20.10.1980
Neðri deild: 4. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

17. mál, olíugjald til fiskiskipa

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að halda ítarlega ræðu við 1. umr. þessa máls. Hv. 1. þm. Vestf. skýrði frá afstöðu okkar sjálfstæðismanna, sem eigum sæti í hv. sjútvn. þessara deildar, og skýrði hann að sjálfsögðu rétt frá í öllum atriðum. En ég held að fyrst hæstv. sjútvrh. sér ekki ástæðu til að svara einu einasta orði af því, sem hér hefur komið fram, sé rétt að rifja nokkuð upp miklar umr., alla vega benda þm. á þær miklu umr. sem urðu hér í hv. Nd. á s.l. vetri og reyndar í Sþ. einnig þegar verið var að ganga á núv. hæstv. ríkisstj. og að sjálfsögðu um leið þá aðila hennar, sem höfðu átt sæti í fyrri vinstri stjórn, um það að efna nokkuð af þeim loforðum sem þeir höfðu gefið þegar kjör sjómanna voru skert árið 1978 af vinstri stjórninni sem þá tók við. En það var öllum kunnugt, að loforð um þá ómerkilegu mútupakka, sem bornir voru þá á borð fyrir sjómenn höfðu verið svikin og voru ekki efnd nema að litlu leyti á yfirstandandi ári.

Það má vera að einmitt vegna þeirrar linkindar, sem sjómannasamtökin hafa sýnt á þessu tveggja ára tímabili, standi þau nú frammi fyrir því að þurfa á næstu dögum og næstu vikum að grípa til þeirra ráðstafana sem t.d. önnur launþegasamtök í þessu landi, sem hafa í forustu sinni þæga þjóna núv. hæstv. ráðh., hafa hvorki þorað, viljað né getað beitt sér fyrir — sem sagt fyrir hagsmuni sinna félagsmanna — og það verði sjómannasamtökin sem verði að gera það nú á næstunni til þess að mótmæla því frv. sem hæstv. sjútvrh. með stuðningi allrar ríkisstj. leggur á borð fyrir Alþ. þegar það kemur saman, — frv. sem gengur í þá átt að taka upp í þriðja sinn á yfirstandandi ári breytingu á olíugjaldi sem tekið er af óskiptum afla hjá útgerðinni.

Að sjálfsögðu verður það ekki mitt að taka ákvörðun um þetta. Það verður þeirra sjálfra sem við þetta búa. Það vill svo til að undirmenn á flotanum eru að koma saman til að halda þing sitt í þessari viku. Að sjálfsögðu mun ég fara þess á leit við hv. formann sjútvn. þessarar d. að málið verði sent þessu þingi, sem hefst á fimmtudaginn kemur, þannig að fulltrúar allra undirmanna félaga sjómanna hér á landi hafi tækifæri til að tjá hæstv. ráðh. þakklæti sitt fyrir þetta frv.

Ég sé að hv. þm. Karvel Pálmason er að fara úr salnum. (KP: Nei, hann er hérna.) Hann er hérna. Það er gott. Þú heldur þig réttu megin. Hann sá ástæðu til þess að ræða nokkuð um kjör formanns í þeirri n. sem við eigum sæti í. Það er gott, þykir mér, að hjá honum sjálfum er vaxandi trú á hv. 1. þm. úr hans eigin kjördæmi, Matthíasi Bjarnasyni. En aðeins fyrir nokkrum mánuðum bar hann ekki sama traust til þessa þm., því að hann greiddi honum ekki atkv. þegar ég stakk upp á honum sem formanni í þessari n., heldur kaus hann þá núv. formann, fulltrúa kommúnista í n., kommúnistaflokksins. (KP: Þetta hefur alveg snúist við.) Þetta hefur alveg snúist við. Alveg nákvæmlega sama hefur komið fyrir í hans eigin flokki. Það var uppáhaldstal þeirra krata fram eftir öllum vetri að tala um klofning í Sjálfstfl. Nú er Alþfl. klofinn alveg niður í rætur og þeir sjá ekki út fyrir þá baráttu sem stendur fyrir dyrum í sambandi við eigið formannskjör. Það er ekkert ósvipað.

En ég mun nú ekki og vil ekki ganga jafnlangt og hv. þm. Karvel Pálmason og gera hv. þm. Garðari Sigurðssyni þegar upp skoðanir um afstöðu hans í sambandi við þetta frv. Þótt hann hafi talað við blaðamann Vísis eða einhvers dagblaðs annars á þann hátt sem hv. þm. Karvel Pálmason var að vitna til er hann vanur að íhuga sitt mál vel, hv. þm. Garðar Sigurðsson, og hann hefur tekið nokkurt tillit til félaga sinna á flotanum og skoðana sem þar koma fram. Ég hef því enn þá von um að hann eigi eftir að standa með þeim í þessu máli, sem auðvitað hlýtur að vera hagsmunamál þeirra að fá út úr heiminum — sem sagt að fella — þetta frv., sem hljóta og eiga að verða örlög þess ef hæstv. sjútvrh. sér ekki sóma sinn í því að draga það til baka.

Ég skal ekki fara frekar út í umr. um frv. að sinni. En vegna orða, sem komu fram í ræðu ráðh., bendi ég á mál sem kom upp á í þeim umr. sem urðu um kjör sjómanna á s.l. vetri. Það hefur reyndar komið fram og kom fram í ræðu hæstv. ráðh., að aukinn afli sjómanna, sem m.a. stafaði af nýjum og góðum tækjum, hefði haft í för með sér meiri vinnu. Þetta er alveg rétt. Um þetta hefur staðið mikill styrr á undanförnum mánuðum og jafnvel árum. En það hefur aldrei fengist neitt svar við því, hve mikil þessi aukna vinna væri og hve mikil hún væri fram yfir vinnu annarra þegna þjóðfélagsins, sem hafa fylgt sjómönnum að í tekjum.

Það var lögð fsp. fyrir hæstv. sjútvrh. á s.l. vetri og hann treysti sér ekki þá til að svara nema hluta þeirrar fsp. Ég spurði þá m.a., með leyfi forseta, hæstv. ráðh. um hver væri lögbundinn vinnutími háseta á þessum skipum á árinu 1979 miðað við meðatúthaldsdaga, — það er átt við skuttogarana. Ég spurði einnig hver væri fjarverutími þeirra frá heimilum sínum vegna vinnu sinnar, hver væri vaktavinnutími þeirra meðan skipið væri að veiðum. Ég spurði líka um hvort rn. hans hefði upplýsingar um fjölda unninna yfirvinnustunda á þessum skipum, þ.e. vinnustundir fram yfir lögbundinn vinnutíma. Og að síðustu bað ég um samanburð við nokkra vinnuhópa í landi, þ. á m. hafnarverkamenn í Reykjavík, sem er oft vitnað til, og jafnframt bað ég um samanburð við verkamenn sem vinna við virkjanir í óbyggðum, m.a. vegna fjarveru þeirra frá heimilum sínum. Þessum spurningum gat hæstv. ráðh. ekki svarað á s.l. vetri. Hann kemur hér enn þá fram á Alþ. og heldur fram þessari dómadagsvitleysu, sem hann og aðrir hafa haldið fram, að hægt sé að bera saman laun manna án þess að hafa þann grundvöll til þess að byggja á sem er vinnutími manna. Hann er sú fórn sem mennirnir verða að færa fyrir þær tekjur sem þeir fá í sínar hendur. Þetta er auðvitað ekki hægt. Það er ekki sama hvort maður vinnur hjá Tryggingastofnun ríkisins frá hálftíu á morgnana til hálffimm á daginn fyrir sömu laun og togarasjómaður sem starfar í 12 tíma á sólarhring og er fjarverandi dögum og vikum saman svo mánuðum skiptir á árinu. Auðvitað er út í hött að koma með svona samanburð.

En vegna þess að hæstv. dómsmrh. situr enn í sæti sínu, þá var í framhaldi af þessari fsp. til sjútvrh. borin fram fsp. til dómsmrh. á síðasta þingi, sem ég skildi vel að hann hefði þá ekki tíma til að svara, en hún verður væntanlega endurnýjuð. Hún var um það hvað hæstv. dómsmrh. hygðist gera varðandi brot á lögum um hvíldartíma á íslenskum botnvörpuskipum, sem nú er upplýst að eigi sér stað á hluta skuttogaraflotans. Að sjálfsögðu á ekki að þurfa að koma með neina nýja fsp. til að brýna hæstv. dómsmrh. í þessu máli. Það er vitað mál og það hefur verið viðurkennt, það var viðurkennt í samningaviðræðum á Vestfjörðum á s.l. vetri, að lög í þessu efni voru þverbrotin, margbrotin, og eru brotin enn þá.

Ég endurtek ósk mína, herra forseti, til formanns sjútvn. um þetta mál, að samtök sjómanna fái tækifæri til að láta álit sitt í ljós á því áður en því verður húrrað í gegnum þingið, enda er ég ekkert að efa að hæstv. sjútvrh. og ríkisstj. í heild vilji það. — Ríkisstj. hefur haft það sér til ágætis nokkuð að hafa fullt samráð við verkalýðshreyfinguna, sbr. Ólafslög, og með þeim góða árangri, sem þegar er kominn í ljós, að það hefur verið hægt að sitja á réttmætum kröfum þeirra, rýrnandi kaupmætti og samningsleysi í marga mánuði, eða allt frá því að loforðalýðurinn óð uppi vorið 1978 með upphrópanirnar miklu um samningana í gildi, aukinn kaupmátt et cetera, et cetera.