19.11.1980
Efri deild: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (642)

107. mál, manntal 1981

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í lögum frá 1920 um manntal á Íslandi er ákveðið að taka skuli almennt manntal um land allt þau ár er ártalið endar á 0, og skal það fara fram 1. desember. Aðalmanntöl voru tekin á 10 ára fresti frá 1920–1960 samkv. þessum lögum. En manntal var fellt niður árið 1970 samkv. sérstakri lagaheimild. Ástæðan til þess var sú, að talið var að með tilkomu þjóðskrár hefðu aðstæður breyst þannig að ekki væri lengur þörf á manntali, enda spöruðust við það opinber fjárútlát.

Eins og búist var við kom í ljós að upplýsingar þjóðskrár um mannfjölda og skiptingu hans eftir aldri, hjúskaparstétt, stöðum á landinu o.fl. reyndust fullnægjandi og þurfti ekki að taka manntal þessara upplýsinga vegna.

Þegar til kom skorti hins vegar mikið á að fyrir lægju upplýsingar um atvinnu, menntun og húsnæði landsmanna, er gætu komið í stað upplýsinga um þessi atriði sem fengjust með manntalsskráningu. Hér hefur verið um að ræða tilfinnanlegan upplýsingabrest, og niðurstaðan hefur aðallega af þessum sökum orðið sú, að almenn eining muni nú vera um það hjá þeim sem kunnugir eru þessum málum, að nauðsynlegt sé að taka manntal í meira eða minna hefðbundnu formi á næsta ári.

Manntal samkvæmt lögunum frá 1920 hefði átt að fara fram 1. des. nú í ár. Hins vegar er talið æskilegt að færa manntalsdaginn aftur um tvo mánuði, eða til 31. jan. 1981, aðallega í því skyni að íbúaskrár miðað við 1. des. 1980 frá þjóðskránni verði tiltækar sem hjálpargögn við manntalsskráninguna. Til þessa flutnings manntalsdags hefði þurft lagabreytingu. Þar við bætist að gerbreyttar aðstæður síðan manntalslögin frá 1920 voru sett gera óhjákvæmilegt að sett verði sérstök ný lög með breyttum og nýjum ákvæðum um það manntal sem nú stendur fyrir dyrum. Nú er lagt til með þessu frv. að sveitarstjórnir annist framkvæmd manntals 1981 allsstaðar á landinu. Samkv. lögunum frá 1920 var það bæjarstjórnar að gera það í kaupstöðum, en annars staðar á landinu var þetta hlutverk sóknarprests. En við tilkomu þjóðskrár 1953 tóku sveitarstjórnir að fullu við umsýslu almannaskráningar af prestunum auk þess sem sveitarstjórnir eiga mikilla hagsmuna að gæta í sambandi við skráningu mannfólksins.

Við undirbúning manntals á árinu 1981 hefur Hagstofan haft samráð við ýmsa aðila sem samkv. eðli máls eiga rétt á að hafa áhrif á tilhögun manntalsins. Auk Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar eru samráðsaðilarnir þessir: Fasteignamat ríkisins, Félagsvísindadeild Háskóla Íslands, Framkvæmdastofnun ríkisins, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Húsnæðismálastofnun ríkisins, Jafnréttisráð og Þjóðhagsstofnun.

Um frekari skýringar og upplýsingar um þetta mál vísast að öðru leyti til ítarlegrar grg. sem fylgir frv.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.