19.11.1980
Efri deild: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (650)

84. mál, orkulög

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt þm. Agli Jónssyni, Eyjólfi Konráði Jónssyni, Guðmundi Karlssyni og Salome Þorkelsdóttur lagt fram frv. það til orkulaga sem hér er til umræðu.

Hér er um að ræða frv. um skipulag orkumála. Á undanförnum árum hefur verið mikil umræða um skipulag orkumála. Er það ekki að ófyrirsynju. Mikilvægi þessara mála fyrir þjóðarbúskapinn í bráð og lengd orkar ekki tvímælis, og ör þróun, breytt viðhorf og nýjar þarfir kalla nú á skipulag við hæfi og trausta yfirstjórn orkumála. Með þessu frv. er lagt til að þessu markmiði verði náð með setningu nýrra orkulaga.

Í jan. 1977 skipaði þáv. iðnrh., Gunnar Thoroddsen, nefnd til að endurskoða orkulög og gera tillögur um heildarskipulag og yfirstjórn orkumála. Nefnd þessi skilaði tillögum sínum í okt. 1978. Samt hafa enn ekki verið sett ný orkulög. Frv. það, sem hér er lagt fram, er að stofni til það sama sem nefnd þessi gerði tillögur um. Hins vegar eru frávik í tveimur veigamiklum atriðum, þar sem er skipulag raforkuvinnslunnar og hlutverk og skipulag Orkustofnunar. Í nefndinni var ágreiningur um skipulag raforkuvinnslunnar og var skilað tveim tillögum um það efni, en í þessu frv. er að finna aðra þeirra.

Frv. það til orkulaga, sem hér er lagt fram, mótast af víðfeðmi þess viðfangsefnis sem við er að fást. Samt greinast nýmæli frv. í þrjá meginþætti. Er þar um að ræða nýmæli sem varða rannsóknir á orkulindum landsins, eðli þeirra og skilyrðum til hagnýtingar þeirra, nýmæli í skipulagi orkuvinnslunnar og dreifingu orkunnar og nýmæli er varða hlutverk og skipulag Orkustofnunar, Orkuráðs og Orkusjóðs.

Það hefur verið hlutverk Orkustofnunar að annast þann þátt orkumálanna sem viðkemur rannsóknum og skyldum viðfangsefnum. Verður að telja grundvallaratriði í framkvæmd orkumálanna að þau verkefni, sem Orkustofnun er falið að sjá um, fari vel úr hendi. Hér er því mest um vert að Orkustofnun hafi sem best tök á að gegna sínu mikilvæga hlutverki. Þær tillögur, sem varða Orkustofnun, miða því í meginatriðum að því að 1) styrkja stjórnun stofnunarinnar; 2) hnitmiða verksvið stofnunarinnar við rannsóknir á orkulindum landsins, áætlanagerð um orkubúskapinn og aðstoð og ráðgjöf um stefnumótun í orkumálum; 3) efla áhrifavald stofnunarinnar og þátt hennar í heildarstjórn orkumálanna.

Með tilliti til þessa er lagt til að Orkustofnun sé fengin þingkjörin stjórn á þann veg, að Orkuráði sé ætlað það verkefni auk þess að hafa með höndum stjórn Orkusjóðs svo sem nú er. Þá gerir frv. ráð fyrir að sú starfsemi, sem nú heyrir undir Orkustofnun í einu eða öðru formi, en varðar ekki meginhlutverk stofnunarinnar, verði fengin öðrum aðilum í hendur. Hins vegar er Orkustofnun fengið í hendur veigamikið verkefni við gerð orkumálaáætlunar sem lagt er til að lögð sé fyrir Alþ. og gegna á mikilvægu hlutverki við stefnumótun í orkumálum.

Tillögur frv., sem varða orkuvinnslu og orkudreifingu, hafa það meginmarkmið að komið verði við sem mestri hagkvæmni í framkvæmdum og rekstri í orkubúskap þjóðarinnar. Tilgangurinn með því er að stuðla að sem bestri hagnýtingu orkulinda landsins, svo að fullnægt verði orkuþörf með innlendum orkugjöfum og við sem lægstu og jöfnustu orkuverði um allt land. Varðar mestu að skipulag raforkuvinnslunnar miði að þessu.

Frv. gerir ráð fyrir að meginraforkuvinnslan verði á hendi eins fyrirtækis, þar sem er Landsvirkjun. Jafnframt er gert ráð fyrir að sjálfstæð orkufyrirtæki í hinum einstöku landshlutum geti einnig annast orkuvinnslu, eftir því sem efni standa til.

Heildarstjórn raforkuvinnslunnar er komið á fót í formi samvinnu sem fyrirtækjunum, er hafa á hendi orkuvinnslu, er gert að hafa. Samvinna þessi lýtur að skipulegri yfirstjórn, er varðar byggingu orkuvera og samrekstur þeirra. Reglur um þetta efni mótast mjög af þeirri sérstöðu Landsvirkjunar að bera ægishjálm yfir öll orkuvinnslufyrirtæki landsins. Er og staða Landsvirkjunar mjög efld frá því sem verið hefur, með því að henni er ætlað að gegna aðalhlutverki í yfirstjórn raforkuvinnslunnar, svo sem fram kemur í reglum um 1) skipun samvirkjunarráðs, 2) eignaraðild að stofnlínum og 3) samrekstur orkuveranna.

Samkv. frv. er reiknað með að fyrirtæki sveitarfélaga eða sameignarfélög ríkisins og viðkomandi sveitarfélaga hafi á hendi raforkudreifingu og rekstur hitaveitna, hvert í sínu umdæmi. Er þá gert ráð fyrir að þessi landshlutafyrirtæki geti einnig annast raforkuvinnslu.

Í frv. er ekki að finna ákvæði um skipulag eða form landshlutafyrirtækja né heldur um að þau skuli sett á fót. Leiðir það af eðli málsins. Þátttaka sveitarfélaga í landshlutafyrirtækjum þýðir að þau verða ekki stofnuð nema að vilja þeirra. Enn fremur hljóta viðkomandi sveitarfélög að hafa um það að segja, hvernig fer um eignaraðild, hlutverk, stjórnun og almenna uppbyggingu hvers landshlutafyrirtækis. Slík fyrirtæki geta því orðið með mismunandi móti eftir aðstæðum og viðhorfum í hinum einstöku landshlutum. Þess vegna er ekki unnt að setja almenn ákvæði í lög sem kveða á um þessi efni. Það ber og að hafa í huga, að hvert landshlutafyrirtæki fyrir sig hlýtur að vera stofnað með sérlögum.

Gert er ráð fyrir að Rafmagnsveitur ríkisins verði lagðar niður jafnóðum og aðstæður leyfa. Leiðir þetta af því, að rétt þykir, svo sem ég áður sagði, að landshlutafyrirtæki hafi á hendi raforkudreifinguna. Verður þá ekki ástæða til að halda áfram rekstri Rafmagnsveitna ríkisins til orkuvinnslu, þar sem önnur orkufyrirtæki með aðild ríkisins verði fær um slíkt. Með tilliti til þessa er ríkisstj. veitt heimild til að láta af hendi eignir Rafmagnsveitna ríkisins til annarra orkufyrirtækja í landinu með þeim skilmálum sem um semst. Framkvæmd þessa fer fyrst og fremst eftir því, hvort landshlutafyrirtækjum eða sveitarfélögum verði gert kleift að taka við eignum Rafmagnsveitna ríkisins í viðkomandi landshluta. Starfsemi Rafmagnsveitna ríkisins getur hvergi orðið lögð niður, nema þar sem tryggt er að fyrir hendi sé annar aðili fær um að halda uppi þeirri þjónustu sem um er að ræða. Þess vegna verður þetta fyrirtæki ekki lagt niður í einum áfanga, heldur smám saman, eftir því sem aðstæður leyfa.

Þá eru ákvæði um ráðstöfun og afhendingu á þeim 132 kílóvolta stofnlínum sem ríkið hefur látið byggja. Lagt er til að þessar stofnlínur verði í eigu Landsvirkjunar. Þá er og gert ráð fyrir að skilmálar um afhendingu þessara eigna verði við það miðaðir, að unnt sé að selja raforku frá stofnlínukerfinu samkvæmt einni gjaldskrá.

Þó að uppistaða sumra kafla í þessu frv., sem hér er lagt fram, sé úr orkulögum nr. 58 frá 29. apríl 1967, er þar um veigamiklar breytingar að ræða. Þannig er I. kafli frv., sem kveður á um stefnumótun, algjört nýmæli. Veigamiklar breytingar eru og í II., III. og IV. kafla frv., sem fjalla um Orkuráð og orkumálastjóra, Orkustofnun og Orkusjóð. Þá er um nýsmíði að ræða þar sem er V. kafli frv. sem kveður á um orkuveitur. Þó er þar ekki um veigamiklar efnisbreytingar að ræða. En í þessum kafla frv. eru samræmd og felld saman ákvæði um héraðsveitur og hitaveitur sem er að finna í IV. og V. kafla gildandi laga.

Í VI. kafla er um að ræða nýmæli er varða skipulag orkuvinnslunnar. Þá er VII. kafli frv. nýmæli um skipulag orkudreifingar. Almennu ákvæðin í VIII. kafla frv. eru aftur á móti hliðstæð og samsvarandi ákvæði í gildandi lögum.

Í frv. þessu er ekki að finna þá kafla í gildandi lögum sem fjalla um vinnslu jarðhita og verndun jarðhitasvæða, jarðhitavirkja og eftirlit með þeim. Samkv. frv. þessu er lagt til að orkulög nr. 58 frá 29. apríl 1967 falli úr gildi, en þó ekki III. og VII. kafli laganna sem um þetta fjalla. Þykir betur fara á að hafa sérlög um þessi efni en ákvæði um þau í almennum orkulögum.

Í þessu frv. er ekki að finna ákvæði um Rafmagnsveitur ríkisins nema sem varða afhendingu á raforkuverum og dreifikerfi fyrirtækisins. Með því að gert er ráð fyrir að starfsemi Rafmagnsveitna ríkisins verði lögð niður eftir því sem aðstæður leyfa þykir ekki ástæða til að breyta gildandi lögum um það fyrirtæki. Samkv. frv. þessu heldur því IX. kafli orkulaganna frá 1967 um Rafmagnsveitur ríkisins gildi sínu.

Í frv. þessu er ekki heldur að finna ákvæði sem varða Jarðboranir ríkisins og samsvara VIII. kafla núgildandi orkulaga. Er gert ráð fyrir að Jarðboranir ríkisins verði teknar undan rekstrarstjórn Orkustofnunar. Samhliða þessu frv. er því flutt sérstakt frv. um Jarðboranir ríkisins er felur í sér þær breytingar sem af þessu leiðir. Þykir betur fara á því að hafa sérlög um þessi efni heldur en að kveða á um þau í atmennum orkulögum.

Ég mun nú víkja að einstökum köflum frv. og skýra meginbreytingar og nýmæli sem hér er um að ræða. Kem ég þá fyrst að I. kafla um yfirstjórn og stefnumótun. Hér er um það nýmæli að ræða, að gert er ráð fyrir að meginmarkmið í orkumálum þjóðarinnar verði sett fram í sérstakri orkumálaáætlun til langs tíma. Með tilliti til reynslunnar má halda því fram, að á fáum eða engum sviðum opinberra fjármála sé þörfin brýnni fyrir vandaðan undirbúning ákvarðanatöku en í orkumálum, og kemur þar einnig til að einstakar orkuframkvæmdir eru oft mjög fjárfrekar. Löggjafinn hefur áður talið ástæðu til að ákveða slíka málsmeðferð um einstaka mikilvæga málaflokka, svo sem vegamál, hafnamál og raunar einnig framkvæmdir á sviði heilbrigðismála. Þar sem einstakir áfangar orkumálaframkvæmda eru einatt mjög umfangsmiklir þykir rétt að miða hér við 10 ára áætlunartímabil, en með hliðsjón af óstöðugleika íslensks efnahagslífs þykir jafnsjálfsagt að gera ráð fyrir að breytingar aðstæðna krefjist endurskoðunar á áætluninni á fjögurra ára fresti eða oftar.

Gert er ráð fyrir að Orkustofnun og virkjunaraðilar vinni saman að gerð orkumálaáætlunar í umboði ráðh. Þetta eru þeir aðilar sem ætlað er að hafa á hendi þau verkefni er mestu skipta um framtíðarstefnumörkun á þessu sviði. Að sjálfsögðu yrði leitað til annarra aðila við gerð áætlunarinnar, eftir því sem aðstæður gæfu tilefni til. Sérstaklega er gert ráð fyrir að gætt sé samræmis milli orkumálaáætlunar og annarrar áætlunargerðar til langs tíma á vegum ríkisins.

Orkumálaáætluninni er ætlað að setja fram leiðir til þess að fullnægja skynsamlegri orkunotkun þjóðarinnar á áætlunartímabilinu á sem hagkvæmastan hátt og gera í því sambandi grein fyrir nýtingu á orkulindum landsins, innflutningi á orkugjöfum og verðlagningu á orku. Þá skal í áætluninni sett fram fjármagnsþörf á áætlunartímabilinu og gerð grein fyrir því, hvernig staðið skuli undir fjármagnsútgjöldum, þ.e. afborgunum og vöxtum af lánsfé.

Ég kem þá að II. kafla frv., um Orkuráð og orkumálastjóra. Hér eru gerðar tvær meginbreytingar á Orkuráði frá gildandi lögum. Annars vegar er fjölgað í Orkuráði úr fimm í sjö menn. Hins vegar er gert ráð fyrir varamönnum, sem er ekki í núgildandi lögum. Fjölgun í Orkuráði er gerð til að stuðla betur að því, að allir stjórnmálaflokkar geti átt fulltrúa í ráðinu. Þá er Orkuráði fengið mjög aukið hlutverk, þar sem er stjórn Orkustofnunar sem það hefur ekki haft með að gera. Jafnframt er Orkuráði falið að vera stjórn Orkusjóðs eins og verið hefur.

Ég vík þá að III. kafla frv., sem fjallar um Orkustofnun. Hér er að finna margar breytingar frá gildandi lögum um hlutverk Orkustofnunar. Hin veigamesta er sú er varðar orkumálaáætlun og ég hef áður getið um. Þá er ekki lengur gert ráð fyrir að Orkustofnun hafi yfirumsjón með eftirliti með raforkuvirkjum til varnar hættu og tjóni af þeim, þar sem Rafmagnseftirlit ríkisins er nú orðið sjálfstæð stofnun. Fellt er niður ákvæði um að Orkustofnun skuli fylgjast með rekstri rafmagnsveitna, hitaveitna, orkuvera og annarra meiri háttar orkumannvirkja, þar sem hér er um óraunhæft verkefni að ræða. Á hinn bóginn er tekið inn það nýmæli, að við rannsóknir um hagkvæma nýtingu orkugjafa skuli sérstök áhersla lögð á aðgerðir til orkusparnaðar. Enn fremur er það nýmæti, að rannsaka skuli með hverjum hætti innfluttir orkugjafar verði hagnýttir í orkubúskap þjóðarinnar með sem mestri hagkvæmni. Þá er það nýmæli, að Orkustofnun skuli uppfræða almenning um það sem orkunotendum má koma að gagni. Gert er ráð fyrir að þessi þjónusta Orkustofnunar sé veitt í samvinnu við orkuveitur og samtök þeirra.

Þá eru ákvæði um hlutverk Orkustofnunar allbreytt að orðalagi frá samsvarandi ákvæðum í gildandi lögum. Þau eru stytt, einfölduð og gerð skýrari, án þess að um efnisbreytingar sé að ræða. í þessum kafla frv. er kveðið á um deildaskiptingu Orkustofnunar. Nú eru verkefni Orkustofnunar í sex deildum: raforkudeild, jarðhitadeild, jarðkönnunardeild, skrifstofu- og hagdeild, Jarðboranir ríkisins og Jarðvarmaveitur ríkisins. Í samræmi við það markmið að binda verkefni Orkustofnunar fyrst og fremst við ráðgjöf, rannsóknir og áætlanagerð, en efla stofnunina á þeim vettvangi, er gert ráð fyrir að taka undan stofnuninni framkvæmdir og umsvif sem ekki heyra beint undir þessa starfsemi. Með tilliti til þessa er ekki gert ráð fyrir þrem af þeim sex deildum Orkustofnunar sem nú eru. Mun þá Orkustofnun starfa í þrem deildum samkv. þessu frv., þ.e. vatnsorkudeild, jarðhitadeild og skrifstofu- og hagdeild.

Ég er þá kominn að III. kafla þessa frv., sem fjallar um Orkusjóð, og skal víkja nokkrum orðum að honum. Hér er gert ráð fyrir að hlutverk Orkusjóðs sé að stuðla almennt að hagkvæmum orkubúskap þjóðarinnar, auk hagnýtingar orkulinda landsins, svo sem nú segir í lögum. Þá er það og nýmæli, að fjárhagslegur stuðningur Orkusjóðs skal ná til rannsókna á sviði orkumála auk framkvæmda eins og verið hefur. Þá er að finna það nýmæli, að Orkusjóður verði efldur til að tryggja framkvæmd orkumálaáætlunar, sem ég hef áður gert grein fyrir, eftir því sem með þarf. Hins vegar er felldur niður hinn óraunhæfi tekjustofn, sem sjóðnum er ætlaður samkv. núgildandi lögum, þar sem er rekstrarhagnaður af Rafmagnsveitum ríkisins og Jarðborunum ríkisins. Í þessum kafla er talin upp sú lánafyrirgreiðsla, sem Orkusjóði er heimiluð. Þar segir m.a. að heimilt sé að veita lán úr Orkusjóði til orkuveitna vegna framkvæmda. Þetta ákvæði nær til allra orkuveitna, bæði rafveitna og hitaveitna. Þetta er breyting frá núgildandi lögum sem gera ekki ráð fyrir lánum til hitaveituframkvæmda þó að sjóðurinn hafi fengið nokkurt fjármagn á síðustu árum til þessara framkvæmda.

Enn fremur er um að ræða þá breytingu frá núgildandi lögum, að Orkuráð ákveður lánveitingar og einstakar greiðslur úr Orkusjóði, í stað þess sem er í núgildandi lögum, að Orkuráð geri tillögur um þessi efni og leita þurfi staðfestingar ráðherra á þeim tillögum. Hins vegar er gert ráð fyrir að Orkuráð geri tillögur til ráðherra um ráðstöfun stofntillaga til rafveitna í strjálbýli, svo sem verið hefur.

Ég kem þá næst að V. kafla frv., sem fjallar um orkuveitur. Hér er að finna almenn ákvæði um öll orkufyrirtæki, hver svo sem orkugjafi eða orkutegund er. Er þetta gagnstætt því sem er í núgildandi orkulögum, þar sem m.a. er sérkafli um héraðsrafmagnsveitur og annar kafli um hitaveitur. Með þessum hætti næst meiri samræming á ákvæðum um rafveitur og hitaveitur, enda er gert ráð fyrir þeim möguleika, að eitt og sama fyrirtækið geti haft á hendi hvort tveggja. Í þessum kafla eru skilgreindar hinar ýmsu tegundir orkuveitna. Þá er hér fjallað um leyfi til að reisa og reka raforkuver. Ekki þykir ástæða til að krafist sé hliðstæðs leyfis til að byggja og reka hitaveitur frekar en verið hefur. Er hér um sams konar ákvæði að ræða og í núgildandi lögum, nema stærðarmörkum raforkuvera er breytt. Í stað þess, að leyfi Alþingis hefur þurft til að reisa og reka raforkuver stærra en 2 mw., er hér miðað við 5 mw. Og í stað þess, að nú þarf leyfi ráðherra til að reisa og reka raforkuver stærra en 0.2 mw., er hér miðað við 1 mw. Enn fremur er hér kveðið á um veitingu einkaleyfis orkuveitna til dreifingar og sölu á tilteknu svæði um tiltekinn tíma á hliðstæðan hátt og í núgildandi lögum, jafnt fyrir rafveitur sem hitaveitur, án tillits til þess hver eigandi orkuveitunnar er. En hér eru ákvæðin einfölduð og samræmd og gilda um orkuveitur atmennt. Hins vegar eru í gildandi lögum sérákvæði annars vegar um rafveitur og hins vegar um hitaveitur. Þar er einkaleyfisveitingin ýmist bundin við sveitarfélög eða samtök þeirra eða sveitarfélögum veittur forgangsréttur undir vissum kringumstæðum, jafnframt því sem framsal einkaleyfis getur verið heimilað.

Þá er í þessum kafla að stofni til um að ræða efnislega óbreytt ákvæði sem gilda nú um rafveitur. En hliðstæð ákvæði er nú ekki að finna í þeim kafla gildandi orkulaga sem fjallar um hitaveitur. Hér er gert ráð fyrir að þessi ákvæði taki til orkuveitna, hvort heldur er rafveitna eða hitaveitna. Ákvæði þessi varða skyldur einkaleyfishafa, gjaldskrár o.fl.

Ég kem þá að VI. kafla frv., sem fjallar um orkuvinnslu. Hér er gert ráð fyrir að Landsvirkjun hafi á hendi meginraforkuvinnslu, en landshlutafyrirtæki geti hvert á sínu veitusvæði reist og rekið raforkuver. Ef landshlutafyrirtæki, sem fyrir eru eða stofnuð kunna að verða, óska ekki að annast orkuvinnslu eða engin landshlutafyrirtæki eru fyrir hendi, getur Landsvirkjun reist þar og rekið raforkuver. Með landshlutafyrirtækjum er hér átt við sameignarfélög ríkis og viðkomandi sveitarfélaga, sameignarfélög sveitarfélaga eða fyrirtæki eins sveitarfélags. Þetta er um raforkuvinnsluna.

Um hitaveitur segir að það sé hlutverk sveitarfélaga eða sameignarfélaga þeirra að reisa og reka orkuver hitaveitna þar sem hagkvæmt þykir. Hlutverki sveitarfélaga getur í þessu sambandi, ef svo ber undir, verið gegnt með þátttöku í orkufyrirtæki sem aðrir en sveitarfélög eiga aðild að, sbr. Orkubú Vestfjarða og Hitaveitu Suðurnesja, sem ríkið er aðili að. Að öðru leyti fjallar þessi kafli mikið um stjórnun á raforkuvinnslunni í landinu. Hér er gert ráð fyrir að koma á heildarstjórn virkjunarframkvæmda og stofnlínukerfisins. Rétt þykir að aðilar að þessari stjórnun séu eigendur meginorkuvera, og er miðað við 5 mw. stærðarmörk. Þetta þýðir að nú féllu undir þetta ákvæði Landsvirkjun, Rafmagnsveitur ríkisins, Laxárvirkjun, Orkubú Vestfjarða, Andakílsárvirkjun og Hitaveita Suðurnesja. Enn fremur er gert ráð fyrir að eigendur aðalorkuflutningskerfis landsins séu aðilar að þessum samtökum sem eru nefnd Samvirkjunarráð. Samkv. þessu getur fjöldi aðila, sem standa að Samvirkjunarráði, verið breytilegur, ýmist fjölgað eða fækkað. Ný landshlutafyrirtæki gætu verið stofnuð og fyrirtæki, sem fyrir eru, sameinast, svo sem Laxárvirkjun verið sameinuð Landsvirkjun, allt eftir því hver þróun mála verður.

Samvirkjunarráð skal skipað einum manni frá hverju orkufyrirtæki, nema Landsvirkjun skal hafa jafnmarga menn og hinir eru til samans. Þessi ákvæði um skipan Samvirkjunarráðs taka mið af þeirri staðreynd, að Landsvirkjun annast nú meginorkuframleiðslu landsins. Þess vegna þykir eðlilegt að það fyrirtæki hafi jafnmarga menn í Samvirkjunarráði og önnur fyrirtæki til samans. Það þýðir, að ákvarðanir á vettvangi ráðsins verða ekki teknar nema með samþykki Landsvirkjunar né getur Landsvirkjun komið málum fram nema komi til samþykki fleiri.

Í þessum kafla er að finna ítarleg ákvæði um hlutverk Samvirkjunarráðs. Um það efni segir í fyrsta lagi, að hlutverkið sé að samræma framkvæmdir á sviði orkuvinnslu með tilliti til staðsetningar, stærðar og tímasetningar nýrra virkjana, svo að tryggi sem best hagkvæmni og öryggi fyrir landsmenn.

Í öðru lagi segir að hlutverkið sé að gera tillögur til ráðherra um einstakar virkjunarframkvæmdir og um það, hvaða orkufyrirtæki skuli ætlað að reisa og reka einstök ný orkuver.

Í þriðja lagi segir að hlutverkið sé að samræma framkvæmdir við stofnlínukerfið með tilliti til samrekstrar orkuveranna.

Í fjórða lagi er tiltekið það hlutverk að annast gerð orkumálaáætlunar í samvinnu við Orkustofnun.

Í fimmta lagi segir að hlutverk Samvirkjunarráðs sé að semja álitsgerðir með lagafrv. um virkjunarframkvæmdir.

Í sjötta lagi segir að hlutverk þess sé að gera tillögur um gjaldskrár.

Hér er um að ræða ákvæði til að tryggja sem best að þjóðhagslegra sjónarmiða sé gætt í virkjunarmálum og einstakar orkuveitur fari ekki sínu fram án tillits til þess, enda er það í raun sameiginlegur hagur allra fyrirtækjanna, að náð sé sem mestri hagkvæmni og öryggi með framkvæmdum í orkumálum. Þar sem framkvæmdir eru í verkahring þessara fyrirtækja hljóta þau að eiga mikið undir sér og mat þeirra á málum þessum vegur því þungt. Samráð fyrirtækjanna og tillögugerð er því best fallin til að stuðla að markvissri stefnumótun og þjóðhagslega réttri ákvarðanatöku stjórnvalda, sem koma til með eftir sem áður að hafa lokaorðið um þessi efni.

Í þessum kafla er einnig brugðist sérstaklega við þeim nýju viðfangsefnum sem verða við samtengingu hinna ýmsu landshluta í eitt samveitusvæði. Er því Samvirkjunarráði einnig ætlað það hlutverk að hafa hönd í bagga með tæknilegri framvindu stofnlínukerfisins. Og í þessum kafla er ríkisstj. veitt heimild til að leysa upp og leggja niður rekstur Rafmagnsveitna ríkisins, eftir því sem aðstæður leyfa og henta þykir. Gert er ráð fyrir að eignir Rafmagnsveitna ríkisins gangi til fyrirtækja, sem kunna að verða stofnuð til að taka við viðkomandi rekstri eða fyrir hendi eru, svo sem Landsvirkjun eða landshlutafyrirtæki, og hef ég áður vikið að þessu efni.

Þá er gert ráð fyrir að Landsvirkjun taki við eignarráðum á þeim stofnlínum, sem ríkið hefur þegar látið byggja, þ.e. Norðurlínu, Austurlínu og Vesturlínu. Er gert ráð fyrir að þessar stofnlínur verði afhentar með þeim skilmálum sem um semst. Er þá átt við að afhendingarkjörin stuðli að því, að komið verði á sömu gjaldskrá fyrir raforkusölu frá stofnlínukerfinu. Þykir rétt að það sé gert frekar með beinu stofnframlagi frá ríkissjóði heldur en rekstrarstyrkjum. Með byggingu þeirra stofnlína, sem hér um ræðir, er gert sérstakt átak til samtengingar allra landsfjórðunga, en það er forsenda þess, að landið allt verði eitt samveitusvæði. Þykir því rétt að þessar grundvallarframkvæmdir, sem ríkið sjálft hefur tekið að sér, séu fjármagnaðar beint úr ríkissjóði, en frekari framkvæmdir séu bornar uppi af viðkomandi framkvæmdaaðilum, enda þá ekki gert ráð fyrir að ríkissjóður standi sjálfur framvegis undir stofnlínuframkvæmdum.

Þá er hér gert ráð fyrir að Landsvirkjun annist samrekstur orkuvera landsins. Þykir það leiða af sjálfur sér, þar sem Landsvirkjun yrði í senn eigandi meginorkuveranna og stofnlínukerfisins. Enn fremur er gert ráð fyrir að sama gjaldskrá gildi fyrir raforkusölu frá öllum úttaksstöðum stofnlínukerfisins, eins og ég hef þegar vikið að.

Ég kem þá að VIl. kafla frv., sem fjallar um orkudreifingu. Hér er mörkuð sú stefna, að það skuli vera hlutverk sveitarfélaga að annast dreifingu raforku, en ríkið geti samt komið þar við sögu ef henta þykir. Gert er ráð fyrir að umdæmi landshlutafyrirtækja og annarra rafveitna taki mið af landfræðilegum og stjórnunarlegum aðstæðum, svo að náð verði sem mestri hagkvæmni í raforkudreifingunni.

Ég hef þá lokið að fara yfir kafla frv. nema lokakaflann sem fjallar um almenn ákvæði. Eins og ég hef áður sagt eru hin almennu ákvæði frv. hliðstæð samsvarandi ákvæðum í gildandi lögum. Það er gert ráð fyrir í þessu frv., ef samþ. verður, að lögin taki gildi 1. jan. n.k. Ég viðurkenni að það er nokkur bjartsýni, að búið verði að afgreiða frv. svo snemma, þó að það þyrfti ekki að vera útilokað. En aðalatriðið er að sjálfsögðu að við fáum sett ný lög um skipulag orkumála.

Mér þykir að lokum, herra forseti, rétt að draga saman til glöggvunar meginbreytingar og nýmæli sem felast í þessu frv. En þar er um að ræða:

1. Langtímaáætlun skal gerð um orkubúskap þjóðarinnar, til 10 ára hið minnsta, og skal leggja árlega fyrir Alþingi skýrslu um framvindu áætlunarinnar.

2. Eigendur raforkuvera skulu koma á fót Samvirkjunarráði er fari með heildarstjórn raforkuvinnslunnar.

3. Gert er ráð fyrir að Landsvirkjun hafi á hendi orkuvinnslu þar sem landshlutafyrirtæki koma ekki til greina, en landshlutafyrirtæki geti hvert á sínu veitusvæði reist og rekið orkuver.

4. Heimilt verði að afhenda raforkuver og dreifikerfi Rafmagnsveitna ríkisins til annarra orkufyrirtækja.

5. Heimilt verði að fela Landsvirkjun eignarráð á þeim stofnlínum sem ríkið hefur þegar látið byggja, þ.e. Norðurlínu, Austurlínu og Vesturlínu.

6. Gjaldskrá fyrir raforkusölu verði hin sama á öllum útsölustöðum stofnlínukerfisins.

7. Orkuráð skal skipað sjö mönnum í stað fimm, sem verið hafa, og sjö varamönnum, sem engir hafa verið.

8. Orkuráð skal hafa á hendi stjórn Orkustofnunar auk Orkusjóðs, sem verið hefur.

9. Jarðboranir ríkisins eru teknar undan rekstrarstjórn Orkustofnunar.

10. Orkustofnun er leyst undan því hlutverki að annast hagnýtar jarðfræðilegar kannanir, m.a. vegna neysluvatnsleitar.

11. Tækninefnd Orkustofnunar er lögð niður.

12. Orkustofnun er falið sérstaklega að vinna að orkusparnaði.

13. Orkustofnun er falið sérstaklega að uppfræða almenning um orkumál.

14. Orkusjóður verði efldur eftir því sem með þarf til að tryggja framkvæmd orkumálaáætlunar.

15. Orkusjóði er fengin almenn heimild til að veita orkuveitum lán til hitaveituframkvæmda.

16. Orkusjóði er heimilað að veita einstaklingum lán til hitaveituframkvæmda.

17. Orkuráð tekur ákvarðanir um lánveitingar úr Orkusjóði í stað tillögugerðar til ráðherra.

18. Rýmkaðar eru heimildir til að reisa raforkuver án leyfis stjórnvalda.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að þegar þessari umr. er lokið verði frv. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.