19.11.1980
Efri deild: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (648)

42. mál, útvarpslög

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vesturl. lagði áherslu á þau orð mín, að það hefði verið leikinn ljótur leikur gagnvart Ríkisútvarpinu. Hann lét þess jafnframt getið, að minn flokkur hefði verið við stjórn þegar þetta skeði. Allt er þetta rétt. En það er huggun í þessu efni þegar haft er í huga að slík framkoma af mínum flokki er undantekningin sem staðfestir regluna, að hann leikur ekki ljóta leiki. Í þessu sambandi er og rétt að minnast þess, að síðan þetta skeði hafa verið þrjár ríkisstjórnir á Íslandi, og Sjálfstfl. í engri þessari ríkisstjórn. Ég efast um að Sjálfstfl — ef hann hefði verið í þessum ríkisstjórnum — hefði verið svo lengi að hugsa sig um að leiðrétta það sem skakkt var gert í þessu efni.

Og aðeins eitt orð í sambandi við hina mörkuðu tekjustofna. Ég ætla ekki að fara að halda hér tölu fyrir mörkuðum tekjustofnum. Það er margt rétt sem hv. 5. þm. Vesturl. segir í því efni. En ég vil segja að það gegnir allt öðru máli með markaðan tekjustofn fyrir Ríkisútvarp heldur en venjulega. Ríkisútvarpið hefur algera sérstöðu að einu leyti. Ríkisútvarpið þarf að hafa sem mest sjálfstæði. Það er engin ríkisstofnun sem ætti að hafa meira sjálfstæði heldur en Ríkisútvarpið, vegna þess að með þeim hætti verður best undirbyggt það sem er höfuðatriði varðandi ríkisfjölmiðla, að þeir séu hlutlausir eða hlutlægir í sinni fréttastarfsemi. Það verður best gert með því að gera þessa ríkisfjölmiðla sem mest óháða ríkisvaldinu. Þetta er það sem hefur gerst annars staðar, þar sem ástand í þessum málum er til fyrirmyndar að þessu leyti, eins og t.d. í Bretlandi. BBC er þannig byggt upp, að það er miklu sjálfstæðara og óháðara beinum afskiptum ríkisvaldsins heldur en t.d. Ríkisútvarpið hér. Á þessari forsendu hef ég alltaf barist fyrir því, að Ríkisútvarpið sé byggt upp með sérstökum afnotagjöldum og það hafi fast markaða tekjustofna og þurfi ekki að sækja beinlínis undir handhafa ríkisvaldsins í hvert skipti sem afgreidd eru fjárlög ríkisins.

Þetta vildi ég aðeins að kæmi hér framaðgefnu tilefni.