20.11.1980
Sameinað þing: 22. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (694)

92. mál, efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Þessar umr. fara nú að verða ansi athyglisverðar. Hér gerist það að einn nm. í svokallaðri efnahagsmálanefnd hæstv. ríkisstj. kemur í ræðustól, segir reyndar ekkert um störf þessarar nefndar, beinir síðan spjótum sínum að hæstv. viðskrh. og telur að hann sé að hlaða verðbólgubyssu, nefnir í því sambandi bankamálin og gjaldskrármálin. Þetta verður ekki skilið öðruvísi en svo, að formaður þingflokks Alþb., hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, sé að segja að aðgerðir eða aðgerðaleysi hæstv. bankamálaráðh. sé helsti verðbólguhvatinn í þessu landi, — það sem ekki sé gert eða gert í bankamálum, útlánaþenslan væntanlega og gjaldskrárákvarðanir, sé það sem helst veldur verðbólgunni í þessu landi.

Mig langar til þess að rifja upp ummæli þessa sama hv. þm., formanns þingflokks Alþb., þegar hann sagði um formann Framsfl., hæstv. ráðh. Steingrím Hermannsson, að blaðrið í Steingrími væri mesta efnahagsbölið á Íslandi. Nú hefur þessi sami hv. þm., formaður þingflokks Alþb., komið í ræðustól, snuprað hæstv. ráðh., sagt að verðbólgan eigi rætur hjá hæstv. viðskrh., og það vekur athygli, að sá hinn sami, sem stundum hefur verið kallaður kjarkmaður hinn mesti og drengur góður og allt það, situr og þegir undir öllu saman. Hvar er kjarkurinn, Tómas?