19.11.1980
Neðri deild: 20. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

56. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. Steinþór Gestsson flutti langa ræðu um það frv., sem hér er til umr., og gagnrýndi það og meðferð þessara mála allharkalega. Hv. þm. hóf ræðu sina með því að rekja það, að sett hefðu verið lög um breytingu á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins, nr. 15/1979, síðla þings veturinn 1978–1979. Hann rakti að þessi lög væru umdeild, ekki síst, eins og hann orðaði það, kvótakerfið. Nú vil ég taka það fram enn einu sinni, þó að ég hafi gert það margsinnis í annan tíma, að þessi tilteknu lög ákveða ekki kvótakerfið.

Í þessum lögum eru margar heimildir, eins og ég raunar rakti í framsöguræðu minni fyrir þessu máli. Þær heimildir eru m.a. í því horfi að Framleiðsluráði landbúnaðarins er heimilt með staðfestingu landbrh. að greiða mishátt verð til bænda, sem yrði þá miðað við framleiðslumagn, og er það til þess m.a. að ná því sjónarmiði sem kom fram í tillögum svokallaðrar sjö manna nefndar, sem starfaði um þessi málefni á árunum 1977–1978. Enn fremur eru í lögunum heimildir til að beita kerfi sem kallað hefur verið kvótakerfi, þ.e. að fullt verð fáist greitt fyrir hluta framleiðslumagnsins, en aðeins útflutningsverð fyrir það sem afgangs er. Þessi heimild er til í lögunum. Enn eru heimildir í þessum lögum til að greiða hluta af niðurgreiðslum á landbúnaðarvörum beint til bænda ef það þykir henta og skynsamleg leið finnst til þeirra hluta. Þessar leiðir er hægt að fara, að því er lögin greina, ýmist eina sér eða fleiri saman. Enn er og heimilt, eins og verið hafði í lögum, að leggja á sérstakt framleiðslugjald eða verðjöfnunargjald, sem má vera mishátt eftir framleiðslumagni. Allar þessar heimildir eru þess eðlis og til þess settar að gefa bændasamtökunum val um kosti, til þess að taka þá kosti sem þeim finnst að séu best við hæfi hverju sinni og líklegastir til árangurs í því að hafa áhrif eða stjórn á framleiðslumagni. En í þessu er ekkert um það að lögin ákveði að kvótakerfi skuti beitt. Enn eru í þessum lögum heimildir til að leggja á kjarnfóðurgjald, en eins og ég sagði í fyrri ræðu minni eru þær heimildir ákaflega takmarkaðar og þröngar þannig að framkvæmd þeirra virtist mundu vera það erfið að út í það var ekki farið.

Hv. þm. Steinþór Gestsson taldi sig leiða rök að því, að brbl. hefðu verið óþörf og að það hefði verið ófært að setja þessi lög, ófært að hefja stórsókn með kjarnfóðurskatti, eins og hann orðaði það, að afkomu bænda. Hv. þm. rakti réttilega þá fækkun bústofns, sem varð haustið 1979, sem ég dreg ekki úr að sumpart hafi verið vegna þess, að ákveðið hafði verið að beita stjórnunaraðgerðum í landbúnaðarframleiðslu, en einnig að veruleg leyti vegna þess, að árferði var þá erfitt, heyafli lítill. Fóðurskorturinn hefur þó kennt bændum að þeir skuli ekki setja á í algjöra óvissu, ekki síst þegar þeir vita að hvergi í landinu var hey að fá ef illa færi í einhverjum tilteknum byggðarlögum eða jafnvel hjá einstökum bændum. Sjálfsagt var að haga ásetningi með þeim hætti sem þá var gert og er til lofs um íslenska bændastétt.

Um samdrátt í framleiðslu, sem hv. þm. taldi stafa af þessum orsökum, þarf ekki að fara mörgum orðum. Ég rakti þau efni í fyrri ræðu minni, en ég bendi á að það er ónákvæmt hjá hv. þm. að miða við tímabilið frá 1. jan. til júníloka vegna þess, þó ekki muni miklu, að kjarnfóðurgjald hafði verið lagt á 24. júní og þá þegar varð breyting í mjólkurframleiðslunni sem kemur inn í það tímabil sem hv. þm. miðaði við. Hins vegar var það svo á fyrstu 10 mánuðum verðlagsársins, sem hefst 1. sept. 1979, að samdráttur varð í mjólkurframleiðslu aðeins 2.1% og fyrstu 10 daga júnímánaðar varð aukning í mjólkurframleiðslu miðað við innvegna mjólk til Flóabúsins verulega meiri, um 11% meiri en á sama tíma árið áður.

Nú værum við ekki að tala um að æskilegt væri að koma á framleiðslutakmörkunum og ná framleiðslu niður á landbúnaðarafurðum, á mjólkinni, ef við værum ekki knúðir til þess af markaðsaðstæðum. En við erum knúðir til þess hvað mjólkurframleiðsluna snertir. Erlendi markaðurinn hefur brugðist. Því veldur, eins og margoft hefur fram komið, verðlagsþróun innanlands og markaðsaðstæður erlendis og ýmsar efnahagsaðgerðir sem gripið er til í viðskiptalöndum okkar. Þess vegna erum við knúðir til að draga saman mjólkurframleiðsluna þannig að við nálgumst það mark að framleiða fyrir innlenda markaðinn.

Það er svo, að neysla mjólkur og mjólkurafurða hér á landi er nálægt 100 millj. lítra mjólkur. Á síðasta ári, árinu 1979, var framleiðsla mjólkur nálægt 117 millj. lítra. En á síðasta verðlagsári hafði þegar orðið samdráttur um 5.2% eða rétt rúmleg a 6 millj. lítra. Framleiðslumagnið er því, miðað við það verðlagsár eða í lok þess, 31. ágúst s.l., miðað við heilt ár, um 111 millj. lítra eða nálægt 10% umfram innanlandsneyslu. Ég tel að við þurfum að nálgast það mark að samhæfa framleiðslu og neyslu meira en þarna hefur þegar komið fram. Það er greinilegt að kjarnfóðurgjaldið, sem lagt var á í sumar, hefur átt veigamikinn þátt í að ná þessum markmiðum. Það var það sem ég átti við þegar ég sagði í fyrri ræðu minni hér fyrir örfáum dögum að augljóst væri að þessar aðgerðir hefðu verkað og að þær hefðu stefnt að því að ná þeim markmiðum sem ætlast var til.

Ef til vill mætti spyrja hv. þm. hvaða markmið það eru sem hann vill hafa fyrir augum í þessum efnum, hvort hann óskar eftir að við höldum áfram að framleiða mjólk og mjólkurafurðir sem ekki tekst að selja á erlendum mörkuðum fyrir meira en vinnslukostnað, eins og nú er þegar best lætur. Því miður er ástandið svona. Ég skal fyrstur manna taka undir að við getum aukið framleiðslumagn ef við fáum betri markaði, en því miður er ástandið svona núna og fyrir því ástandi getum við ekki lokað augunum. Það er aftur önnur saga, að þessu samdráttarskeiði, sem er óhjákvæmilegt í mjólkurframleiðslunni, þarf að mæta með aukinni aðstoð af hálfu hins opinbera og það þarf að mæta því þannig að bændum sé gert kleift að komast yfir þá erfiðleika sem þessum samdrætti fylgja.

Það er rétt hjá hv. þm. Steinþóri Gestssyni, að í október hefur mjólkin farið meira niður en búist hafði verið við. Ég hygg, miðað við reynslu á síðasta ári, að þar komi fram árssveifla í mjólkurframleiðslunni sem sé í tengslum við þá fækkun kúastofnsins sem rakin hefur verið í þessum umr., því að þegar er farið að draga úr þessum samdrætti miðað við það mjólkurmagn sem inn hefur komið það sem af er nóvembermánuði. Um það er þó ekki unnt að spá. Það er vitaskuld réttilega sagt hjá hv. þm. Steinþóri Gestssyni, að það verða ekki gefin fyrirmæli um það til kúnna hversu mikið þær eigi að mjólka á hverjum og einum tíma, en það hefur sýnt sig að hægt er með stjórnunaraðgerðum í sambandi við fóðurverð að hafa veruleg áhrif á framleiðslumagn hverju sinni.

Hv. þm. gagnrýndi harkalega, og það gerði einnig hv. síðasti ræðumaður, að brbl. hefðu verið sett á fyrirvaralaust og þau hefðu komið á óvart, það hefði enginn átt von á þessu o.s.frv. Ég tel á hinn bóginn að það hefði verið mikið glapræði, miðað við þær aðstæður, sem ríktu í framleiðslumálum annars vegar og í sambandi við þær horfur, sem voru um heyafla og tíðarfar og margt annað sem ég hirði ekki að nefna nú, ef það hefði verið hafinn undirbúningur þessara laga í sumar með umræðum á opinberum vettvangi. Það hefði verið mikið glapræði, eins og þá var allt í pottinn búið. Það var hyggilegt að setja þessi lög á með nokkurri skyndingu miðað við það ástand sem þá var ríkjandi. Ef það hefði ekki verið gert er vissa fyrir því, eins og hér hefur verið sagt og raunar vitnað til, að þeir betur stæðu, þeir betur megandi hefðu birgt sig upp af fóðri. Til þeirra hefði þessi aðgerð, sem vissulega var harkaleg, ekki náð. Hún hefði ekki verkað á framleiðslu þeirra, sem voru venjulega stærstu aðilarnir í þessum efnum. Enn fremur hefði það verið svo, að þeir aðilar, sem nota mjög mikið kjarnfóður, mjög mikið innflutt fóður, jafnvel svo skiptir nokkrum tonnum á dag, hefðu átt hægt með að birgja sig upp þannig að til þeirra hefði þessi gjaldtaka ekki náð í fyrstu lotu og þannig komið fram ófyrirgefanlegt misrétti.

Út af því, hvort það hafi verið réttlætanlegt eða hvort það stangist á við stjórnarskrána, eins og hv. síðasti ræðumaður var með bollaleggingar um, að setja þessi brbl., vil ég aðeins taka það fram, að bollaleggingar hv. þm. Halldórs Blöndals um að ríkisstj. hafi ekki meiri hl. á bak við þessa lagasetningu eru tilefnislausar. Þær bollaleggingar eru út í hött eins og ýmislegt fleira sem frá þeim hv. þm. hefur komið í seinni tíð. Ég skal ekki hafa fleiri orð um það efni.

Hv. þm. Steinþór Gestsson vitnaði til orða minna á þingi, að ég ætla 1978, þar sem sagði að ég teldi að 25–30% skattur á fóðurbæti komi ekki við þá betur stæðu og hefði lítil áhrif á framleiðslumagn. Þetta er út af fyrir sig allt rétt og stendur enn í dag. 25–30% eða 33% skattur, sem nú er í gildi, er ekki sérstaklega sterkur til áhrifa á framleiðsluna. Hann er ekki mjög áhrifaríkur ef ekki er öðrum ráðum beitt. Hins vegar var fóðurbætisgjaldið ákveðið 200% til að hafa þessi miklu áhrif, til þess að bændur, mjólkurframleiðendur, gæfu ekki innfluttan fóðurbæti í stórum stíl og áhrifin kæmu þá þannig fram.

En út af þeim orðum, sem hér hafa fallið, að með þessu væri um stórkostlega skattlagningu á bændur að ræða og hér væri gerð aðför að rekstri þeirra og efnahag, vil ég aðeins segja það, að enginn er knúinn til að gefa mjög mikið kjarnfóður að sumarlagi ef um sæmilega beit er að ræða fyrir mjólkurkýr. Það er mönnum í sjálfsvald sett, hvort og hversu mikið þeir kaupa af þessu fóðri, og þeir geta þá hagað sínum framleiðsluháttum í samræmi við það. Ef þetta gjald hefði ekki verið sett á og framleiðsla mjólkur hefði orðið — við skulum segja 3 millj. eða 4 millj. lítra meiri en raun varð á og ekkert fé hefði verið lagt fram af hálfu ríkisins til að mæta þeirri framleiðslu eða engir peningar hefðu dottið af himnum ofan, þá hefðu bændur í raun og veru fengið minna en ekkert fyrir þessa framleiðslu. Útflutningsverðið hefði aðeins greitt vinnslukostnaðinn þegar best lét og þá var ekkert eftir til að greiða bóndanum upp í þann rekstrarkostnað sem hann hafði lagt í. Því segi ég: Þá hefðu bændur fengið minna en ekkert, nema unnt hefði verið að finna pólitískan vilja fyrir því að bæta enn við aukna aðstoð ríkisins til þess að bæta upp þá framleiðslu. Þetta verða menn að hafa í huga þegar þeir dæma þessa hlið mála.

Gjaldið var sem sagt ákveðið svo hátt sem raun varð á til að hafa áhrif á framleiðslumagn. Ef gjaldið hefði verið ákveðið lágt, t.d. 25–30 eða 33%, hefði það ekki verið ákveðið til að hafa mikil áhrif á framleiðslumagn, heldur til þess eins að safna fé í verðjöfnunarsjóð til endurgreiðslna til bænda. Það kemur algjörlega heim og saman við það sem ég sagði í þeirri þingræðu sem hv. þm. Steinþór Gestsson vitnaði til áðan.

Um það, hvort lögin séu óljós eða óglögg, eins og hv. þm. orðaði það, vil ég aðeins segja þetta:

Í brbl. eru gefnar heimildir til endurgreiðslna á kjarnfóðurgjaldi. Þar eru ekki fyrirmæli um hvernig þeim endurgreiðslum skuli háttað eða til hverra þátta þeim skuli varið. Megininntak þessara laga og megininntak lagasetningar af hálfu Alþ. upp á síðkastið varðandi breytingar á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins o.fl. er að gefa auknar heimildir til Framleiðsluráðs og Stéttarsambands bænda, rýmka þær heimildir sem fyrir voru í lögum. Þar á meðal er þetta, sem hv. þm. kallaði óljóst eða loðið, að veita breytilegar heimildir til endurgreiðslu eftir innlögðum afurðum, eftir bústærð, eftir landshlutum og eftir búgreinum í einstökum landshlutum.

Vel má vera að þessi upptalning sé ekki nægilega tæmandi. Hitt er ljóst, að það getur verið misjafnt ástand í einstökum landshlutum. Það getur þurft að beita þessu. Það getur verið um kal og sérstök harðæri að ræða í tilteknum landshlutum þó það sé ekki annars staðar. Það getur verið um mjólkurskort að ræða á tilteknu afmörkuðu svæði þó að sé ekki annars staðar. Það getur sem sagt þurft að mæta breytilegum aðstæðum og til þess eru lögin sett. Þau hafa það inntak að gefa heimildir til þess að hægt sé að mæta breytilegum aðstæðum í framleiðslu, veðurfari og fóðurbirgðum.

Hv. þm. Steinþór Gestsson lýsti andstöðu við brbl. og andstöðu við fóðurbætisgjald eins og það var lagt á s.l. sumar. Það var vitaskuld í fullu samræmi við þá ræðu sem hann flutti hér. Nú talaði hv. þm. ekkert hlýlega um þær aðgerðir aðrar sem unnið er að í þessum málum, þar á ég við kvótakerfið, en látum það vera. Hv. þm. hefur flutt hér ásamt öðrum till. til þál. á þskj. 111. Í grg. þessarar þáttill. segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sjálfstfl. er andvígur því fyrirkomulagi í stjórn framleiðslumála er byggist á framleiðsluskömmtun eða kvótafyrirkomulagi, eins og sú aðferð er jafnan nefnd.“

Þarna kemur það fram. Hv. þm. er andvígur aðgerðum sem nú eru í gangi og Stéttarsamband bænda og Framleiðsluráð landbúnaðarins hafa undirbúið og valið af þeim leiðum sem lög heimila. Ég skal ekkert áfellast hv. þm. fyrir þetta, en enn segir í sömu grg., með leyfi forseta:

„Notkun kjarnfóðurs hefur tekið breytingum eftir verðlagi þess á hverjum tíma, sem síðan hefur komið fram í aukinni framleiðslu. Þetta sýnir, að kjarnfóðurgjald er áhrifamikil leið til að stjórna framleiðslu á búvörum.“

Miðað við þetta ætti hv. þm. að hafa mælt með þessu frv., en ekki á móti því. Ég verð að segja það, að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með að finna þennan tvískinnung í málflutningi hv. þm. annars vegar og þeim þskj., sem hann ásamt öðrum leggur fyrir Alþ., hins vegar.

Málið, sem við höfum við að etja, er þetta: Mjólkurframleiðslan er meiri og hefur verið meiri en við höfum markað fyrir. Við höfum í lögum ákveðna verðtryggingu frá ríkinu til að mæta halla af útflutningi búvara. Þessi verðtrygging dugar ekki til þess að fullu verði verði náð. Það er sameiginleg stefna bændasamtakanna og það hefur verið vilji stjórnmálaafla í landinu að draga úr þessum mismun og að nálgast það í mjólkurframleiðslunni að við færum hana til samræmis við innlendan markað. Þessum málum fylgja erfiðleikar. Þó að þeim fylgi erfiðleikar verðum við samt að taka á þeim. Við getum ekki búið við þetta ástand ótiltekinn tíma til frambúðar. Þess vegna verðum við að beita þeim ráðum sem verka í því efni að ná takmarki okkar. Og ég held að það blandist fáum hugur um að þau brbl., sem nú er leitað staðfestingar Alþingis á, hafi verið sú aðgerð sem mest hefur verkað og er þess vegna rökrétt til að framfylgja því sem bæði bændasamtökin og Alþingi hafa talið rétt að stefna í þessum málum.

Auðvitað var margt fleira í ræðu hv. þm. Steinþórs Gestssonar sem ástæða hefði verið að ræða nánar. Ég tel þess þó litla þörf, enda þótt þetta séu mál þess efnis, að þau séu það flókin og viðamikil að þau megi ræða í mjög löngu máli. Ég vil þó aðeins leiðrétta eitt sem fram kom hjá hv. þm. Steinþóri Gestssyni. Hann sagði að ég hefði sagst hafa ritað bréf til Framleiðsluráðs þar sem ég hefði mælst til þess að þeir, sem hefðu minni framleiðslu en 300 ærgildi, fengju fullt verð fyrir framleiðslu sína. Þetta er ekki alls kostar rétt. Staðreyndin er hins vegar að ég ritaði Framleiðsluráði bréf með samþykki ríkisstj. Þar sem ég mæltist til þess að fyrstu 300 ærgildisafurðir hvers bónda yrðu greiddar fullu verði. Það er allt annað því það nær yfir fyrstu 300 ærgildisafurðir stórbændanna einnig. Á þessu er mikill munur. — Þetta vildi ég aðeins taka fram, ef hv. þm. hefur misskilið þetta, en vel má vera að það hafi verið. Það ætti þá að liggja ljóst fyrir núna.

Þá gat hann þess, að í frv. væru engin fyrirmæli um ráðstöfun fjárins. Þess er vitaskuld ekki þörf að koma því að í brbl., því að það vinnst nægur tími til þess fyrir Alþ. að fjalla um þann þátt málsins. Ef Alþ. kýs að setja ákveðin fyrirmæli um hvernig fénu, sem inn kann að koma, verður ráðstafað er nægur tími til þess enn þá. Það var engin þörf á því á vordögum á þessu ári.

Ég skal ekki eyða orðum að ræðu hv. 7. landsk. þm. umfram það sem þegar hefur verið gert. Ég vil aðeins svara því, sem var spurning hans í lokin til mín sérstaklega, hvort landbrn. hefði ákveðið að gera könnun á framkvæmd skattalaga gagnvart bændum á harðindasvæðunum, eins og hann orðaði það. Síðsumars, í ágústmánuði, var ákveðið af fjmrh., sem fer með skattamál í landinu, að láta gera sérstaka könnun á því, hvernig skattalögin og framkvæmd þeirra hefðu komið við bændur. Sú athugun stendur yfir og er ekki lokið. En ég hef látið þess getið annars staðar að ég tel að það verði að gera breytingar á skattalögunum hvað snertir áhrif þeirra á bændastéttina.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að ræða bollaleggingar hv. 7. landsk. þm., hvorki um landbúnaðarmálin, eins og þau komu fram í ræðu hans, né um ákvæði stjórnarskrárinnar og annað sem þar voru höfð orð um.