20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (687)

92. mál, efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Hv. þm. Albert Guðmundsson bar hér í fyllstu kurteisi fram eina fsp. til hæstv. forsrh. Hún var á þá leið, hvort ekki væru nú sömu forsendur fyrir eða öllu heldur hvort ekki væri nauðsyn á sömu ráðstöfunum nú og fyrirhugaðar voru þegar lög voru samþ. um gjaldmiðilsbreytingu. Við vitum það, stjórnarandstæðingar, að hæstv. forsrh. virðir okkur ekki svars. Hann hefur ekki gert það, hve ítarlega sem við höfum spurt hann. En nú vill svo til að hv. þm. Albert Guðmundsson hefur hingað til varið þessa ríkisstj. falli. Hann er ekki stuðningsmaður ríkisstj. og hefur aldrei verið, sem betur fer, en hann lýsti þó yfir að hann mundi verja þessa stjórn falli.

Ef við stjórnarandstæðingar eigum ekki heimtingu á því og íslenska þjóðin að fá að vita um skoðanir hæstv. forsrh. og fá svör við einföldum spurningum, þá skyldi maður þó ætla að maður eins og hv. þm. Albert Guðmundsson ætti heimtingu á þeirri sjálfsögðu kurteisi af hálfu hæstv. forsrh. að hann svaraði svo einföldum spurningum. Það var líka athyglisvert, að hv. þm. lýsti yfir að ef ekkert yrði að gert væri hann hlynntur því að fresta gjaldmiðilsbreytingunni. Það er ég líka. Við stjórnarandstæðingar höfum boðist til að aðstoða ríkisstj. við undirbúning að gjaldmiðilsbreytingunni, ef hún á að fara fram 1. jan. Við erum enn þá reiðubúnir til þess. En við getum það auðvitað ekki nema við náum samstarfi við ríkisstj., við fáum einhverjar upplýsingar um hvað það sé sem hún hyggst gera, hvað það sé sem felist í lopanum sem birtist í stefnuræðu hæstv. forsrh. Frá þeim manni koma aldrei svör við einu eða neinu. Þó er þetta forsrh. lýðveldisins Íslands. Ég trúi því ekki, að þessari umr. verði svo lokið hér í dag að hæstv. forsrh. móðgi hv. þm. Albert Guðmundsson með þeim hætti að virða hann ekki svars, að svara hér engu. Ég skora á hann að svara fsp. hv. þm.