20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

92. mál, efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Út af fsp. hv. 1. þm. Reykv. vil ég taka þetta fram:

Því er yfir lýst og ætti ekki að dyljast fyrir neinum, að ríkisstj. mun beita sér fyrir því og leggja til við Alþingi að lengja þann aðlögunarfrest verðtryggingar, sem ákveðinn er í lögum um stjórn efnahagsmála. Þessu var lýst yfir í stefnuræðu 23. okt. á þá lund, að ríkisstj. telur að lengja þurfi aðlögunarfrestinn um eitt eða tvö misseri. Þetta liggur fyrir.

Í öðru lagi vitnar hv. þm. í að nú sé spáð 70% verðbólgu á næsta ári og það stangist gersamlega á við þær tölur sem fjárlagafrv. byggir á. Hér fer hv. þm. gersamlega villur vegar, vegna þess að þær hugmyndir, sem nefndar hafa verið um 70% verðbólgu á næsta ári, eru á því byggðar að ekkert verði að gert, heldur að allt haldi áfram án þess að nokkrar aðgerðir komi til. Nú er því margyfirlýst og hv. þm. vita það ósköp vel, að ríkisstj. undirbýr margháttaðar aðgerðir til þess einmitt að veita viðnám gegn verðbólgunni.