19.11.1980
Neðri deild: 20. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (654)

56. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég mun stytta mál mitt vegna mjög ítarlegrar ræðu hv. 2. þm. Suðurl., sem ég tek undir, og þarf ekki að koma inn á þriðja atriðið sem hann rakti þar. En ég tel samt rétt að bæta örfáum atriðum við til að skýra viðhorf mín til málsins nánar.

Í fyrsta lagi get ég ekki fallist á að það samrýmist þingræðislegum venjum okkar og hefðum og í rauninni stjórnarskrá lýðveldisins að skattalögum sé breytt með brbl., sérstaklega ekki eins og stendur á í sambandi við þessi brbl. þar sem engar þær breytingar urðu, frá því að Alþ. var sent heim um vorið þangað til brbl. voru gefin út um mánuði síðar, er gætu réttlætt þessa skattheimtu. Það kom líka í ljós, þegar hæstv. landbrh. gerði grein fyrir þessum brbl. í Ríkisútvarpinu, að fyrir honum vakti fyrst og fremst að koma aftan að bændum, þar sem hann taldi að þessi löggjöf mundi ekki ná tilgangi sínum að öðrum kosti, og viðhafði þau orð, að ef þessi lög hefðu verið sett fyrr hefðu bændur getað búið sig undir þennan fóðurbætisskatt, slíkt væri með öllu óeðlilegt og þess vegna hefði verið nauðsynlegt að láta þau koma svo mjög óvænt sem raun ber vitni. Eins og ég segi: Þau stangast í rauninni á við stjórnarskrána, eru stjórnarskrárbrot.

Á hinn bóginn efast ég ekki um að ef dómur félli í þessu máli mundi með einhverjum hætti vera hægt að koma málinu í gegnum Hæstarétt, og skírskota ég í því sambandi til nýfallins dóms Hæstaréttar um réttmæti afturvirku laganna frá 1978 þar sem tókst að skáskjóta málinu í gegn. Þó lá það fyrir að sami meiri hl. var ekki fyrir öllum greinum laganna í Hæstarétti. Það voru sem sagt engir þrír þeirra hæstaréttardómara, sem um málið fjölluðu, sammála um að allar greinar þeirra afturvirku skatta samræmdust ákvæðum stjórnarskrárinnar. Í þessu máli er um það að ræða að brbl. hafa haft mjög víðtæk áhrif á framleiðslu bænda og raunar afkomu landbúnaðarins í heild og þess fólks sem byggir afkomu sína á þeirri framleiðslu sem hér um ræðir. Þess vegna er augljóst mál að afleiðingar þess, að þessi lög yrðu nú dæmd ógild og óheimil, yrðu þvílíkar að það yrði í rauninni næstum því óhugsandi að Hæstiréttur mundi treysta sér til að kveða upp slíkan dóm.

Ég tel að þessi brbl. séu afturvirk að því leyti, að þegar þau voru sett og undirskrifuð lá ekki fyrir að meiri hl. þingsins væri sammála slíkri lagasetningu. Þannig kom það skýrt fram á fundi í Eyjafirði, sem þeir voru báðir á hv. 2. þm. Norðurl. e., Stefán Valgeirsson, og hæstv. landbrh., að sá fyrrnefndi var ekki samþykkur setningu brbl. Ég skal ekki segja um hvernig hann greiðir atkv. í deildinni núna, en enginn vafi er á að honum yrði a.m.k. ákaflega óljúft að greiða þessu frv. atkvæði sitt eins og það er, og ég veit að hann yrði með öllu ófáanlegur til að leggja nafn sitt við þá framkvæmd laganna sem var í sumar. Eini möguleikinn á því, að brbl., eins og þau voru framkvæmd í sumar, hafi meiri hl. Alþ. á bak við sig, er því sá, að hæstv. landbrh. geti skotið sér á bak við krata í málinu. Að öðrum kosti er útilokað að meiri hl. sé á Alþ. fyrir þeirri framkvæmd sem var á þessu máli í sumar.

Það talar sínu máli um hversu mikil völd framkvæmdavald er farið að taka sér, að bæði þjóðin og Alþ. á í vök að verjast. Ég sé ekki betur en það sé jafnvel að verða tímabært að afnema með öllu heimild framkvæmdavaldsins til að gefa út brbl. A.m.k. er óhjákvæmilegt að kveða skýrt á um að óheimilt sé að leggja nýja skatta á með brbl., nema þá undir þeim einu kringumstæðum að þeir, sem slík lagasetning bitnar á, ættu kost á tafarlausri meðferð dómsvaldsins á málinu þannig að hæstaréttardómur gæti fallið svo snemma að í rauninni væri hægt að dæma viðkomandi brbl. dauð og ómerk.

Það er oft svo, að óréttmætar og vanhugsaðar aðgerðir stjórnvalda geta gerbreytt viðhorfi manna til laga, jafnvel grundvallarlaga, og svo held ég að sé í þessu tilviki, því að hæstv. landbrh. beitir sér vitandi vits fyrir aðgerðum sem honum er kunnugt um að höfðu ekki meiri hl. Alþingis á bak við sig í þeim hópi sem studdi ríkisstj. Að þessu leyti eru þessi brbl. óvenjuleg og forkastanleg.

Það er líka annað atriði í sambandi við þessa löggjöf sem er mjög íhugunarvert. Á undan þeim hæstv. landbrh., sem nú er, hafði annar landbrh. hálfur ári áður markað sína stefnu, hæstv. núv, sjútvrh. Hann byggði á samþykkt Stéttarsambandsþings og beitti sér fyrir því, að kvótakerfi yrði upp tekið á bændur. Nú vita allir menn, að framkvæmd þessa kvótakerfis var fylgt eftir með hangandi hendi, og það vita líka allir, að bændur höguðu sér afskaplega misjafnlega. Sumir reyndu að koma til móts við þetta kerfi. Sumir tóku þann kostinn að fækka gripum sínum og reyna með þeim hætti að koma til móts við þau sjónarmið sem voru á bak við það að Stéttarsambandsþing ákvað að taka kvótakerfið upp. Aðrir bændur tóku þann kostinn að skella skollaeyrum við þessu og láta sem ekkert væri.

Nú er það komið í ljós, að fjölmargir bændur í landinu, ekki síst í Eyjafirði, hafa sætt verulegum áföllum, í fyrsta lagi vegna kvótans og í öðru lagi vegna þess að fóðurbætisskatturinn bitnar náttúrlega fyrst og fremst á mjólkurframleiðendum, enda sést á tímasetningu brbl. að ekki var til þess ætlast að fóðurbætisskatturinn kæmi neitt við sauðfjárbændur. Þessir bændur hafa því orðið fyrir mjög verulegum áföllum, og þegar ofan á þessi áföll bætist óréttlát og vanhugsuð skattalöggjöf og harðindi, sem yfir dundu, er augljóst mál að víða í bændastétt er það svo, að menn mega þakka fyrir að geta þraukað af þessi góðærisharðindi af náttúrunnar völdum, en hörðu harðindi af manna völdum, vegna þess að á bændastéttinni skellur nú stjórnleysið í efnahagsmálum, stjórnleysið í útflutningsmálum landbúnaðarins, stjórnleysið í gjaldeyrismálum.

Sú stefna, sem núv. hæstv. ríkisstj. markaði gagnvart framleiðsluatvinnuvegunum, sérstaklega gagnvart útflutningsatvinnuvegunum, kemur með fullum þunga á bændur landsins, og þrátt fyrir það að hæstv. landbrh. hafi hvað eftir annað látið fögur orð falla um að sér sé mjög í mun að sá iðnaður, sem byggir t.d. á sauðfjárafurðum, geti fengið að starfa óhindrað liggur það fyrir, að síðan hann varð landbrh. hefur mjög hallað undan fæti hjá þessum iðngreinum, ólíkt því sem var hjá þeirri ríkisstj. sem hann hefur haft gaman af að gagnrýna upp á síðkastið og kennd er við formann hans, hv. 1. þm. Reykv.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um að enginn atvinnurekstur getur staðist það að kúvent sé á hálfs árs fresti í framleiðslumálum hans, eins og landbúnaðurinn hefur orðið að þota, og ég þarf ekki heldur að fara mörgum orðum um að enginn bóndi getur vænst þess að bú hans skili sómasamlegum arði ef athafnir stjórnvalda eru með þeim hætti að ekki sé hægt að gera rekstraráætlun fram í tímann, ef menn geta búist við að ótímabærar og ófyrirsjáanlegar skattaálögur stjórnvalda skelli á þeim þá og þegar og umsvifalaust. Í fyrsta skipti hefur þetta náttúrlega þau áhrif að margur bóndinn verður fyrir óvæntum búsifjum sem gera honum erfitt um vik, t.d. að standa í skilum og ljúka við framkvæmdir sem hann hefur hafið. Þetta veldur því, að á næsta ári, t.d. nú í sumar, verður yfir því vakað hvort við því megi búast að hæstv. landbrh. hafi einhverja aðra lausn svipaða í vasanum, hvort hann muni aftur reiða svipuna. Ég sé ekki annað en það sé alger lágmarkskrafa til hæstv. landbrh. að hann gefi um það yfirlýsingu að samskonar hækkun og varð á s.l. sumri verði ekki gerð hið næsta sumar. Það er líka að fara aftan að hlutunum að ímynda sér að hægt sé að bæta rekstrargrundvöll heillar atvinnustéttar með því að auka rekstrarkostnaðinn, auka rekstrarútgjöldin og leggja á nýja skatta sem haldið er utan við verðákvörðun.

Ég vil svo að síðustu vekja athygli á því, að í ræðu hæstv. viðskrh. í Sþ. í gær kom fram að í sambandi við fyrirhugaðar efnahagsráðstafanir ríkisstj. væri núna rætt um að enn ætti að skerða hlut bóndans. Nú væri fróðlegt að fá um það upplýsingar og raunar óhjákvæmilegt í sambandi við það mál, sem hér liggur fyrir, og í sambandi við úrvinnslu þess í n., á hvaða stigi þessar umr. séu í ríkisstj. og hvernig það er hugsað. Í öðru lagi vil ég segja þetta í sambandi við skattalögin, eins og ég minntist lítillega á áðan: Nú voru mikil harðindi víða um land á árinu 1979. Margur bóndinn kom þá svo frá rekstri sínum að hann var jafnvel neikvæður þegar upp var staðið. Á hinn bóginn eru skattalög með þeim hætti, að þar er ekki tekið tillit til þess, að þvílíkt og annað eins geti hent. Nú langar mig að spyrja hvort landbrn. hafi beitt sér fyrir því, að sérstök athugun verði gerð á framkvæmd skattalaganna hvað varðar bændur á harðindasvæðunum, og í framhaldi af því einnig, hvort sú athugun hafi verið látin ná til annarra þeirra á harðindasvæðunum sem orðið hafa að sæta þeim afarkostum sem hér um ræðir.

Ég skal svo ekki, herra forseti, hafa þessi orð miklu lengri að sinni, því þær breytingar, sem m.a. þessi löggjöf gerir óhjákvæmilegar á stjórnarskránni, verða teknar upp á öðrum vettvangi, vonandi í sambandi við þá endurskoðun stjórnarskrárinnar sem nú fer fram. En það er náttúrlega með öllu útilokað að ráðh. geti tekið sér slíkt vald sem hér um ræðir, þegar fyrir liggur að í hópum stuðningsmanna hæstv. ríkisstj. var ekki meiri hl. á Alþ. fyrir þeirri framkvæmd fóðurbætisskattsins sem hæstv. ráðh. þvingaði fram á s.l. sumri.