fyrirtækis, þá sé ég ekkert athugavert við það. Það er það sem ég á við með þessu. En ég er alfarið opinn fyrir því, að slík löggjöf sé sett og þá almennt.

Hæstv. ráðh. sagði að hann hefði ekki í huga að þrengja að Flugleiðum í áætlunarflugi. En síðan kom aftur annar kafli þar sem hann segir að nauðsynlegt sé að veita Flugleiðum samkeppni. (Gripið fram í: Það kann að vera nauðsynlegt.) Kann að vera, já. Í næstsíðasta kafla ræðunnar gerir ræðumaður síðan mjög að umræðuefni jafnvel að Flugleiðir okri á fargjaldi milli Íslands og Bandaríkjanna eða a.m.k. selji óhæfilega dýrt. Það, sem ég á við, er þegar ráðh. talar um að það kæmi helst til greina ríkisrekstur flugfélags eða þá að starfslið eigi flugfélag. Hvers vegna má ekki almenningur í landinu eiga samgöngufyrirtæki eins og flugfélag með frjálsum framlögum? Ég sagði áðan og vitnaði þar í starfsmannablað Flugleiða, að eigendur að yfir 50% hlutabréfa væru núv. eða fyrrv. starfsmenn. Það eru sennilega fá félög á landinu þar sem starfsmenn eiga jafnmikil ítök. Ég vitnaði líka í það, að Flugleiðir eru ekki félag örfárra manna. Þetta er félag 300 hluthafa, sbr. upplýsingar í blaði félagsins.

Við skulum ekki fara að eyða tíma í umr. um ríkisrekstur og einkarétt. Ég held að þó ríkisrekstur sé, megi ýmislegt út á hann setja. Hæstv. ráðh. veit að ég og fleiri erum ekki sérstaklega ánægðir með margvíslegan samdrátt í þjónustu t.d. Pósts og síma. Við höfum rætt það á öðrum vettvangi, ég ætla ekki að eyða tíma í það. Þetta eru því ekki alveg heilagar kýr, þó að rekið sé af ríkinu, nema síður sé.

Við vitum að víða a.m.k. í Evrópu hafa stjórnvöld tekið þá ákvörðun að fela einu félagi allt áætlunarflug til og frá viðkomandi landi. Þetta er staðreynd hvað t.d. snertir bæði Írland, Belgíu, Holland, Sviss, Austurríki, Finnland og frændþjóðir okkar þrjár: Dani, Norðmenn og Svía. Þar er einn aðili fyrir þrjú lönd. Svo á í þessu litla landi að vera nauðsynlegt að það séu tveir eða fleiri aðiljar sem eigi að annast þetta flug í harðri samkeppni, eins og við horfðum upp á fyrir æðimörgum árum á milli Loftleiða og Flugfélags Íslands.

Hæstv. ráðh. sagði að Flugleiðir hefðu ekki sinnt flutningum á milli Hollands og íslands og því væri ekkert óeðlilegt að Iscargo hefði fengið þetta leyfi. Það veit hæstv. ráðh. og það vitum við öll hér, að það er ekkert verkefni fyrir heila flugvél að annast flutninga á milli Hollands og Íslands, svo að þetta eru engin rök. Þetta þýðir auðvitað í reynd, að annaðhvort gengur þessi rekstur ekki hjá Iscargo eða þá hitt, að þeir verða að fá frekari leyfi til farþegaflutninga til þess að þessi rekstur geti staðið undir sér. Það er talað um að félagið kaupi vélar. Síðan er aftur skilyrði að Flugleiðir selji vélar. Þetta fer að verða undarlegur sósíalismi, og ég er hræddur um að afi hans Vilmundar, sem hér situr á Alþ., hefði kallað þetta á sínum tíma „sósíalisma andskotans,“ eins og hann orðaði það við annað tækifæri.

Ég sagði áðan að ég ætlaði ekki að verða til þess að lengja þessar umr. Ég endurtek þakkir mínar til ráðh., en ég taldi óhjákvæmilegt að gera þessar aths. við málflutning hans.