20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (682)

92. mál, efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég verð nú að taka undir með hv. þm. Halldóri Blöndal fyrirspyrjanda, að menn voru ekki miklu nær eftir svar hæstv. forsrh. Það er enn eftir 10 mánaða starfsferil ríkisstj. verið að reikna og reikna og ekki hægt að segja hvort till. verði kunngerðar hér á þingi fyrir jól eða ekki, en myntbreytingin á að fara fram 1. jan. n.k. Þetta eru auðvitað engin svör. En í Morgunpóstinum í morgun var viðtal við hæstv. viðskrh. og hann endurtók að vísu fréttatilkynningu ríkisstj., að verðbólgan væri að hjaðna, en sagði að nú væri búið að hlaða byssuna að nýju og það mætti búast við 70% verðbólguvexti frá byrjun til loka næsta árs, hvorki meira né minna. Aðrar spár segja 80–90%.

Nú er spurningin: Hver hefur hlaðið verðbólgubyssuna? Launasamningar hafa farið eftir kokkabókum ríkisstj. Að vísu sögðu hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. að það mættu engar grunnkaupshækkanir eiga sér stað. En þeir gerðu samninga við opinbera starfsmenn sem urðu forsenda fyrir 10–11% grunnkaupshækkun á almennum vinnumarkaði, og þetta sagði hæstv. viðskrh. að væri að hlaða verðbólgubyssuna að nýju. Hver hlóð verðbólgubyssuna að nýju? Það er hæstv ríkisstj. sem hefur hlaðið verðbólgubyssuna og er þess vegna orsök þeirrar verðbólguöldu sem hæstv. viðskrh. gerði að umtalsefni. Nú er spurningin: Í hvaða átt stefna væntanlegar efnahagsráðstafanir? í hvaða átt beinir hæstv. ríkisstj. verðbólgubyssunni? Beinir hún verðbólgubyssunni að almennum lífskjörum landsmanna? Eða beinir hún verðbólgubyssunni e.t.v. til þess að stytta sjálfri sér aldur? Nema hvort tveggja verði.