19.11.1980
Neðri deild: 20. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

85. mál, þingfararkaup alþingismanna

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það er eitt af grundvallaratriðum í stjórnskipun eins og þeirri sem við höfum, að mismunandi þættir ríkisvaldsins eigi að hafa eins konar eftirlit hver með öðrum, vera eins konar hemlar hver á annan. Þannig gegnum við því hlutverki hér á löggjafarþinginu að fylgjast vandlega með framkvæmdavaldinu og ríkisstj. og dómstólarnir fylgjast með afleiðingum af því sem báðir þessir aðilar gera. Ég tel því, að síður en svo sé neitt við það að athuga að Alþ. ákveði að utanaðkomandi aðili skuli setja taxta fyrir kaupgjald og önnur kjör alþm.

Ég held að það sé viðurkennt að þjóðhöfðingjar, forseti í okkar tilviki, konungar og drottningar annars staðar, séu æðstu aðilar stjórnvalda hver í sínu ríki. Hví í ósköpunum skyldi forsetinn ekki ákveða sín kjör sjálfur ef hann hefði sama stolt og sumir þm. hafa hér? En hverjum dettur slíkt í hug? Ég veit ekki betur en fjárveitingavaldið úthluti þjóðhöfðingjum kaupi og öðrum kostnaði í öllum löndum þar sem ég hef til frétt.

Þar sem þing hafa haft í eigin höndum ákvörðun á kaupgjaldsmálum þm. hefur reynslan yfirleitt orðið sú, að hinn raunverulegi ákvarðandi er ríkisstj. Ríkisstj. er á hverjum tíma háð ýmsum pólitískum sveiflum, og hefur hvað eftir annað komið fyrir, að óviðkomandi pólitískir atburðir hafa haft áhrif á eðlilegar ákvarðanir um kjör þm.

Ég tel að sú hugmynd, að Alþ. sé svo hátt yfir aðra hafið í þessu landi að það geti ekkert vald frá sér látið og eigi að ráða öllum sínum málum, sé valdahroki. Ég held að alþm. ættu að skoða vandlega kostnað Alþingis, hvernig hann hefur rokið upp úr öllu valdi og mun víst vera kominn hátt á þriðja milljarð, og íhuga það, að svo miklir menn erum við að venjuleg endurskoðun eða önnur prófun á þessum kostnaði eða gagnrýni á honum á sér ekki stað. Einir allra manna í þessu landi getum við sem stofnun gefið út ávísanir nokkurn veginn eftir vild og það er enginn sem vefengir þær.

Ég tel að þetta frv. sé eðlilegt skref sem við hefðum átt að taka fyrir löngu. Það hafa eldri þing — breska þingið — fyrir nokkru stigið sams konar spor. Það var nefnd manna utan þings sem tók ákvörðun um hver launakjör þm. ættu að vera þar, og geri ég ráð fyrir að röksemdir hafi verið svipaðar þar, en þeir stigu þetta skref þó. Ég tel að efni þessa frv. sé sjálfsagt og við hefðum átt að vera búnir að gera þetta fyrir löngu.